6. "Þau miða allt sitt litla líf við lítinn bæ..."

Maður hefði vonað að ótalmörg skipulags- og byggingarslysin í Reykjavík hefðu kennt fólki að forðast mistökin.

En svo bjóðast svona gullin tækifæri, þegar fúakofar á besta stað í miðbænum fuðra loksins upp, og hægt er að byggja reisulegt húsnæði sem húkir ekki eins og dvergur við hliðina á byggingunum við kring.

Þá gera stjórnmálamenn það sem reynist best í pólitíkinni: halda sig við það sem var, frekar en að koma með djarfar tillögur með sýn og metnað. Höfuðborgarsvæðið er ljótt, illa skipulagt og skortir samræmi. Ljótastur er miðbærinn. Reynslan hefur sýnt að íslenskir arkitektar og skipulagsfræðingar virðast ekki til mikils liklegir og hafa ekki gert nein sérstaklega áhugaverð stórvirki síðásta áratug eða tvo. Svona á þetta eftir að verða þangað til loksins stígur fram á sjónarsviðið stjórnmálamaður sem bæði hefur völd og smekk, og ekki síst metnað til að gefa Reykjavík þá heildarandlitslyftingu sem hún þarf. Og sumstaðar þarf meira til en smink og plokk -ef vel ætti að vera þarf að skera upp á ýmsum stöðum.Að gera Reykjavík fagra á eftir að kosta peninga og erfiði, og ekki hvað síst ótæmandi metnað og þolinmæði staðfasts stjórnmálamanns. Og örugglega eiga margir eftir að eiga erfitt með að skilja við kunnuglega niðurníðslu-sveitaþorps-kumbaldablæinn sem er á miðborgarsvæðinu sterkastur en birtist annars um allan bæinn. Við höfum alist upp í þessari borg og getum stundum verið svo vön lýtunum að vil tökum ekki eftir þeim lengur, og skiljanlegt að fólk sé svolítið hikandi þegar skipta á út gömlu fyrir nýtt, sérstaklega ef íslenskum arkitektum á að treysta fyrir að búa til það nýja. 

En samt þarf ekki svo mikið til. Bara hóp af hæfileikafólki sem fær sköpunarfrelsi, og kortleggur það sem miður fer. Eins og gerðar eru skipulagsáætlanir til 10-20 ára má kannski gera fegrunaráætlun sem fer ofan í saumana á götum og hverfum og leggur drögin að endurbótum, lagfæringum, snitti og snatti sem dregið getur úr stærstu lýtunum, og dregið fram það fallega. Þetta hefst svo á endanum. Falleg Reykjavík verður ekki byggð á einum degi, en einhver með vit á málunum þarf að sjá til þess að fyrstu skrefin verði stigin í rétta átt. Í stað þess að vera eins og fiskiþorp á sterum gæti Reykjavík verið snotur lítil skandinavísk borg með heildarsvip og samræmi.En ég efast um að þetta muni nokkurntíma gerast. Reykjavík á eftir að halda áfram að vera ljót og óspennandi, uppfull af misheppnuðum tilraunum og misnotuðum tækifærum. Flæmið á eftir að breíða úr sér til Keflavíkur á næstu áratugum, og í stað þess að vera líkt við París eða Lundúnir verður Reykjavík kennd við Houston eða Mexíkóborg.  Skyndilausnir, skammsýni og pólitískir hagsmunir eiga eftir að ráða ferðinni

Því þannig er það bara á Íslandi. Þar virðist búa lítið fólk með litla drauma, sem kýs yfir sig stjórnmálamenn í samræmi.


mbl.is Lækjartorg, Stjórnarráðið og Bernhöftstorfan myndi sterka heild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Viltu semsagt fylla miðborgina af sterílum glerkössum og andlitslausum steinveggjum? Það hefur nú sýnt sig á norðurlöndunum hve mikið líf þrífst í kringum svoleiðis byggingar.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 21:39

2 Smámynd: Promotor Fidei

Ekki veit ég hvar í textanum mínum Gísli friðrik gat fundið eitthvað um "glerkassa og andlitslausa steinveggi".

Þvert á móti held ég að með heildtækum aðgerðum megi ljá borgina notalegu skandinavísku borgaryfirbragði svo bærinn yrði meira í ætt við Kaupmannahöfn eða Stokkhólm frekar en bara stækkuð og teygð útgáfa af Keflavík.

Reyndar hafa íslensku arkitektarnir einmitt veirð að gera lítið annað síðustu árin og áratuginn en að gera glerkassa og steinsteyptar mjólkurfernur. Blessunarlega hafa glerkassarnir þó þann kostinn að þeir verða sjaldnast mikið ljótari en byggingarnar sem þeir endurspegla.

Og að byggja borg þar sem þrífst mannlíf er einmitt eitthvað sem hefur mistekist hrapalega í Reykjavík. Reyndar ekki auðvelt verk eins og veðurfarið er en má vel gera betur.

Og þessu tengt, þá líst mér illa á nýju línuna sem var gefin út, að reisa fleiri háhýsi í borginni. Það þarf ekki að byggja hátt til að byggja þétt. Hættan er sú ef að háhýsum verður holað niður inn í þá láreistu byggð sem nú er fyrir skorti allt samræmi og litlu húsin virðast undirokuð og háu húsin vomandi.

Ef á að byggja hátt, þá verður að gera það í þyrpingum, í heilu götulenggjunum og hverfunum. Þannig skapast þægileg sjónræn heild. Það tekur enginn eftir að húsin við Oxford Street eru auðveldlega 6-7-8 hæðir, á meðan t.d. Skuggahverfisturnarnir yfirgnæfa umhverfið vegna kontrastsins við litlu húsin í kring.

Raunar held ég líka að birtuskilyrði í Reykjavík geri mjög vandasamt að byggja hátt. Sólin kemur svo skáhallt á byggðina að háreist hverfi geta auðveldlega orðið myrk og drungaleg. Besta þéttingarstefnan í Reykjavík væri að líta t.d. til  klassísku ensku íbúðarhúsanna sem reist eru þétt upp við hvort annað, hæglega fjórar-fimm-sex íbúðahæðir í allt, ekki með neinn óskapans garð í kring eða fyrir framan. Plássið vel nýtt en byggingarnar samt nettar og óyfirþyrmandi. Hvert hús líka með sín sérkenni, en ekki heilu hverfin hönnuð með sama svipnum af einhverjum mishæfileikaríkum arkitektinum.

Promotor Fidei, 31.5.2007 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband