11. Annaðhvort einkabílamenning eða ekki

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu snúast víst um "annaðhvort-eða", en málið varðar stærri spurningu en þá hvort á einum stað eigi að rísa mislæg gatnamót, eða á öðrum stað vera grafin göng.

Málið snýst um að taka afdráttarlausa afstöðu um hvort samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eiga að byggjast á einkabílum eða almenningssamgöngum.

Það vantar að skrefið sé stigið til fulls í aðra hvora áttina

-Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk noti almenningssamgöngur þegar langt er á milli vagna, leiðakerfið er gisið og miðaverð hátt. Með markvissum fjárfestingum þarf að eyða öllum þessum hindrunum til að almenningssamgöngur verði æskilegur ferðamáti

-Það er heldur ekki hægt að bjóða upp á einkabílinn sem valkost þegar tollar og opinber gjöld tvöfalda söluverð á bílum, og margfalda verðið á bensíni.

Bandaríkin eru bílaland, en þar getur líka hver sem er keypt sér nýjan bíl fyrir amk helmingi minna verð en boðið er upp á hérlendis, og bensínið kostar, að mig minnir, einn þriðja af því sem hér fær að viðgangast. Að reka einkabíl er raunhæf lausn, bæði fyrir þá blönku og þá fjáðu. Hægt er að kaupa einn bíl á hvern fjölskyldumeðlim ef því er að skipta, og þar sem tryggingar eru lágar er rekstrarkostnaðurinn ekki að sliga fólk. Þess vegna er ekki sama þörfin fyrir góðar almenningssamgöngur.

Lundúnir eru almenningssamgönguland. Þar er bensínið dýrt og háir innflutningstollar á bílum, og innan borgarmarkanna eru allskyns hömlur og gjöld lögð á umferð bíla. En að sama skapi er almenningssamgöngukerfið þétt, ferðir tíðar og fargjöld vel boðleg. Allir geta notað strætó eða lest á hvaða tíma sólarhringsins sem er, jafnt ríkir sem fátækir.

Í Reykjavík er stöðugt þrætt um samgöngumál, en reynt að fara báðar leiðir í einu -til hálfs- og árangurinn lélegur eftir því. Þeir sem lítið eiga af peningum hafa ekki efni á að reka bíl, og almenningssamgöngur eru ekki nægilega þægilegur ferðamáti fyrir hina til að segja skilið við einkabílinn. Síðan reynist gatnakerfið bara fara hálfa leið, og ekki gert til að bera uppi allan einkabílaflotann, svo bílaröðin nær frá Kringlunni og langleiðina inn í Garðabæ þegar umferðin er hvað þyngst.

Og eins og íslenskra stjórnmálamanna er siður reyna þeir að prútta og liðka til hér og þar, halda að það eitt að fella niður fargjöld leysi einhvern vanda, eða að það eitt að byggja mislæg gatnamót hér og þar lagi vanda bíleigenda.

Nei. Meðan skrefið er ekki stigið til fulls, í hvora áttina sem er, verður samgönguvandi í Reykjavík.


mbl.is Ekki spurning um annaðhvort eða, segir Gísli Marteinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband