3. Jón Valur

Textinn hér að neðan átti að verða comment við Jónsvalsbloggið. Þegar textinn var loksins klár var runninn út tímafrestur á athugasemd við viðkomandi grein hjá Jóni. Set athugasemdina mína hér, svo hún fái einhversstaðar að vera.

....

Jón Valur

Skrif þín fara yfirleitt fjarskamikið í taugarnar á mér, en ég freistast samt til að skoða hatursáróðurinn hjá þér endrum og sinnum, líklega vegna þess að ég fæ létt kikk út úr því að sjá hvað þú ert ofstækisfullur, þröngsýnn og manískur í samfélagslegum og trúarlegum túlkunum þínum.

Að lesa bloggið þitt höfðar til svipaðra kennda og að fylgjast með fréttum af Paris Hilton: maður tekur ekkert mark á þér en hefur samt gaman af að sjá hvað þú hefur bjagaða sýn á tilveruna og hvernig þú verður þér að athlægi á opinberum vettvangi. 

Þú leggur út frá róttækum trúartúlkunum í meiðandi og særandi greinum þínum, og býður upp á samræður og athugasemdir, en ég þykist vita að það er lítil von á rökræðum þegar annar viðmælandinn telur sig vera með algildan sannleika mannlegrar tilveru á hreinu. Ég get samt ekki staðist að taka þátt í vitleysunni svona einusinni, upp á sport. 

Þú getur síðan dundað þér við það part úr degi að taka orð mín úr samhengi, vitna í fyrri og væntanleg skrif þín, og hentivalin biblíuvers, eins og þú gerir yfirleitt ef einhver gerir athugasemdir við furðuvíðlesnar bloggfærslur þínar. 

Ég reyni að freistast ekki til að taka frekari þátt í umræðum á blogginu þínu, því ef ég reyndi að rökræða við hvern þann kjána sem ég rekst á í netheimum gerði ég ekki annað. Þér er frjálst að túlka það sem vitsmunalegan sigur af þinni hálfu þegar ég þegi þunnu hljóði. 

Það er að segja ef þú leyfir þessari athugasemd að standa, að hún þyki ekki of óhefluð. Sjálfum þykja mér þín skrif iðulega dónaleg og særandi, sama þó iðulega fylgi einhverskonar röksemdafærsla. Það má deila um hvor fullyrðingin á við betri rök að styðjast, að kalla þig þröngsýnan kjána eða að kalla samkynhneigð illa og andstyggilega. 

+++ 

Fyrst gamla lumman: Ef þú notar þá bronsaldar heimspeki sem birtist í Biblíunni sem tæki til að dæma menn á 20. öld geturðu ekki valið og hafnað. Það er jú andstætt sjálfum orðum biblíunnar að fylgja ekki lögmálinu til hins ýtrasta (nenni ekki að finna tilvitnun í vers, þú veist eflaust um þær fleiri en ég). Þú vilt ekki vera kallaður “kenningardaufur”, er það nokkuð? Allt eða ekkert, annars ferðu til andskotans –er það ekki? 

Þú þekkir mikið betur en ég fyrirmæli Biblíunnar, í gamla jafnt sem nýja testamentinu um að grýta fólk af minnsta tilefni, halda þræla og hvaðeina. Að eltast ekki af sama kappi við þær ritningarklausur eins og þú eltist við klausur um samkynhneigð er trúarleg hræsni af þinni hálfu. Farðu nú og grýttu einhvern svo sál þín verði hólpin. 

+++ 

En þú ferð ekki af stað niður á Lækjartorg með steinasafnið, því það er ekki Biblían sem þú fylgir, þó þú haldir því fram og trúir því líklega sjálfur. Biblíuna notarðu sem leið til að réttlæta eigin tilfinningar og viðhorf. Þú hefur mótað þér sjálfsmynd byggða á ótal fyrirmyndum og áhrifavöldum í lífi þínu. Þessi sjálfsmynd inniheldur líklega standarda eins og að strákar eru sterkir og spila fótbolta, stelpur eru viðkvæmar og leika með dúkkur, svo ég byrji að draga upp einfaldaða mynd. Karlmenn eru Bond, konur eru Barbí, samræmdar andstæður þar sem skiptast á vont og gott, heitt og kalt, sætt og súrt, (eða svo ég noti vísindahugsun tíma Jesú Jósepssonar: vatn og eldur, jörð og loft).  

Inn í þetta blandast svo trúarþykknið, lítið útþynnt í þínu tilviki, og heimurinn hefur skyndilega tilgang og tilgangurinn heim, af því bara. Reglur, boð, bönn, fyrirmæli og verðlaun ef þú hlýðir. Umhverfið allt verður svart og hvítt, reglurnar skýrar og þú sjálfur allra manna réttlátastur, svo fremi sem þú fylgir forskriftinni.  

Allt passar þetta vel saman. Og ef eitthvað er á skjön, þá ertir það þig. Ef stelpan er sterk og strákurinn viðkvæmur er það á skjön við heimsmynd þína og ekkert smávegis vandamál þegar hlutirnir eru ekki lengur svarthvítir. Þú myndir örugglega aldrei klæða dreng í bleikt og stelpu í blátt, þó litir hafi í sjálfu sér enga merkingu nema þá sem við höfum búið til í kollinum á okkur um hlutverk, reglu, verkaskiptingu. 

Því þú ert jú karlmaður með kynhvöt, og skilgreinir sjálfan þig út frá henni. Typpi fer í píku, stelpur eru spennandi. Blár og bleikur eru andstæður. Stefnumót, hjónband, getnaður (og eins gott líka!) börn og einbýlishús. Allt samkvæmt reglum og forskrift. En ef karlmaður er skyndilega með karlmanni er heimurinn kominn á skjön. Ert þú þá kannski í hættu á að verða kvenmaður? Er þá ekki allt farið til andskotans, og öll regla farin af heiminum? Ef síðan fólk fær frið til að finna hamingju, fjölskyldu og viðurkenningu og hegðar sér samt alveg á skjön við það hlutverk sem þú leikur, hvað er þá eftir af þinni tilveru? Hvar ert þú staddur ef samkynhneigð er náttúruleg, góð, falleg og réttlát?  

Nei, þú fordæmir þann sem sker sig úr hópnum. Að hata þann sem gerir rangt hlýtur að fá almættið til að elska þig meira. Að hafa “vonda” að berjast við hlýtur að gera þig “góðan”. Það að lækka aðra hlýtur að hækka þig. Þú kastar steinum, en segist samt fyrirgefa og elska meðbróður þinn. Svo heppilega vill til að þú byggir lífspeki þína á, eða réttlætir hana alltént með trúarriti sem skrifað var af mönnum með samskonar svarthvítt sjónarhorn á heiminn. Þú finnur það sem þú þarft að finna í ritinu til að þurfa ekki að móta þínar eigin skoðanir og takast á við marglitan heim. -Þeir vita best um samfélag 20. aldarinnar sem voru göldróttir hjarðmenn kringum Dauðahafið fyrir þúsundum ára og heyrðu, merkilegt nok, raddir og sáu sýnir í steikjandi hitanum. 

(Þú flettir auðvitað, eins og svo margir skoðanabræður þínir, framhjá þeim klausum í ritinu sem eiga ekki alveg við, svo þú þurfir t.d. ekki að grýta börnin þín. Það eru jú bara klausur sem má túlka, setja í stærra samhengi við kristilegan kærleik og hvaðeina. Það vegur ekki að sjálfsmynd þinni eða hagsmunum þó að börnin þín séu óhlýðin og kallar ekki á skriftaflóð á blogginu) 

Það sem þú gerir í blogginu þínu er ekkert nýtt. Það sama hafa menn gert til að réttlæta það að fara um lönd nauðgandi, rænandi og myrðandi í nafni krossfarar, brenna villutrúarmenn og nornir lifandi og pína og kvelja fólk í þrældóm.

Þú bætir auðvitað um betur og vitnar í rannsóknir sem henta þér, unnar af fólki eins og þér fyrir samtök fólks eins og þín. Segir réttilega að það sé alls ekki eftirsóknarvert eða gott heilsunni að vera samkynhneigður í heimi þar sem fólk eins og þú hefur fengið að ráða hvað er rangt og rétt þar til bara rétt á síðustu áratugum. 

Og þess vegna muntu alltaf hafa rétt fyrir þér, og almættið sjálft alltaf vera sammála þér, og hver veit nema að einhver gefi út bloggið þitt eftir 2000 ár og dreifi því ókeypis í náttskúffurnar á öllum hótelum, því Biblían var jú skrifuð af mönnum sem voru Jón Valur Jensson síns tíma. 

+++ 

p.s. Það væri gaman að sjá Sjálfstæðismenn sparka aðeins í rassinn á þjóðkirkjunni. 

Þú vitnar í lagakafla (þú hefur svo gaman af að vitna í texta og reglur, því það sem er skrifað hlýtur að vera ófrávíkjanlegt og óbreytanlegt) og telur upp ástæður þessa heims og annars um að nú sé voðinn vís, jafnvel hægrimenn farnir að vega að stofnun sem vernduð er bæði  veraldlega og heilaglega. 

En ég fæ ekki betur séð af því sem kemur fram í pistlinum þínum að tillaga sjálfstæðisþingsins hafi aðallega lotið að því að gera trúfélögum kleift að vígja samkynhneigða til hjúskapar í trúarlegri vígslu. Mörg trúfélög, kristin jafnt sem “heiðin” (þú myndir nota orðið “heiðinn”, er það ekki Jón?) vilja gefa saman samkynhneigð pör í trúarathöfn, en mega strangt til tekið ekki gera það. Þær blessanir sem nú eru veittar hafa ekkert lagalegt hjúskapargildi.  

Þú auðvitað sérð þetta útspil sem árás á kristna kirkju, enda kveikir orðið “samkynhneigð” á rauðum viðvörunarbjöllum hjá þér. Og eins og venjulega, þegar vegið er að heimsmynd þinni tínirðu til ritningar, lög og reglur og múrar þig af með þeim, jafnvel þegar engin ógn er til staðar nema sú sem þú ímyndar þér. Ég get ekki séð hvernig vegið er að kristnum söfnuðum þó veitt sé leyfi á alla trúfélagalínuna að vígja samkynhneigða í löglegt hjónaband, ef þeim svo sýnist.  

Hitt er svo spurning hvers vegna er ekki löngu búið að skikka ansans þjóðkirkjuna til að vígja saman samkynhneigð pör, ellegar segja bless við sponslurnar og fríðindin. Ríkið pjattar þessa stofnun samkvæmt lögum og stjórnarskrá, og leyfir kirkjunni að mismuna fólki á grundvelli kynfæra. Það er löngu orðið tímabært að slíta á tengsl ríkis og lúthersk-evangelísku kirkjunnar með öllu. Að þessi úrelta stofnun skuli fá lagalega stöðu til að hafa nokkuð að segja um siðferði landsmanna er tímaskekkja. Leyfum þeim trúfélögum sem það langar að mismuna og hata í nafni kærleikans, en gefum þeim ekki lagalega  og fjárhagslega vernd í lögbókum upplýsts nútímasamfélags. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vááááá..... þú ert stórkostleg/ur. Þessi grein er svo sannarlega skrifuð af miklum innblæstri frá himnum ofar. Hafðu þökk fyrir þetta, gott að lesa.

Björg F (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 02:54

2 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Varla sefur þú á nóttunni úrþví svona er komið. Þú átt að leggja á sjálfan þig bann Promotor Fidei, sem hljómar svona: Ekki lesa Jón Val Jensson! En þú getur ekki staðist mátið. Hvað á að gera? Þú ert í stórkostlegum vanda. Maðurinn hefur inn fyrir kúpuna komist. Mér finnst JVJ eins og skapaður til að glíma við trúleysingjanna og gerir það oft á gamansaman og léttleikandi hátt. Oft með mjög góðar heimildir og tilvísanir, það sjá allir sem vilja sjá. Tvímælalaust í hópi ca. 10 powerbloggara Mbl. Til PF : blessaður taktu þessu ekki svona hátíðlega. Taktu þig á maður.

Guðmundur Pálsson, 18.4.2007 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband