21. En ef við hefðum efni á að leysa vandann sjálf?

Fregnir á Mbl.is af dætrum sem hafa miklar áhyggjur af veikum útigangsmanninum föður þeirra hafa vakið upp gamlar hugrenningar hjá gamla frjálshyggjuskúnkinum Hnoðra.

Íslendingar eru skattpíndir, en sætta sig við píninguna flestir hverjir vegna þess að peningarnir eiga að fara í að veita börnum landsins góða menntun, veita sjúkum bestu mögulega aðhlynningu, og aðstoð þeim sem ekki geta sjálfum sér bjargað.'

Hugmyndin er göfug, en reglulega berast okkur fréttir af því að kerfið hafi brugðist: það vantar sjúkrapláss, sjúklingum er illa sinnt, öryrkjar og fatlaðir lifa við skort, og vandræðabörn falla milli þilja í skólakerfinu.

Þá fór Hnoðri að hugsa með sér, hvort nokkuð væri lengur þörf fyrir þetta skandinavíska sósjalmódel á Íslandi.

-Jú, sjáum til: Ísland er nefnilega svo lítið samfélag, aðeins 300.000 hræður. Öll búum við að frændgarði -neti skyldmenna og vina sem láta sér annt um okkar hag. En því miður geta þessir aðilar sem tengjast okkur félagslega iðulega ekki komið okkur til hjálpar þegar eitthvað fer úrskeiðis, einfaldlega vegna þess að það er ekki nóg eftir af launaseðlinum þegar ríkið hefur tekið sitt.

Það held ég svei mér að við værum aflögufær til að hjálpa þeim sem okkur þykir vænt um, ef hið opinbera tæki ekki til sín 38% af launum, og hvað þá ef ekki væri lagt ofan á vöruverð allt að 24,5% söluskattur, svo ekki sé minnst á innflutningstolla og gjöld sem spanna allt frá að bæta við nokkrum prósentum upp í að margfalda verð vörunnar.

Ef hið opinbera tæki ekki til sín svona stóran skerf, þá myndi venjuleg íslensk meðallaunafjölskylda hæglega hafa til ráðstöfunar 1-2 milljónir króna aukalega hvert ár. Það held ég aldeilis að hægt væri að kaupa mikla þjónustu fyrir þann pening, hvort sem þyrfti að koma pabba gamla róna fyrir á einhverju þjónustuhælinu, borga sálfræðitíma fyrir ofvirka vandræðabarnið eða fá nýjan mjaðmalið án þess að þurfa að bíða heila eilífð eftir plássi.

Svo auðvitað myndi það snarbæta gæði þjónustunnar sem fengist fyrir peninginn, ef hún væri á höndum einkaaðila sem þurfa að lifa í samkeppnisumhverfi.

 

Lítil þjóð þar sem allir eru meira eða minna vel stæðir, þar sem allir tengjast öllum, yrði betur stödd ef fólki yrði leyft að halda launum sínum óskertum, svo landsmenn hefðu efni á að hjálpa sér og sínum sjálfir. Ef eitthvað er, þá eru það frekar risaþjóðir á stærð við bandaríkin, þar sem fólk dreifir sér iðulega vítt og breitt um landið, fjarri vinum og vandamönnum, og auðnum er svo ójafnt skipt, sem þurfa á öflugu ríkisreknu velferðarkerfi að halda.

 

En hvað verður svo um þá sem hafa ekkert félagslegt öryggisnet? Við þurfum ekki að senda þá til Danmerkur (frekar en við viljum). Því í kerfi þar sem fólk er ekki skattpínt, hefur einstaklingurinn meiri tækifæri á að kaupa sér tryggingu sem verndar hann í ellinni, og hinn almenni borgari hefur meira aflögu til góðgerða. Þeir fáu sem ekki ættu neinn til að hjálpa sér, væru gleymdir bæði barnabörnum og stéttarfélögum, gætu fundið hjálp hjá góðgerðarfélögum sem alltaf hafa verið til, og styrkjast að öllu leyti þegar almenningur hefur meira milli handanna.

Enda ólíkt því sem margir sósjalistar vilja halda, verður fólk yfirleitt gjafmildara og meira annt um hag náungans eftir því sem það hefur meira aflögu, -en verður iðulega nískara og sjálfsinnaðra eftir því sem róðurinn fyrir lífsnauðsynjunum herðist (t.d. þegar helmingur launa þeirra er tekinn af þeim af útsendurum ríkisins).


mbl.is Kerfið hefur afskrifað pabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð hugleiðing hjá þér.  Og ég er sammála um að smáþjóð eins og við ættum að geta hlúð betur að þeim sem minna mega sín, vegna tengsla og ættarbanda innan okkar allra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2007 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband