99. That's all folks

Það er hætt við að ekki verði fleiri færslur á Hnoðrablogginu.

Segi ég, og tek sénsinn á að vera dramatískur.

Morgunblaðið lokaði fyrir fréttatengingar í nafnlaus blogg í byrjun árs. Þetta blogg hefur einkum verið til að kommenta við fréttir, og aðalhvatinn fyrir skrifunum að leyfa rödd frelsis til athafna og siða að heyrast í þeim mikla siðavöndunar- og forræðishyggjukór sem yfirleitt hljómar í bloggtengingum við fréttir.

Ákvörðun Morgunblaðsins er svosem skiljanleg, en ekki sérstaklega göfug. Nafnlaus umræða er erfið viðfangs en oft á tíðum nauðsynleg til að allar skoðanir fái að heyrast. Þær skoðanir sem setja þarf fram í nafnleysi eru ekki endilega rangar, og raunar oft réttari en það sem maður getur óhræddur sagt á torgum. Þess þekkjast mörg dæmi í sögunni að vitrir einstaklingar hafa þurft að tjá sig nafnlaust um viðkvæm mál og móta þær skoðanir sem þeir gátu sett fram í skjóli nafnleysis viðhorf okkar í dag, til hins betra.

Þetta hefur verið ágætis törn. Mikið hefur t.d. þurft að skrifa um fráleita dómahegðun í kynferðismálum þar sem farið er að refsa harðlega unglingum fyrir að sofa hjá öðrum unglingum. Einnig hafa skattar og einkennilegar stjórnmála- og skipulagsáherslur verið til umræðu.

Þegar litið er yfir ferilinn þá virðist flest hafa verið ágætlega skrifað. Það er helst áberandi hversu afskaplega mikið af víðáttuheimskum hugmyndum kemur fram hjá þeim sem einhverju ráða hér á landi, hvort heldur það eru skipulagshugmyndir um lestar eða tillögur kennarafélaga um að ekki megi kenna á leikskóla án þess að vera með framhaldsgráðu frá háskóla.

Full þörf hefur aldeilis verið fyrir þetta blogg, en nú er þessu lokið í bili.

...eða kannski maður skelli sér í pólitík? Launin eru ekki svo amaleg á þingi.


98. Hvenær var það samþykkt að endurbyggja húsin?

Einhvern veginn fór hún fram hjá mér sú umræða sem endaði með því að ákveðið var að endurbyggja þessa kumbalda.

Hvaða pólitíkus á heiðurinn að þessari niðurstöðu? Ágætt að halda því nafni til haga.

Ekki voru þetta spennandi hús og komin úr algjöru samhengi við byggingarnar sem reistar hafa verið í kring. Á þessum reit á að vera amk 4-5 hæða bygging, en ekki tveggja hæða gervi-antík með kebab-búllu og næturklúbb eins og var.

Byggingin má svo vera smekkleg og vönduð, leita innblásturs í Apóteksbyggingunni og Hótel Borg frekar en eitthvað annað. Eitthvað í anda fallegri bygginganna á Oxford stræti eða Champs-Élysées gæti gert mikið á þessum stað.

Og þá kannski fer að verða einhver von til að hjarta miðbæjarins öðlist einhverja reisn.


mbl.is Timburþilið lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

97. Líf 18 ára pilts eyðilagt

Eins og svo oft í íslenskum kynferðisbrotamálum er mjög áhugavert að lesa þennan dóm, sem aðgengilegur er á heimasíðu Hæstaréttar. (hér: http://www.haestirettur.is/domar?nr=5557)

Glöggir lesendur muna kannski eftir að ég skrifaði örlítið um fyrir umferð málsins fyrir dómstólum, sem vakti mikla hneykslan þegar drengurinn var sýknaður í héraði. (sjá hér: http://hnodri.blog.is/blog/hnodri/entry/444901)

Eftir að hafa hraðlesið nýja dóminn sýnist mér með ólíkindum að drengurinn, sem var 18 ára þegar meint brot var framið, skuli hafa verið sakfelldur, og efast stórlega um að sektardómur hefði getað fallið í máli ef þessu tagi í öðrum vestrænum réttarríkjum.

Jón Steinar Gunnlaugsson færir vönduð rök fyrir því í sératkvæðinu að verjandi nýtur ekki sannmælis fyrir dómstólum í seinni umferð málsins. Það er lagt á hinn ákærða að sanna sakleysi sitt, frekar en kærandann að sanna sekt hans.

Stúlkan er í glasi, hún gerir sér dælt við guttann. Þegar hann kemur inn á salernið til hennar sýnir hún engan mótþróa og á henni eru engir áverkar sem sýna að henni hafi verið þröngvað til samræðis. Framburður hans er stöðugur og studdur af sönnunargögnum. Framburður hennar breytist og skortir sönnunargögn.

Það er ekkert sem sannar það að mökin hafi verið nauðgun og verði þessi afleiti dómur fordæmisgefandi mega landsmenn nú fara að vara sig, því það hvílir eftirleiðis á karlmanninum að sanna að hvers konar mök sem hafa átt sér stað hafi verið með upplýstum vilja konunnar -hvaða kona sem er getur núna haldið því fram eftir þvingunarlaus mök að sér hafi verið nauðgað, og fengið fram sektardóm og bætur.

Það er ekki ómögulegt að brotið hafi verið á konunni, þó mér þyki reyndar flest benda til hins gangstæða. En það þarf meira til en möguleika til að hægt sé að dæma mann í refsingu. Það þarf sannanir. [Viðauki: Það sem meira er, hann gat ekki annað skilið af hegðun hennar en hún væri hlynnt mökunum -ef hann braut gegn henni, þá gerði hún honum það með engu móti ljóst að hún vildi ekki mökin, og hún segir það sjálf að það var ekki fyrr en að loknum mökunum að hún gaf óánægju sína í ljós með einhverju móti]

Það er örugglega sárt fyrir þolendur kynferðisbrota að þurfa að sjá þann sem á þeim braut komast undan dómi -en það þarf að gera ríkar kröfur um sönnun til að refsa megi mönnum fyrir meinta glæpi. Það er betra að 1000 nauðgarar komist hjá refsingu en að einn saklaus maður verði dæmdur sekur. 

Mig grunar að afstaða dómstóla litist af umfjöllun fjölmiðla og gagnrýni hinnar háværu siðavöndunarklíku á hvers kyns sýknudóma í kynferðisbrotamálum. Mig grunar líka að afstaða dómsins litist af því að hinn seki er af erlendum uppruna.

Unglingspiltur (hann er núna 19 ára) sem eitt kvöld átti skyndikynni með unglingsstelpu, sem með engu móti sýndi að hún væri mótfallin mökunum (nema síður sé!), þarf að eyða þremur af sínum bestu árum í fangelsi, reiða fram 1,5 milljónir í bætur og röskar 3 milljónir í málskostnað. Eftirleiðis verður hann með nauðgunardóm á bakinu.

Þetta er skelfileg þróun, og til skammar fyrir íslenskt réttarkerfi og íslenskt samfélag. Ég er hneykslaður og með miklar áhyggjur af því hvert stefnir.

Forvitnilegt væri að sjá þetta mál fara fyrir yfirþjóðlega dómstóla Evrópu.

p.s. Það er ánægjulegt að sjá að af þeim litlu viðbrögðum sem komin eru á Moggablogginu við þessu máli virðist meirihlutinn lýsa furðu á niðurstöðu dómstóla.


mbl.is Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

96. Cry me a river

Ég á ósköp bágt með að vorkenna fasteignasölum.

Þegar maður lítur á sölutölurnar, núna þegar markaðurinn er helfrosinn, þá er ekki annað að sjá en fasteignasalarnir  eigi að geta haft það bærilegt miðað við marga aðra.

Forsendurnar eru þessar:

Heildarvelta síðustu söluviku var 1.185 milljónir á helstu sölusvæðum.

Ef maður skimar heimasíðu félags fasteignasala má þar telja eitthvað yfir 200 löggilta félagsmenn

Algeng söluþóknun er 1,5%

1.185.000.000 kr x 1,5% / 200 fasteignasalar x 4,3 vikur mánaðarins = 382.000 kr í mánaðarlaun að jafnaði.

Auðvitað þurfa grey skinnin að standa straum af einhverjum rekstrarkostnaði, en þeir ættu alveg að geta lifað af þessu.

Á bak við þessa veltu eru 41 eign, sem jafngildir að hver löggiltur meðlimur í félagi fasteignasala þurfi að selja 0,8 eignir á mánuði. -Ég held það sé ekki amalegt að fá nærri 400.000 kr fyrir að framkvæma tæplega eina sölu á vinnumánuði.

Og þetta eru launin sem þeir eru með í algjörri markaðskreppu. Hvernig var þá ástandið á þeim þegar veltan var margfalt meiri?


mbl.is Um 80% hafa misst vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

95. Ekkert að þessum spjöldum

Agaleg viðkvæmni er þetta hjá fólki.

Hið besta mál að vekja á því athygli að útlendingar geta gert góð kaup á Íslandi núna. Því fleiri útlendingar sem grípa gæsina, og því meira sem þeir kaupa, því meiri gjaldeyrir kemur til landsins, og því fyrr réttir gengið sig af í það sem við viljum kalla heilbrigt gengi.

Lýsir aðallega minnimáttarkennd og rembu ef fólk fær fyrir hjartað af svona skilti. Mín vegna mættu þau vera fleiri, þessi spjöld, og helst á stórum auglýsingaskiltum í helstu borgum heims.


mbl.is Auglýsingaspjöld tekin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

94. Almennir starfsmenn RÚV einnig með eðalkaup

Það er gaman að rýna betur í launatölurnar.

Ekki er nóg með að lykilstjórnendur fyrirtækisins séu með firnagott kaup, heldur eru meðallaun almennra starfsmanna alls ekki amaleg miðað við það sem gengur og gerist á fjölmiðlamarkaði.

Í ársskýrslunni kemur fram að laun voru 1.756 milljónir (og launatengd gjöld 393 milljónir). Þetta skiptist á 324 störf.

Ef við drögum frá lykilstjórnendurna og launin þeirra gerir það að meðaltali 437.000 kr á hvern undirsáta í fyrirtækinu per mánuð (og 96.000 kr að auki í launatengd gjöld).

Eitthvað þekki ég til á fjölmiðlamarkaði og þykist vita að þetta þættu fjarskagóð laun á þeim fjölmiðlum sem ekki njóta ríkisstyrkja og skylduáskriftar.

 

Viðauki:

Margt annað áhugavert leynist í ársreikningnum. Launakostnaður fyrirtækisins hefur næstum þrefaldast frá síðasta tímabili (laun úr 692 milljónum í 1.756 milljónir).

Fjármagnsgjöld hafa fjórfaldast, voru 160 milljónir 2007 en eru nú 874 milljónir!!

Tekjur af afnotagjöldum aukast um 1,7 milljarða (154%), úr 1,1 milljarði í 2,8 milljarða, Auglýsingatekjur fara nærri því að þrefaldast, úr 516 milljónum í 1,36 milljarða. -Þrátt fyrir þessa miklu aukningu tekna (sem að stórum hluta skrifast á hækkuð afnotagjöld handa þjóðinni, lendir fyrirtækið í svona drastískri krísu.

 

Ef ég ætti fyrirtækið þá myndi ég skipta um yfirstjórn, eftir svona frammistöðu.

...hver á annars þetta fyrirtæki?


mbl.is Árslaun útvarpsstjóra 18 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

93. Líf ungs manns eyðilagt

Nú hefur hann enn eitt tækifæri til að fara af stað, siðavöndunarkórinn á Moggablogginu. Þegar þetta er skrifað eru komnar tvær færslur við fréttina og báðar á þann veg sem von er á.

En það er fróðlegt að lesa dóminn, og lesa hann þá sérstaklega með þeim gleraugum að maður tekur ekki sjálfkrafa afstöðu gegn kynlífi unglinga og gegn eldri aðilanum/karlmanninum sem átti hlut að máli.

 

Hann var 19 ára þegar þetta gerðist, hún átti 1-2 mánuði eftir í 13. Frænka hennar, tveimur árum eldri, eggjar hana á að slá til og fara á stefnumót með stráknum sem hún hafði spjallað við á netinu.

Á fyrra stefnumótinu kyssast þau. Fyrsta skiptið sem hún kyssir strák.

Seinna skiptið hafa þau mök. Hann spurði hana hvort hún vildi halda áfram. Hún svarar hvorki af né á. Í dómnum er það týnt til að hún "ætti erfitt með að segja nei," hvað svo sem það á að þýða. Eiga allir sem "eiga erfitt með að segja nei" að vera orðnir fórnarlömb núna? Segir ekki flest fólk nei og stopp þegar það sér fram á að það á að fara að beita það einhverju sem það vill aldeilis ekki? -Eitthvað sem er svo svakalega skemmandi og hættulegt að jaðrar við háar bætur og langa fangelsisvist að fremja?

Það kemur fram að hún hafi verið hrifin af stráknum. Hún vildi ekki að málið væri kært. Hún hafði sendi á hann skeyti einhverju síðar en hann átti ekki við hana samskipti eftir mökin.

Pabbinn kemst á snoðir um hvað gerist, og þegar þangað er komist virðist hafa tekist að koma stelpunni í slíkt ástand að hún segist hafa orðið fyrir nauðgun þegar henni er ekið niður í Stígamót.

Það virðist ganga ósköp illa hjá ákæruvaldinu að sýna fram á að stúlkan hafi orðið fyrir einhverju andlegu áfalli vegna sjálfra makanna. Eitt vitnið segir að honum "þætti eins og stúlkan hefði frekar einangrað sig í kjölfar atviksins (aldeilis!), en þar sem hún væri mjög samviskusöm virtist sem þetta hefði ekki komið niður á árangri hennar í námi."

Það er sumsé gengið út frá því að hún hljóti að hafa orðið fyrir áfalli, en það sést bara ekki af því hún er svo samviskusöm. Það var þá aldeilis áfallið. Hún virðist hafa "frekar einangrað sig".

Það kemur fram að stúlkan hafi verið döpur -en það var vegna þess að hún var hrifin af manninum, og vildi ekki að yrði kært, að því er kemur fram í dómnum.

 

Þegar maður skoðar þetta, og reynir að halda aðeins aftur af sér í hleypidómunum, verður maður að spyrja: Hvað var það sem gerði stúlkuna að fórnarlambi? Var það strákurinn sem hún lét til leiðast að hafa mök við, eða voru það hysterískir foreldrarnir, sálfræðingarnir og Stígamótaráðgjafarnir sem sögðu henni að hún hefði orðið að fórnarlambi alvarlegs glæps? Var hún "döpur" vegna þess að "siðblindur  og ósvífinn perri" blekkti af henni sakleysið, eða vegna þess að hann virtist missa á henni áhugann eftir mökin? Gerði strákurinn henni eitthvað annað tjón en að valda fyrstu ástarsorginni?

Eru lögin á réttri braut þegar 19 ára strákvitleysingur hlýtur þungan refsidóm fyrir að gera með tæplega 13 ára unglingi það sem náttúran segir unglingum að gera?

Hann fær að dúsa í steininum í tvo mánuði, og yfir honum vofa 12 mánuðir til viðbótar skilorðsbundnir. Svo þarf hann að borga rúma milljón í bætur og laun til lögmanna.

Hver olli mestum skaða hérna? Hver er að sýna óeðlilega hegðun og eyðileggja líf? Er það strákurinn, eða eru það íslenskir dómstólar og lög?

 

Ég vil líka nota tækifærið og minnast dóms sem féll fyrir nokkrum vikum. Þar var strákur dæmdur til refsingar fyrir að hafa haft mök við 14 ára stelpu þegar hann var sjálfur 18 ára.  Hann slapp með skilorðsbundinn fangelsisdóm en þarf að borga nærri 1,3 milljónir í bætur og skarkostnað. Maður er gáttaður.

Lögin sem dómarnir byggja á geta þýtt það að dómsvaldið þarf að dæma til refsingar t.d. 16 ára ungling sem sængar hjá 14 ára unglingi. Við gætum farið að sjá 15 ára strák eða stelpu sitja uppi með þungan dóm á herðunum og svimandi fjárhæðir í bætur og kostnað fyrir að hafa stundað kynlífsfikt með öðrum 12-13 ára strák eða stelpu.

Svona er Ísland orðið og mega þeir taka á sig sökina sem hafa öskrað hvað hæst í því að herða og þyngja alla löggjöf sem hefur með kynhvöt landsmanna að gera.

 

Til skrauts hengi ég hér við mynd af amerísku söngkonunni Miley Cyrus. Geta lesendur getið sér til um hvað hún er gömul á myndinni, og hvort það hefur verið ólöglegt eða löglegt skv. íslenskum lögum að eiga við hana mök með hennar samþykki þegar myndin var tekin.

Strákurinn segist jú hafa haldið að stúlkan væri eldri, og að hún hafi heldur betur ekki litið út fyrir að vera tæplega 13 ára. -Getur verið að hann eigi sér einhverja málsvörn í því?

MILEY_CYRUS


mbl.is Fangelsi fyrir samræði við 12 ára stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

92. Hvernig væri að við fengum þennan pening, sem eigum hann?

Hver á hið opinbera? Er ríkið eign þegnanna, eða er ríkið eign embættismannanna?

70,7 milljarða afgangur síðasta ár. Hver á þann pening. Eru það skattgreiðendur eða eru það embættismennirnir?

Um 235.000 kr á hvert mannsbarn í landinu. Tæp milljón króna á hverja 4 manna fjölskyldu. 

Gerum við þá kröfu til hins opinbera að fá þessa ofrukkuðu skatta til baka? Vitum við best hvernig við viljum ráðstafa þessum verðmætum í eigin þágu, eða er embættismönnum best til þess treystandi?

Fer peningurinn í að borga niður yfirdráttarreikninga heimilisins og kaupa í matinn, eða fara þeir í ráðherraferðir á handboltaleiki og vestnorræna fundi um sjálfbærni í kvenréttindaiðnaði á hjara veraldar?


mbl.is Mikill afgangur af opinberum rekstri í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

91. Farið fádæma illa með stórar fjárhæðir: útreikningar

Hröð gúgglun leiðir í ljós að landsframleiðsla 2005 var 1012 milljarðar (um, 3,3 milljónir á hvert mannsbarn)

Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu og prósentutölunum sem koma fram í greininni má ætla að fjöldi námsmanna sé:

5-14 ára: 44.500

15-19 ára: 18.000

20-30 ára: 17.400

Samtals eru þetta rétt tæplega 80.000 námsmenn.

Mun um 8% af vergri landsframleiðslu hafa verið varið í að mennta þetta fólk, sem gerir rétt tæplega 8,1 milljarð.

Að meðaltali gerir það rétt rösklega milljón á hvern námsmann.

 

Þetta er alveg geypileg fjárhæð og blasir við hversu afspyrnuilla er farið með peningana. Það blasir líka við að einhvers staðar eru peningarnir að hverfa í algjöra vitleysu.

Hversu mikil er viðvera háskólastúdents í hugvísindafagi? Kannski 15 klst á viku, sem gerir þá 540 klst yfir veturinn. Hver klukkustund af kennslu er að kosta 1.851 kr per nemanda. Ef ekki nema 15 manns eru í kennslustundunni ætti kennari að fá borgaðar 27.000 kr fyrir hverja klukkustund sem hann kennir. Eftir 10-20 kennslustundir í mánuði ætti kennarinn að vera komin með gott mánaðarkaup, og eiga þó eftir 140 klukkustundir af vinnuskyldu til að stunda rannsóknir og fræðibókaskrif.

Eða grunnskólarnir: Ef skólaárið kostar 1 milljón, kostar hver af 9 kennslumánuðum 111.000 kr. Ef ekki nema 20 krakkar eru í bekk gerir það um 2,2 milljónir á mánuði til að greiða fyrir menntunina. Hversu mörg stöðugildi þarf til að kenna 20 krökkum sem þurfa að vera 6-7 klst í skólanum á dag? Ef tveir deildu verkinu með sér ættu þeir, ef tölurnar eru réttar, hvor um sig að geta haft röska milljón í laun fyrir að vinna hálfan vinnudag.

 

Hvert eru allar þessar geypilegu fjárhæðir að hverfa? Hvar er ofmannað? Hver er ekki að vinna vinnuna sína? Hvernig stendur á því að við eyðum manna mest í að mennta krakkana okkar, en erum að sýna hvað minnstan námsárangur?

Getur það ekki örugglega verið að frjáls menntamarkaður gæti leyst þetta verkefni betur? Er það ekki deginum ljósara að hið opinbera menntakerfi er óskilvirkt?

 

Svo má endilega bæta því við að ef landsframleiðslu 2005 er deilt á alla vinnandi menn það árið gerir það tæplega 6,3 milljónir á hvern þeirra. Hvar í ósköpunum eru þeir peningar? Hver er að fá þetta í sinn hlut? Ef landsframleiðslan deildist jafnt á alla ættu meðal mánaðarlaun að vera röskar 500.000 kr. Hvert eru þessir fjármunir að fara?


mbl.is Ísland ver mestu til skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

90. Fáránlega dýr og ósniðugur samgöngumáti: upptalning

Þó sporvagnar séu kallaðir "léttlestar" verða þeir ekkert ódýrari í kaupum eða léttari í rekstri. Um einstaklega dýran og óhagkvæman almenningssamgöngumáta er að ræða og með ólíkindum að stjórnmálamenn skuli trekk í trekk fara í "kynningarferðir" til Evrópu að skoða lestarkerfi og borga "sérfræðingum" milljónir á milljónir ofan til að gera úttekt á samgöngumáta sem sést óravegu frá að er út í hött.

1. Lestarnar eru dýrar. Það kostar ekkert smávegis að leggja járnbrautarteina og rafmagnskapla fyrir hverja leið og vagnarnir sjálfir kosta ekkert smáræði. Ef teinarnir eru lagðir ofan í akbrautir veldur það töfum, en ef teinarnir eru lagðir á sér landsvæði, t.d. meðfram vegum, er verið að nota upp dýrt landrými.

2. Kerfið er ósveigjanlegt. Nógu illa hefur gengið að gera gott strætóleiðakerfi í Reykjavík og á hverju ári sjá stjórnendur Strætó til að bæta við og fjarlægja nýjar leiðir. Ef breyta á lestakerfi þarf að leggja nýjar brautir og rafmagnskapla -lestarnar geta ekki notað það vegakerfi sem fyrir er eins og strætisvagnarnir gera. Ef lestarteinarnir eru lagðir ofan í akbrautir, þá þýðir það að bilaður vagn verður líka í veginum fyrir almennri umferð.

3. Kerfið er viðkvæmt. Ef einn vagn bilar, þá er öll leiðin stopp, enda geta sem á eftir fylgja ekki tekið fram úr vagni sem er fastur á teinunum. Alls óvíst er hvernig svona lestarkerfi á að geta gengið í íslensku slabbi og hálku, og roki. Við bætist að borgin er ekki flöt og væri eflaust spennandi að sjá hvernig vagnarnir eiga að geta komist upp brekku í góðri hálku og fannfergi -Hvers konar almenningssamgöngur eru það sem verða lamaðar nokkra daga eða vikur á ári vegna veðurs.

4. Vagnarnir fara hægt yfir. Það er deginum ljósara að sporvagnar komast ekki jafnhratt af stað né geta farið jafnhratt yfir og strætisvagnar. Nógu langan tíma tekur það að komast á milli bæjarhluta í Reykjavík þó ekki sé farið hægar! 

 

Strætisvagnar eru kannski ekki jafnrómantískir. Sporvagnar minna jú á þroskaðar miðevrópuborgir, þar sem veður eru góð og verðlag manneskjulegt. En Sporvagnakerfi eða lestarkerfi í nokkurri mynd dugar engan veginn sem almenningssamgöngukerfi í Reykjavík. Kerfið er of dýrt, of ósveigjanlegt, og vagnarnir fara hægt yfir.

Þeir stjórnmálamenn sem halda áfram að hamra á þessum hugmyndum eru annaðhvort eða bæði vitlausir, fjárhagslega óábyrgir eða blindaðir af miðevrópu borgarrómantík sem á ekkert erindi við Reykjavík.

Þessa stjórnmálamenn á að púa niður.

 

Svo þarf varla að taka fram að það yrði "geðveikislega" dýrt að leggja einhvers konar lest út í Keflavík. Ef lestin ætti að hafa endastöð í RVK einhvers staðar annars staðar en Mjódd, þá þyrfti að leggjast í mikla gangnaframkvæmd til að leiða lestina niður í miðborg. Þar þyrfti að reisa mikla lestarstöð. Lestarnar væru að fara hálftómar milli borgar og flugvallar -þetta yrði ekkert sambærilegt við London og Heathrow. Keflvíkingar sjálfir myndu ekki nota lestina enda er mest hagræði af því að fara í bæinn á bíl og hafa þá samgöngutæki innanbæjar (það er jú ekki hægt að nota almenningssamgöngurnar í borginni).

Sporvagnar í borg og flugvallarlest myndu kosta tugi, ef ekki hundruðir milljarða og gagnast nánast engum. Reiknaði ekki einhver vitringurinn um daginn að miðað við núverandi notkun væri verið að borga tugi þúsunda með hverjum lestarfarþega?


mbl.is Nýjar forsendur fyrir léttlestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband