17.6.2007 | 18:45
12. Frídagasvindlið mikla
Það var varla nokkuð jólafrí, páskafríið var í mýflugumynd og nú lendir 17. júní á sunnudegi!
Hvenær ætla déskotans stéttarfélögin að fara að vinna fyrir skerfinum sem þau hrifsa til sín úr launaumslaginu um hver mánaðamót og berjast fyrir annars fáum frídögum aðframkominna Íslendinga?
Fjöldamargar þjóðir hafa fyrir löngu fest það í lög eða kjarasamninga að frídögum fækki ekki þó að vikudagarnir raðist óheppilega niður á dagatalið. Það sem meira er, þá er frídögum hnikað til ef hentar, t.d. frídagur sem lendir á þriðjudegi tekinn út á mánudegi í staðinn, og þannig búin til löng helgi.
Það er svo gott að fá frídag. Ó, hvílík sæla! Lögbundnir frídagar eru svo einstaklega nærandi og hressandi. Þetta eru dagarnir sem maður sefur út og haldnar eru grillveislur og búnar til minningar í góðra vina hópi. Þetta eru dagarnir sem maður notar til að taka til í geymslunni eða skreppa í rómantískan bíltúr út fyrir bæjarmörkin.
Kroppurinn slakast allur, sálin hreinsast og ástin blómstrar.
Ósköp er illa með okkur farið, að vera rænd þessum dögum. Og það er fullvíst að nú sem aldrei fyrr veitir okkur ekki af hvíldinni.
Og hvaða máli skiptir það svosem fyrir hagkerfið þó fólk fái að taka frí aðeins oftar? Kaupum við eitthvað minna af sófasettum þó mublubúðirnar séu lokaðar í nokkra daga á ári? Fara bankarnir í keng ef að gjaldkerarnir fá að hvíla lúin bein aðeins oftar? Leggur fólk bara ekki inn á reikninginn næsta dag?
Það held ég þá svei mér að bætt lífsgæði og aukin vellíðan vegi upp á móti þeim agnarsmáu umframtekjum sem hagkerfið missir við það að leyfa fólki að eiga sína frídaga í friði.
Hátíðahöld hafa gengið mjög vel um land allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
páskarnir eru alltaf eins!!!!!!!!!!halló
ókunnugur (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 19:20
já, ég hugsaði einmitt það sama ;) svo fyrir utan það eru Íslendingar með flesta frídaga sem ég veit um í heiminum.
gleðilega þjóðhátíð!
Hanna Líba (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 19:51
Misreiknaði mig aðeins með páskana. Hins vegar er áhugavert að skoða löggjöfina í þessu sambandi. Tæknilega séð er t.d. "páskadagur" sérstakurfrídagur skv. lögum, en lendir eðli málsins samkvæmt alltaf á sunnudegi, sem einnig er frídagur.
Laugardagurinn milli föstudagsins langa og páskadags er ekki frídagur, og lenda t.d. verslunarmenn í því að það sem annars væri samfelld löng fríhelgi er slitið í tvennt. Smá harka hjá stéttarfélögunum gæti kannski búið til þarna góða langa fríhelgi.
Íslendingar eru fjarri því með of marga frídaga miðað við aðrar þjóðir. Við komumst t.d. ekki með tærnar þar sem Rússar hafa hælana.
Og hvað er annars að því að hafa marga frídaga? Ef eitthvað er ætti það að vera næst á lista verkalýðsfélaganna að lengja helgina úr tveimur dögum í þrjá!
Við erum orðin svo fjarskarík, en virðumst aldrei hafa tíma til að njóta lífsins því við erum að vinna alltof mikið.
Vinnan göfgar og allt það, en lífið er til að njóta þess.
Promotor Fidei, 17.6.2007 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.