20. Hugleiðing um Moskvuferð borgarstjóra og kirkjubyggingar

Minnislaus á mannréttindi í MoskvuKristin trúarbrögð, eins og önnur trúarbrögð, eru blekking og hjátrú sem ekki gera annað en hægja á andlegum og veraldlegum farmförum mannkyns í besta falli, en í versta falli kosta milljónir mannslífa ár hvert og ómælda þjáningu. Heilög stríð nútímans og samlegðaráhrif HIV faraldursins og smokkabanns Páfa eru tvö nýleg og skelfileg dæmi í mannkynssögunni.

En af kristnum söfnuðum þykir höfundi þessa pistils skemmtilegast að heimsækja (þó alltaf með hæfilegum snert af óbragði) byggingar rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar, sem hefur það umfram hina minimalísku íslensk-lúthersku kirkju að leggja mikið upp úr drama, skrauti, reykelsum, dýrlingum og hrikalegum munkasöng.

Að ganga inn í Kazansky Sobor í Pétursborg framkallar sterk hughrif, svo maður kemst eitt andartak í snertingu við múgsefjunina. Að ganga inn í Hallgrímskirkju, hins vegar, er eins og að koma inn í rúmgóða vörugeymslu.

 

En kirkjubyggingin sem Reykjavíkurborg hefur nýlega gefið Rússnesku réttrúnaðarkirkjunni byggingarreit undir, verður engin Kazansky Sobor. Af myndum að dæma er um að ræða samanherpta litla skemmu, sem nær hvorki að vera áhugaverð fyrir frumleika eða falleg fyrir klassísk byggingarlögmál.

Litlir næpulagaðir turnstubbar draga athyglina eitt andartak frá því hvað restin af kirkjubyggingunni er ljót. Staðsetningin, við Mýrargötu, er líka aldeilis óáhugaverð. Jafnvel þó til standi að ryðja allt svæðið í kring og byggja þar fleiri-fleiri hús í mjólkurfernu-stílnum sem íslenskir arkitektar stunda nú, þá er Mýrargata eftir sem áður allverulega hallærisleg staðsetning. En kannski meiningin að hafa kirkjuna í færi við höfnina, svo halarófan af subbulegum rússneskum sjómönnunum þurfi ekki að fara of langt inn í borgina þegar þeir vilja signa sig áður en lagt er úr höfn.

 

En svo er það hin hliðin á málinu:

Vilhjálmur Þ er í Moskvu núna með hvorki meira né minna en 30 manna föruneyti, sem hið opinbera borgar væntanlega undir flug, fæði, gistingu og dagpeninga. Þeirra á meðal eru Gísli Marteinn, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson. Allt hefur þetta lið við eitthvert tækifæri sagst vera miklir stuðningsmenn réttindabaráttu samkynhneigða. Af Hönnu Birnu keypti ég eitt sinn barmnælu í Gay-pride göngu skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar (Gísli var líka að selja nælur ef ég man rétt, en Hanna Birna er miklu söluvænni), og gott ef ekki hefur sést til Vilhjálms Þ. spássera fremstur í flokki göngufólks.

Lesendur hnoðrabloggs eru kannski ekki enn búnir að gleyma þeim fréttum sem bárust fyrir á árinu, þegar friðsamur hópur var barinn niður af ofstækismönnum og handtekinn af lögreglu þegar hópurinn reyndi að ganga að skrifstofum borgarstjóra Moskvu til að fara þess á leit að mega ganga gleðigöngu.

Borgarstjórinn Moskvu, Júrí Lúshkov, lét þessi grófu mannréttindabrot viðgangast og hefur látið hafa eftir sér að honum þyki gleiðgöngur samkynhneigðra "satanískar".

Júrí, blessaður, virðist annars ekki barnanna bestur. Hefur beint eða óbeint stuðlað að minniháttar og meiriháttar mannréttindabrotum í Moskvuborg, og er grunaður um stórvægilega spillingu í tengslum við byggingafyrirtæki hans.

 

Nú er stóra spurningin, hvort Villi Þ., Gísli Marteinn, Hanna Birna, og Björn Ingi eru bara hommavæn á tyllidögum, eða hvort þau hafa tekið réttindi samkynhneigðra til alvarlegrar umræðu á fundi Moskvuborgarstjora.

Fréttir segja frá því að "rætt hefur verið" um opinn loftferðasamning milli Reykjvaíkur og Moskvu (vá! eins og steinsteypuflæmið Moskva, grasserandi í spillingu og fátækt, er aldeilis spennandi og heillandi áfangastaður!) og aukna samvinnu í umhverfis-, mennta- og menningarmálum (=senda fleiri hæfileikalausa listamenn milli landa á kostnað skattborgara).

Hvergi er minnst á mannréttindin, sem virðist svo auðvelt að verja í hátíðarskaranum í miðbæ Reykjavíkur.

 

Nei, kæri lesandi, mig grunar sterklega að borgarstjórinn og fylgdarlið hans, sem öll þykjast miklir mannréttindafrömðir þegar blásið er til hinsegin daga, hafi ekki minnst einu orði á sjálfsögð mannréttindi samkynhneigðra á fundinum með Júrí.

Þess í stað veita þau byggingarland undir kirkju sem er fjandsamleg samkynhneigðum í meira lagi. Við Mýrargötu verður reist bygging, í boði borgarstjórnar, þar sem von er á að yfirlýsingu Rússnesku orþódoxkirkjunnar frá ágúst 2000 verði gert hátt undir höfði og samkynhneigð kölluð pervertísk, glæpur gegn eðli mannsins, og að fólk sem er hlynnt réttindum samkynhneigða megi ekki koma að fræðslu barna og ungmenna.

 

Þesum pistli fylgir mynd af Hönnu, Júlíusi og Gísla, með littla hommahataranum Júrí. Hanna Birna virðist sú eina í hópnum sem ekki hefur geð í sér til að skælbrosa.

Ef einhver veit betur, og getur sagt með góðri samvisku að einhver af 31 fulltrúum Reykjavíkur hafi vakið máls á réttindum samkynhneigðra, þá má sá hinn sami láta vita í athugasemd við þetta blogg, og lofa ég að kjósa viðkomandi borgarfulltrúa í næstu kosningum.


mbl.is Rússnesk kirkja byggð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þau virðast nokkuð glöð við hlið glæpamannsins... Hanna Birna finnst mér nú oftast ekki brosa.. fúl að í eðli sínu held ég bara.

Blessaður þetta eru allt hræsnarar sem þora ekki að tala.

DoctorE (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 14:11

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Hehe...frábær pistill!    Tvískinnungurinn í þessu liði kemur þarna berlega í ljós.  Það er smjaðrað fyrir öllum, þegar það hentar.

Róbert Björnsson, 7.7.2007 kl. 18:05

3 Smámynd: Þarfagreinir

Skemmtileg ádeila. Alltaf gaman að sjá hlutina greinda svona vel.

Þarfagreinir, 7.7.2007 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband