5.6.2007 | 02:03
8. Er lögreglan að svindla?
Mér kemur á óvart hversu oft berast fréttir af því að yfirheyrslur lögreglunnar á Íslandi yfir grunuðum mönnum hafi leitt í ljós ítarlega játningu á öllum sakaratriðum, og stundum gott betur.
Nú síðast var Mbl.is að flytja fréttir af 17 ára pilti sem kemur á lögreglustöð að lýsa eftir "týndum bíl" sínum, en fer ekki frá stöðinni fyrr en hann hefur fallist á að játa á sig að hafa ekið bílnum inn í garð, og að auki verið ölvaður undir stýri.
Að mér læðist grunur að ólögráða drengurinn hafi verið yfirheyrður án þess að hafa lögfræðing eða jafnvel bara forráðamann viðstaddan. Ég get rétt ímyndað mér drenginn einan í yfirheyrsluherbergi með tveimur fílefldum lögreglumönnum, ráðalaus og ráðavilltur. Ekki auðvelt að plata óharnaðan unglinginn til að játa á sig brotin sem líklega voru engin sönnunargön fyrir.
Að mér læðist líka sá grunur að lögreglumenn á Íslandi séu ekki nógu samviskusamir um að upplýsa sakaða menn um réttindi sín, s.s. að hafa lögfræðing til aðstoðar sér að kostnaðarlausu. Mig grunar líka sterklega að lögreglumenn herlendis stundi sömu blekkingar og eru t.d. frægar í Bandaríkjunum að lofa hinum sakaða vægari meðferð í dómskerfinu ef hann játar vandaræðalaust.
Síðast þegar ég vissi hafa lögreglumenn ekkert að gera með lengd dóma, upphæðir sekta eða bóta.
Íslenskir smáglæponar stíga væntanlega ekki í vitið, eða hafa misst skynsemina með lyfjanotkun. En hvers vegna eru þeir svo vitlausir að játa hikstalaust á sig glæpi sem iðulega virðist erfitt að sanna að er þeirra sök?
Ætli sakaðir menn viti af þeim rétti sínum að þurfa ekki að gefa lögreglu neinar upplýsingar sem geta varpað ljósi á sök þeirra?
Að því ég best veit dugar sterkur grunur skammt fyrir dómstólum á Íslandi. Sakfelling fæst seint ef ekki er til staðar sönnunargagn, vitni, nú eða auðvitað játning.
Þó lögfræðingar á Íslandi virðist upp til hópa frekar ófrumlegir í hugsun (sem er efni í annan pistil) þá ætti skapandi og metnaðarfullur lögfræðingur hæglega að geta varið mann frá refsingu í máli þar sem sýna má fram á einhvern vafa á sök.
Ef einhverjir af lesendum þessa pistils lenda í því að verða handeknir og yfirheyrðir mæli ég með því að fólk játi ekki á sig nokkurn skapaðan hlut, sama hvað, fyrr en eftir að hafa ráðfært sig ítarlega við lögfræðing. Ekki lúffa fyrr en í fulla hnefana, og þangað til þú þekkir réttindi þín og möguleika út og inn.
Þó að töluverður munur sé á reglum um rannsóknar- og málsmeðferð í Bandaríkjunum og á Íslandi ætti lesendum Hnoðrabloggsins að vera mikið gagn af að horfa á myndbandið Busted sem Bandarísk mannréttindasamtök létu gera. Þar má læra ýmis nytsöm ráð um hvernig á að eiga í samskiptum við laganna verði, með því einu að þekkja réttindi sín og takmörk valdheimilda lögreglunnar.
Ég vil líka benda á þetta leiðbeiningarblað hérna sem American Civil Liberties Union lét gera, þar sem má finna einfaldar leiðbeiningar sem hægt er að prenta út og hafa við höndina.
![]() |
Seinheppinn brotamaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mjög góð grein.
Kjartan
Kjartan Pétur Sigurðsson, 5.6.2007 kl. 03:23
Ef einstaklingur jatar brot frammi fyrir logreglu og segjir ekki osatt fra einhverskonar atviki (svo lengi sem haegt er ad sanna) held eg ad domarar taki thad til greina thegar their aetla ad daema hinn sama einstakling.
urr purR! (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 03:24
Lagaleikfimi og hártog! Stráksi var sambland af vitni og kæranda þangað til hann gekkst við glæpnum, hann þurfti ekki lögfræðing í upphaflegu útgáfunni sinni. Lögreglunni bar því væntanlega ekki skylda til að mælast til þess að hann yrði sér úti um lögfræðing fyr en hann gekkst við því að hann væri raunverulegi glæpamaðurinn í þessu máli, og það að hann væri að reyna að afvegaleiða lögregluna.
Öfgaskoðanir í báðar áttir eru vondar, handjárnuð lögregla eins og þú vilt, lögregla sem spilar eftir evrópskum knattspyrnureglum á móti lagabrjótum sem spila eftir amerískum ruðningsreglum. Lögregla sem er oftast í órétti s.k.v. þínum skoðunum. Þetta hljómar fallega fyrir á prenti og í skólastofum þar sem flestir þeir búa sem eru svona þenkjandi. Þetta er jafn vont fyrir frelsi og vellíðan hins almenna borgara og lögreglu fasisminn sem er hinu meigin á skoðana litrófinu.
Ég vill þakka lögreglunni fyrir að hafa nappað stráksa og vonani verður það til þess að hann geri þetta ekki aftur, því að í næsta skipti getur hann endað upp á Grensás eða drepið barn einhvers. Þetta var greiði sem lögregla gerði stráknum. Hefði hann farið að þínum ráðlegginum og sloppið vegna snilli "hugmyndaríks" lögfræðings þá er þess strákur sennilega nógu vitlaus til að endurtaka leikinn, ég efast um að hann myndi send þér þakkarskeyti vegna ráðlegginga þinn af Grensás.
Vinsamlegast veldu betra dæmi næst máli þínu til stuðnings.
Björn Jónasson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 11:27
Þetta leiðbeiningarblað sem þú ert að benda á virkar ekki fyrir íslendinga þar sem að lögin hér eru ekki þau sömu og í Bandaríkjunum!
Ágústa (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 12:41
-Segir Urr Purr. Skýlaus játning er ekki trygging fyrir mildari dómi. Bandarískir lögreglumenn eru annálaðir fyrir að egna fyrir þann grunaða með slíkum innistæðulausum loforðum, og beita ýmiskonar blekkingum og lygum sem rúmast innan ramma laganna, til að plata fram játningu.
Ég kannast við að hafa lesið um dóma hér á landi þar sem dómarinn hefur tekið tillit til þess þegar saman fara játning og sýnilegur betrunarvilji hins sakaða, og sömuleiðis að dómar hafi verið þyngdir þegar menn hafa verið svo forhertir að reyna að neita sök fyrir alvarlega glæpi. Þessir dómar eru þó frekar sjaldgæfir, og yfirleitt virðist sem lítil engin áhrif hafi hvort játning fékkst auðveldlega eða ekki
Svo auðvitað sleppur hinn sakaði við alla refsingu ef vantar vitni og sönnunargögn og hann asnast ekki til að láta plata sig til að játa glæpinn.
-Segir Björn Jónasson. Af fréttinni að ráða vaknaði grunur hjá lögreglunni um sekt drengsins, og hann því yfirheyrður nánar. Hann hafði því, eins og fréttin hljómar, stöðu grunaðs manns. Ég reikna því með að lögreglan hefði ekki getað spurt hann einnar einustu spurningar sem gæti varpað sök á piltinn án þess að upplýsa hann fyrst um rétt sinn á aðstoð lögfræðings.
-Segir Björn enn frekar. Fyrst ber að athuga að ég er ekki að leggja fram neinar tillögur að þrengri heimildum lögreglunnar, né að hvetja til glæpa. Ég er að benda fólki á að nota til hins ýtrasta þá vernd sem þeim er þegar tryggð með lögum.
Lögreglumenn þekkja kerfið út og inn og geta nýtt sér það, og gott fyrir almenning að gera hið sama.
Reglulega berast t.d. fréttir frá Bandaríkjunum af offorsi lögreglunnar, sem fer fullgeyst í því að knýja eða plata fram játningu, og ræðst þá oftast til atlögu við þá sem minnst mega sín. Stundum er hvatinn pólitískur, t.d. ef einhver borgarstjórinn vill geta sýnt með tölfræði að takist hafi að leysa fleiri sakamál en á síðasta kjörtímabili. Stundum er hvatinn hreinlega leti lögreglumannanna, enda getur verið freistandi að "loka máli" með þægilegri játningu heldur en að þurfa að stunda tímafreka og erfiða rannsóknarvinnu -eða að fá blett á ferilinn með því að hafa óleyst mál á samviskunni.
Það getur hent alla að fremja lögbrot. Stundum brjótum við lögin af ásetningi, stundum fyrir vangá og stundum fyrir slysni. Það er mannlegt að gera mistök og þarf ekki að þýða að menn verði harðsvíraðir skúrkar þó þeir komist refsingarlaust frá broti með því að þekkja réttindi sín.
Þessi réttindi eru gerð til þess að vernda okkur öll, en eins og venjulega er auðvelt fyrir þá sem hafa verið svo heppnir að hafa aldrei misstigið sig að kasta steinum.
-Segir Ágústa. Vissulega eru íslensk lög og bandarísk ekki samhljóma en hins vegar ættu ráðin á leiðbeiningarblaðinu að eiga við í flestum tilvikum hérlendis. Alltént er ekki hægt að gera málin verri með því að fylgja meðmælum ACLU eða hafa ráðleggingar Busted myndbandsins í huga.
Promotor Fidei, 5.6.2007 kl. 13:53
Mæli með því fyrir alla upprennandi glæpamenn sem lesa þennan pistil með gleði-glampa í augum, að hafa orð þessi að engu, enda einhver versta lögfræðiráðgjöf sem ég hef vitað um. Fyrst skal þó bent á að lögreglan lætur undantekningalaust alla menn sem grunaðir eru um refsiverðan verknað vita um rétt sinn til lögfræðings áður en yfirheyrslur hefjast. Það er einfaldlega staðreynd. Flestir hafna hins vegar slíku boði enda ekki mjög sniðugt að eyða 15.000 kr. í lögfræðing sem segir ekkert annað en að játa á þig brotið í 99% tilvika.
Ef staða þín er eins og í langflestum tilvikum, þ.e. þú hefur verið nappaður af lögreglunni fyrir brot sem þú sannarlega framdir, þá er þinn besti möguleiki einfaldlega að játa brotið. Slíkt hefur í för með sér lægri refsingu, lægri eða engan lögfræðikostnað og lægri sakarkostnað.
Veit að þessir lagaklækir sem kaffihúsalögfræðingur sá er ritaði þennan pistil hljóma afar sannfærandi, en staðreyndin er sú að einföld játning er langpraktískasta ákvörðun sem ákærður einstaklingur getur tekið, nema svo ótrúlega óheppilega vill til að umræddur aðili er saklaus, en þá verður hann bara að treysta á íslenskt réttarkerfi og lögfræðing sinn.
Fabrizio Kjartanelli (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 19:06
Kæri Fabrizio
Ég veit um dæmi þess að menn hafa komist ansi langt á þrjóskunni, þegar lögreglan hefur viljað knýja þá til að játa á sig glæpi.
Því miður/blessunarlega hafa íslenskir smáglæpamenn ekki vit, metnað eða fjármagn til að verja sig með kjafti og klóm í yfirheyrslum og fyrir dómstólum, en við höfum hins vegað séð mörg tilvik þess síðustu ár að framámenn í samfélaginu láta ekki dæma sig fyrir afbrot fyrr en að hafa reynt til þrautar alla mögulega lagaklæki.
Fyrir þeim er "langpraktískasta ákvörðunin" að gera allt sem hægt er til að komast hjá refsingu.
Það er einfaldlega svo að íslenskir smáglæponar eru að játa á sig glæpi sem annars væri ekki hægt að sanna á þá. Eru þeir svona vitlausir? Er lögreglan að ljúga að þeim?
Láta þeir hræða sig með "háum lögfræðikostnaði"? Er þeim ekki sagt að dómur þeim í hag myndi að öllum líkindum greiða kostnað þeirra vegna verjenda? Tekur nokkur maður það alvarlega að játning hafi einhver áhrif að ráði á refsilengd eða bótagreiðslur?
Játningin hefur í svo mörgum tilvikum þau einu áhrif á refsilengd að skilja á milli sakleysis og sektar!
Mér sýnist "besti möguleiki" í mörgum tilvikum, að leyfa lögreglu og dómstólum að hafa fyrir því að sakfella mann, frekar en að rúlla bara strax á bakið við fyrstu merki um þrýsting, með lappirnar upp í loft.
Hvernig er það annars... eru lögfræðingarnir ekki að hugsa best um hag skjólstæðings síns? Hvernig getur lögfræðingur mælt með því að skjólstæðingur hans játi á sig brot, þegar hægt er að sýna fram á vafa um sekt fyrir dómstólum?
Ég hef af því miklar áhyggur hversu miklir "afgreiðslumenn" lögfræðingar á Íslandi virðast vera. Það er eins og þá skorti frumleika og djörfung í vinnubrögðum sínum, geri ekkert nema að fylgja fordæmum og afgreiða hvert mál eins og það síðasta. Hvað varð um að reyna á mörk dómskerfsins? Hvað varð um að verja með kjafti og klóm hagsmuni skjólstæðingsins?
-Nei, þeir bara skrifa sínar ákærur skv. skema úr kennslubókunum úr lagadeild, og skrifa síðan reikninginn inn í skema í excel. Það mætti kalla þetta copy-paste lögmennsku.
Og kaffihúsalögfræðingurinn Hnoðri hvetur Fabrizio Kjartanelli til að skoða myndbandið Busted sem fylgir með greininnni. Það gefur ágæta innsýn inn í þau löglegu brögð sem lögreglan beitir í störfum sínum vestanhafs, og hvernig hinn almenni borgari getur komist hjá því að falla í gildruna.
Því þegar allt kemur til alls, erum við ekki öll sek um einhvern glæp? Yrði okkur einhver greiði gerður að hlaupa til og játa okkur sek í hvert skipti sem við misstígum okkur?
Frumskógarlögmálið gildir enn, og hver er sjálfum sér næstur. Þeir komast af sem berjast og þræta, en þeir sem gefast og lúffa upp lenda í steininum.
Promotor Fidei, 8.6.2007 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.