22. Takmarkalaus frekja, sem ekki á einsuinni að taka til umfjöllunar

Það þarf alveg einstakan hugsunarhátt til að láta sér yfir höfuð detta í hug að eyða að lágmarki 52 milljörðum til að byggja göng til 4000 sveitalubba úti á eyju.

Og svo kveinka béskotans frekjurnar sér yfir því að ríkið skuli ekki vilja leggja í framkvæmd sem kostar heilar 13 milljónir á hvert mannsbarn í Eyjum -eða um 52 milljónir á fjögurra manna fjölskyldu. (Ódýrara væri að kaupa einkaflugvél á hvert heimili!)

Að þetta lið skuli ekki skammast sín! En nei, það er ekki siður landsbyggðarpólitíkusa að sjá eigin heimabyggðir í réttu ljósi: sem lítil iðnaðarþorp upp á nokkrar hræður. Óskalistinn, sem iðulega er borinn fram með miklu nöldri, kveini og sjálfumgleði, er slíkur að halda mætti að hvert einasta krummaskuð á landinu sé einstök heimsborg, sem þarf sín jarðgöng, sitt íþróttahús og keppnissundlaug.

Að sumar af þessum óskum skuli yfir höfuð teknar til umfjöllunar er alveg hreint forkastanlegt. Að samgönguráðuneytið hafi eytt skattpeningum landsmanna í skýrslu um raunhæfi vestmannaeyjaganga er til háborinnar skammar. Hvaða vitleysu verða sérfræðingar næst fengnir til að meta?

 

Að pólitíkusar í Eyjum skuli hafa verið nógu forhertir til að bera upp jarðgangahugmyndina er til marks um hamslausa frekju og sérhagsmunapot. Að ráðuneyti skuli eyða peningum í skýrslur um málið er til marks um dæmalausa sóun á skattpeningum. Að fjölmiðlar skuli yfir höfuð eyða einum einasta staf í að fjala um þessa vitleysu er með endemum.

-Og hvað gerist svo? Jú, ráðuneytið lofar að fjölga ferðum Herjólfs, byggja nýja höfn, og kaupa nýjan Herjólf. Landsbyggðarfrekjurnar læra það af þessu ævintýri að ef þeir setja fram nógu andskoti forkastanlegar kröfur, þá fá þeir amk eitthvað, og þá líklega meira en þeir sem setja fram yfirvegaðar og raunhæfar óskir.

Ef landsbyggðastjórnmálin á Íslandi væru barnafafmæli, þá væri samgönguráðuneytið mamman sem eltist og veltist við að blíðka frekjuna sem grenjar mest, og aldrei fær nóg. Ef hnoðri fengi að ráða einhverju í afmælinu, þá væri frekjunum hent öfugum út, því frekjur verða hvort sem er aldrei ánægðar með það sem þær fá, og skemma fyrir prúðu börnunum ef eitthvað er.


mbl.is Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Laukrétt - ég skil ekki hvernig fullorðið fólk getur látið sér detta svona þvælu í hug; hvað þá komið fram opinberlega trekk í trekk og haldið henni á lofti, eins og ónefndur þingmaður er farinn að gera á nýjan leik eftir að hafa fengið uppreist æru.

Þarfagreinir, 27.7.2007 kl. 17:42

2 Smámynd: Vinir Ketils bónda, áhugamannafélag

Ég vildi óska þess að ég væri jafn kúl og þú... flyt bara til rvk og fæ mér mokka kaffi

Vinir Ketils bónda, áhugamannafélag, 27.7.2007 kl. 18:14

3 Smámynd: Promotor Fidei

Það gætir tóns af háði í athugasemd Vina Ketils Bónda

Það er ágætt að vera í borginni og fá sér mokka, og ágætt líka að búa í sveitasælu á eyju einhversstaðar úti fyrir ströndum. Fólki er frjálst að velja þann stað sem því líkar betur, en það býr þá þar á eigin kostnað og eigin ábyrgð og getur ekki ætlast til þess að aðrir borgi með þeim til að gera vistina þægilegri.

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 18:50

4 Smámynd: Promotor Fidei

Og ég bara verð að láta það fljóta með, að vestmanneyingar og annað fólk á landsbyggðinni á ekki meiri rétt en ég, borgarbarnið, á að ríkið borgi með þeim.

Við höfum náð hálfgerðri samfélagssátt um að skattarnir okkar séu notaðir til að bjarga þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir: börnum, öldruðum, sjúkum og fötluðum. Þeir sem eru hraustir og heilir á geðsmunum ættu að hafa burði og skynsemi til að geta ráðið högum sínum, án þess að aðrir þurfi að bjarga þeim.

Vestmannaeyingar eru flestir hvorki börn né aldraðir, og við ágæta heilsu líka. Þá liggur nærri að ætla að það sé einhversskonar fötlun sem rekur suma bæjarbúa til að heimta að þeir fái hver um sig 13 milljóna króna gjöf frá okkur hinum.

Grey skinnin, að geta ekki bjargað sér sjálf!

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 19:02

5 identicon

það er enginn að heimta eitt né neitt í þessu efni.

Þú fidei nefndu mér einn sem er að heimta að grafin yrðu göng uppá 50 til 80 miljarða. ha? nefndu mér einn.

Þessi skýrsla er einungis til að sýna hvort það er möguleiki til að grafa göng og hver kostnaðurinn er.

dodo (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 19:53

6 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

Það hefur enginn eyjamaður farið fram á það að það yrði eytt 50 - 80 milljörðum í göng. EKKI 1

málið er það að við (já, ég er eyjamaður) fá alminnilegar rannsóknir til þess að athuga hvort að þetta væri mögulegt, síðan vildum við láta athuga hversu mikið þetta kostaði, (reyndar var nú fenignn einn maður frá sænsku fyrirtæki sem að sérhæfir sig í gangagerð, og hann fékk reyndar út 18 - 25 milljarða(þess má geta að Herjólfur kostar allavega 20 milljarða á næstu 30 árum)

en já kallinn minn, bara til þess að benda þér á eitt örlítið smá atriði.

rúm 10% af kvóta íslendinga er staðsettur hérna í Vestmannaeyjum, þetta hefur verið ein stærsta löndunarhöfn (í magni) síðustu árin, og var langstærsta útgerðarpláss á landinu á 20. öldinni.

heldur þú virkilega að við höfum ekki lagt neina peninga inní þennan blessaða ríkissjóð.

málið er með þessi blessuðu göng, að ef að það væri hægt að grafa þau fyrir 30 milljarða, þá væri það líklegast ekki neitt sema ð ríkið þyrfti að borga í þessi göng, umfram það sem að það borgar nú þegar í herjólf (miðað við endurnýjun á honum) 

Árni Sigurður Pétursson, 27.7.2007 kl. 20:29

7 Smámynd: Promotor Fidei

Dódó!

"Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmanaeyjum, segir það vera vonbrigði fyrir Eyjamenn að hugmyndir um jarðgangnagerð á milli lands og eyja hafi verið lagðar á hilluna í þessari atrennu (!!!). Þeir hafi a.m.k. átt von á því að meiri rannsóknir færu fram áður en slík ákvörðun yrði tekin (!!!). Hann segist hins vegar telja uppbyggingu samgangna á milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru næst besta kostinn (!!!)"

Þetta segir í stuttri frétt á Mbl.is rétt í þessu.

-Elliða þættu göngin alveg jafngáfulegur kostur þó þau kostuðu "aðeins" 30 milljarða, eða jafnvel "aðeins" 10 milljarða, eða jafnvel "ekki nema" einn milljarð, litlar þúsund milljónir.

-Elliða þætti sjálfsagt að eyða miklu meiri peningum í að rannsaka þennan möguleika, sem strax frá upphafi er svo augljóslega algjörlega út úr kú að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð.

-Vestmannaeyingar virðast ekki vera búnir með sitt! Þettta var bara ein "atrennan"! Hvað ætli sé langt þangað til þeir byrja aftur að kvarta yfir því að aðrir íslendingar skuli ekki vilja kaupa handa þeim tugmilljarða göng svo þeir komist í einni bunu á útsölurnar í Kringlunni?

-Og svo er það "næstbesti kosturinn", sem tekið er með semingi, en ekki innilegu þakklæti, þegar ráðist er í að byggja nýja og rándýra höfn handa Herjólfi, og kaupa nýtt skip í ofanálag.

Ef þetta er ekki óforskömmuð frekja, þá veit ég ekki hvað!

Og ég er satt best að segja orðinn alveg hreint innilega fullsaddur af endemis frekjunni sem einkennir alla landsbyggðapólitík! Það á að gera framkvæmdir við hverja þúfu, göng, íþróttahús, söfn, atvinnubótaverkefni, strandblakvöll, menntasetur og ég veit ekki hvað, og láta alla aðra (og þá borgarbúa sérstaklega) bera af því kostnaðinn. Þetta er ekkert annað en landsbyggðarrómantíkur-fasismi, og kominn tími að linni.

Það að búa á landsbyggðinni þýðir að samgöngur eru á köflum tregar, pósturinn kemur aðeins seinna, það er ekki háhraðanet og kapalsjónvarp í hverjum dal, og það þarf að ferðast svolítið til að komast í skurðaðgerð eða ólympíska keppnissundlaug. Þeir sem ekki sætta sig við þessa staðreynd geta annað hvort flutt sig um set, eða bætt úr vanköntunum sjálfir -en eiga þá ekki að senda reikninginn á ríkissjóð.

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 20:36

8 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

merkilegur hroki í þér.

ert þú kannski einn af þeim sem að heldur að allt fjármagn í landinu verði til í bönkum á höfuðborgarsvæðinu ?

en já ef að þú lest aðeins um hvað ég skrifaði þá sérðu að nú þegar borgar ríkið í herjólf (og ég get alveg lofað þér því að við eyjamenn borgum meira til ríkisins en ríkið borgar í herjólf, svo ekki fara að væla yfir því vinur)

ef að sama upphæð yrði lögð í göng, og síðan svipaður peningur og mundi kosta að endurnýja skipið, þar að auki rukkað inní göngin, þá er búið að gera kannanir á því að svona göng mundu byrja að skila hagnaði (vera búin að borga sig upp) eftir 30 ár, ef að kostnaður væri á bilinu 28 - 30 milljarðar.

en vertu bara ekkert að pæla í þessu neitt lengur félagi.

sittu bara þarna í bænum, líklegast vinnandi í banka eða á skrifstofunni einhverri og hugsaðu soldið meira um hvað höfuðborgin er nú stórkostleg og vertu soldið lokaður í þínum heimi með því.

Árni Sigurður Pétursson, 27.7.2007 kl. 20:49

9 Smámynd: Promotor Fidei

Varðandi færslu Árna

Það skal alltaf dregið upp þetta spil, um að svo og svo mikil tekjusköpun sveitaþorpa fyrir ríkiskassan réttlæti að ausið sé fjármunum í fáránleg verkefni.

En þá gleymist að minnast á hversu dýrt það er fyrir hið opinbera, reiknað á hvern íbúa, að reka allskyns þjónustu í fámennum byggðum. Leggja holræsi í hvert hús, byggja vatns- og rafmagnsveitu, starfrækja skóla þar sem kannski eru ekki nema 5-10 börn í árgangi. Vera með lögreglu og lækna á vakt allan sólarhringinn í bæjarfélagi sem telur varla upp fólksfjöldan í hálfu póstnúmeri í Reykjavík.

Hún gleymist líka sú umræða hvort réttlætanlegt sé að eyða meira, miðað við höfðatölu, í byggðir úti á landi, heldur en í borginni. Þó svo að Eyjamenn þykist geta státað af því að eiga [þ.e. hafa fengið gefins] 10% af afla þjóðarinnar, þá leyfi ég mér að halda því fram að þjóðarbúið græði meira (nettó eða brúttó) á hvern Reykvíking, en á hvern Vestmannaeying. Ég er farinn að ryðga svolítið í tölfræðinni, en minnir því hafi verið fleygt að sjávarútvegur standi undir 12% af þjóðartekjum nú til dags. Ef Vestmannaeyingar eiga 10% af kvótanum, þá eiga þeir því með réttu um 1,2% hlut í þjóðartekjunum. Í Vestmannaeyjum búa hins vegar 1,3% landsmanna, svo ef þessi groddarlega tölfræði hjá mér er rétt leggja þeir minna til en meðalíslendingurinn.

Hitt er svo umhugsunarefni af hverju 10% af kvóta þjóðarinnar er ráðstafað til Vestmannaeyja þar sem búa aðeins 1,3% landsmanna.

Og jafnvel þó hver vestmannaeyingur greiddi tvöfalt meira í ríkiskassann en meðal Reykvíkingur, þá er þeim ekki stætt á béskotans frekjunni. Vestmannaeyar eru verbúð. Lítið og afskekkt þorp. Þeir sem búa þar hafa væntanlega ágætis tekjur af öllum sjávarútveginum, og fórna í staðinn þeim þægindum sem fylgja því að vera í vegasambandi við meginlandið. Þeir missa eitt en fá annað. Og samt hafa þeir ferju á kostnað okkar hinna, sem auðveldar samöngur allverulega, en það er víst ekki nógu gott fyrir eyjapeyjana.

Og eitt enn. Haldið þið að það kosti ekki neitt að reka svona göng? Kostnaðurinn við að halda við, reka og rukka inn i svona risastór göng, á virku jarðskjálfta og eldgosasvæði yrði aldrei nokkurntíma minni en sú formúga sem nú til dags fer í rekstur Herjólfs.

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 21:07

10 Smámynd: Promotor Fidei

Já og eitt til viðbótar.

Ef mannvitsbrekkunum í Eyjum þykir gangnagerðin svona ofboðslega góð hugmynd, sem mun borga sig upp á svo og svo mörgum árum, þá er enginn sem bannar þeim að leggja út í rannsóknir og framkvæmdir á eigin kostnað.

Þeir geta þá væntanlega hlegið, þegar þeir standa með pálmann í höndunum, að okkur möppudýrunum sem sitjum um samgönguráðuneytið og plottum um nýjar leiðir til að klekkja á landsbyggðinni.

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 21:12

11 Smámynd: Promotor Fidei

Og svo má eitt fljóta með. Ef það er satt sem Árni segir, að herjólfur kosti hartnær milljarð í rekstri á ári, þá má reikna.

Ef við gefum okkur að 70% eyjabúa séu á vinnumarkaði, þá jafngildir kotsnaðurinn við herjólf um 360.000 kr á hvern vinnandi mann árlega.

Ef meðaltekjur í Eyjum eru 2 milljónir á ári, þá er skattbyrðin á hvern mann árlega ekki nema 356.000 kr, sem dugar ekki einusinni fyrir rekstrinum á Herjólfi.

Þannig að við hin borgum með Herjólfi, og borgum þar að auki fyrir skólahald, félagslega þjónustu, fæðingarorlof, heilsugæslu og hvaðeina annað sem til fellur í Vestmannaeyjum.

Þetta er auðvitað einfalt og órannsakað dæmi, en því verður ekki haldið fram að Vestmannaeyingar séu að borga svo mikið með sér í ríkiskassann að þeir eigi meira skilið en þeir fá nú þegar.

Promotor Fidei, 27.7.2007 kl. 21:23

12 identicon

Það væri gaman að hitta þig félagi og reka hverja einustu fullyrðingu þína hér, beint ofaní kokið á þér aftur. En þar sem það er ekki fræðilegur möguleiki á að þú sért eldri en 10 ára og á einhverju skelfilegu mótþróaskeiði í þokkabót, þá ætla ég að sleppa því. Eitt lítið samt: heldur þú að Eyjamenn borgi ekki líka fyrir Sundabraut, Reykjanesveg, Héðinsfjarðargöng og allar aðrar samgöngubætur á landinu? Tjáðu þig aftur um málið þegar þú hefur náð fullorðinsaldri. Þá kannski verða komin göng.

Einar (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 23:00

13 Smámynd: Promotor Fidei

Hér er vettvangurinn Einar! Ég fagna því alltaf þegar fólk sannfærir mig um villu míns vegar með vönduðum rökum, og skora á þig að leiðrétta hér á blogginu hverja þá skoðun mína sem ekki er rétt.

En ég á annars ekki von á sérstaklega gáfulegum kommentum úr Eyjum, fyrst menn þar á bæ láta sér detta í hug að viðra kinnroðalaust á almannafæri fabúlur um neðansjávargöng fyrir tugmilljarða á tugmilljarða ofan.

Hann er annars útbreitt mein, landsbyggðarrígurinn, í liði sem aldrei hefur ferðast út fyrir eigin dal og heldur þar af leiðandi að þeir búi í nafla alheimsins. Raupið í sjómanns- og bóndadurgum sem ekki gátu klárað grunnskólapróf, og halda að þeir séu að gera landsmönnum sérstakan greiða með því að veiða fisk (fyrir kvóta sem þeir fá gefins) eða mjólka kýr (sem ríkið borgar meðlag með).

Það er þessi hugsunarháttur sem minnir á það súrasta í bókum Halldórs Laxness: það er daunn af neftóbaki í loftinu, og "bókvitið verður ekki í askana látið". Niður með menntafólkið, helvítis bankamelina, og upp með skítuga durginn með siggið á fingrunum. Já, látum bókaorminn og skáldið éta bækurnar sínar svo hann læri sína lexíu!

Þegar ég var örlítið yngri og örlítið vitlausari bar ég virðingu fyrir þessu liði, sem við fyrstu sýn virðist vera að færa okkur hinum matinn á diskana. Svo gerði ég mér grein fyrir að hinir færa okkur miklu meira: lyfjafræðingurinn sem læknaði sjómanninn af lungnabólgu svo hann lést ekki fyrir þrítugt -verkfræðingurinn sem smíðaði traktorinn, svo bóndinn þarf ekki að plægja akurinn með uxa, -lögfræðingurinn sem skýrði eignarrétt bóndans og skapaði áreiðanlegt lagaumhverfi um viðskipti til að tryggja vandræðalausa fjármögnun fyrir nýja togaranum, -líffræðingurinn sem komst að því hvað anæringarefni er best að bera á túnin.

Bóndinn væri enn að mjólka kúna með höndunum, og sjómaðurinn væri enn í selskinnsklæðunum ef ekki væri fyrir bókvitið í borginni. Verkafólkið á landsbyggðinni vinnur vinnuna, en landkrabbarnir sem aldrei hafa rótað í mold skaffa framleiðnina.

Ef eitthvað er eru sjómenn, og þó bændur sérstaklega, að skaða okkur hin. Hversu mörg frystihús hafa ekki fuðrað upp í eldi "fyrir slysni", eftir að ógáfulegar fjárfestingar sveitalubba keyrðu útgerðina í þrot? Hversu mikið er bruðlið í fiskveiðistjórnunarkerfinu, löndun framhjá vigt, sjómannaafsláttur, kvótabrask og allt það að kosta okkur hin? Hversu miklar hömlur og ofurtollar eru lagðar á innflutning á ódýrari og betri landbúanðarvöru hingað til lands til að vernda íslenska bændur fyrir því að neytendur hafi frelsi til að velja?

Ég væri eflaust að ná betur til lesenda þessa bloggs ef ég stillti mál mitt. Það þarf að orða hlutina ofur-blíðlega svo að liðið á landsbyggðinni geti tekið gangrýni. En ég get ekki stillt mig um að nota stór orð, því staða mála á Íslandi er alveg hreint út í hött, og glóruleysið í tillögum Vestmannaeyinga er sláandi dæmi um þá erkiheimsku og sérhagsmunavæl sem einkennir íslenska landsbyggðapólitík -á kostnað okkar hinna.

Promotor Fidei, 28.7.2007 kl. 00:49

14 identicon

Maður lifandi, ég vona svo sannarlega að þú komist aldrei á þing. Ég vil þó taka fram að ég er á móti jarðgöngum til Eyja, jarðfræðilegu rökin væru nóg fyrir mig þó að þau myndu kosta túskilding með gati.

Og fyrst þú ert að tala um Landsbyggðarríginn, hvernig væri þá að minnast aðeins á Reykjavíkurrembinginn, það má skilja af orðum þínum að það búi eingöngu sjómenn og bændur á Landsbyggðinni, og að í þá sé ausið fé sem væri betur varið í höfuðborginni, t.d. í enn ein mislæg gatnamót, af því Reykvíkingar kunna ekki að keyra. Það segir sig sjálft að þarna ertu á villigötum.

Ein forsendan sem þú gefur þér er svo kolröng, það að sjávarútvegurinn skapi 12% af þjóðartekjum. Talan er nær 45% ef miðað er við útflutningsverðmæti skv. tölum frá hagstofunni, og það eina sem kemst í hálfkvisti við hann er álframleiðsla, sem mig grunar að við séum ekki að fá hagnaðinn af.

Mig langar einnig að spyrja þig svona hypothetical spurningar:

Ef þú byggir við stutta íbúðargötu á höfuðborgarsvæðinu, segjum 10 hús sitt hvoru megin við hana, og við hana umferð ca. 80 bílar á dag. Myndir þú sætta þig við að hún væri ómalbikuð, ekki mokuð nema 2svar í viku á veturna óháð snjóalögum, hvað þá ef þú kæmist ekki um hana nema tvisvar-þrisvar á dag. Myndir þú ekki láta í þér heyra? Myndir þú ekki fara á háa C-inu til skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins og krefjast úrbóta?

Þetta er það sem mörg sveitarfélög á landsbyggðinni eru búin að búa við svo árum skiptir, og ef menn eru orðnir langþreyttir og, já, hugsanlega frekir í einhverju tilfellum, þá er það vegna þess að reynslan hefur sýnt að það dugir ekkert annað og er mjög skiljanlegt.

Ingvar Skúlason (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 12:16

15 Smámynd: Promotor Fidei

Ágæti Ingvar

Ég stend við það að fjármunum er ausið í óhagkvæman rekstur á landsbyggðinni, og milljörðum varið í að halda lífinu í sjávar- og sveitaþorpum sem löngu hefðu átt að hafa lagst af.

Ég stend líka við það að fjármunum hins opinbera er ekki varið í réttu hlutfalli í íbúa höfuðborgarsvæðisins. Enda höfum við víst ekki sama atkvæðarétt og íbúar annarra landshluta, og því ekki þörf á að hlusta af sömu athygli á kröfurnar í Hafnfirðingi og harmakveinið í Ísfirðingi.

Ef það er Reykjavíkurrembingur að vilja fá að njóta fríðinda hins opinbera í sama hlutfalli og aðrir landsmenn, og að vilja fá að eiga jafnsterkt atkvæði á þingi, þá er ég aldeilis sekur um Reykajvíkurrembing af hæstu gráðu.

Varðandi forsendur útreikninga minna. Það er munur á þjóðartekjum og útflutningsverðmæti. Margar tekjur þjóðarinnar verða til innanlands, og er neytt innanlands, og hafa lítið sem ekkert að segja með útflutningstekjur. Þó ég sé að rifja upp tölur eftir minni, þá held ég það þurfi ekki að fara fjarri lagi að segja að sjávarútvegurinn skapi 12% af þjóðartekjum, þó hann skapi 45% af útflutningsverðmæti.

Sjómannsstéttin, rétt eins og bændastéttin, er því ekki að gera okkur hinum svo ofboðslegan greiða með því að sækja sjó og rækta rollur. Þeir eru að vinna vinnuna sína, fá borgað í samræmi, og eiga ekki heimtingu á neinum sérstökum fríðindum frekar en aðrar stéttir.

Ingvar setur fram hípótetíska spurningu um samgöngur víð litla götu á höfuðborgarsvæðinu. En dæmið er út úr kú. Það er eðlilegt að vænta góðra samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem við njótum þeirra fríðinda að vera í náinni samneyslu með tugum þúsunda fólks í okkar bæjarhluta.

Við fórnum þeim fríðindum að búa í náttúrusælu, með lágt fasteignaverð og frið og ró. Í staðin hljótum við þau fríðindi að vera í nágrenni við menningu, menntun og heilbrigðisþjónustu, og ýmis önnur þægindi sem við deilum með hagkvæmum hætti með tugum þúsunda samborgara okkar.

Sá sem býr í afskekktu sveitaþorpi tekur upplýsta ákvörðun um að flytja eða ekki flytja. Hann velur sveitasæluna, sjómannslaunin og hvaðeina annað sem heillar og sættir sig við að ekki er hægt að leggja malbik upp að hverjum kofa, og að stundum fennir fólk inni í fjörðum. Það er ekki fjárhagslegur sans í því að búa honum nákvæmlega sömu samgöngur og þjónustu og hinum sem býr í blokk í Reykjavík. En hann veit það fyrirfram, og getur ekki kennt öðrum um hvernig fyrir honum er komið. Enginn hefur beitt hann ranglæti, og skattborgarar bera ekki skyldu til að borga fyrir að leggja hitaðan veg upp að býlinu.

Bónda Durgssyni er hins vegar frjálst að reyna að bæta hag sinn sjálfur. Hann gæti t.d. keypt sér vélsleða, til að komast með stæl milli staða í mestu snjóunum, eða fjárfest í spíttbát til að geta spanað með hraði til meginlandsins þegar sá gallinn er á honum.

Promotor Fidei, 28.7.2007 kl. 15:38

16 identicon

Örlítið málefnalegri núna sé ég.....

Ég skal svara þessu lið fyrir lið, sumu er ég sammála, öðru ekki:

Hnoðri: 

Ég stend við það að fjármunum er ausið í óhagkvæman rekstur á landsbyggðinni, og milljörðum varið í að halda lífinu í sjávar- og sveitaþorpum sem löngu hefðu átt að hafa lagst af.

Ingvar:

Þess finnast vissulega dæmi að almannafé sé ausið í óhagkvæman rekstur á landsbyggðinni, en það finnast líka dæmi um sambærilegan og jafnvel meiri fjáraustur á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek Tónlistarhúsið sem dæmi. Ég var hins vegar ekki að mótmæla þessu.

Hnoðri: 

Ég stend líka við það að fjármunum hins opinbera er ekki varið í réttu hlutfalli í íbúa höfuðborgarsvæðisins. Enda höfum við víst ekki sama atkvæðarétt og íbúar annarra landshluta, og því ekki þörf á að hlusta af sömu athygli á kröfurnar í Hafnfirðingi og harmakveinið í Ísfirðingi.

Ingvar:

Ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að fjármunum hins opinbera sé eins misskipt og þú heldur fram. Vissulega getur mönnum greint á um forgangsröðun verkefna. En ef við horfum nokkra áratugi aftur í tímann þá er alveg ljóst að umtalsvert meiri fjármunum hefur verið varið til höfuðborgarsvæðisins heldur en landsbyggðarinnar í gegnum tíðina, og ekkert óeðlilegt við það. Við verðum líka að horfa á að 90% af stofnunum og starfsfólki ríkisins eru staðsett á Höfuðborgarsvæðinu, greiða skatta til Höfuðborgarsvæðisins í formi útsvars, eiga mestöll sín viðskipti á Höfuðborgarsvæðinu, við fyrirtæki sem síðan greiða útsvar og gjöld til tilheyrandi sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög á Landsbyggðinni hafa ekki slíkan tekjustofn, og þar af leiðir að ríkið þarf að hlaupa undir bagga til að tryggja íbúum lágmarksþjónustu. Svo má deila lengi um það hver þessi þjónusta á að vera, en mér þykir óásættanlegt að maður komist ekki milli landshluta án þess að fara einhverja bévítans malarvegi, sama um hvaða útnára ég er að keyra.

Hnoðri:

Ef það er Reykjavíkurrembingur að vilja fá að njóta fríðinda hins opinbera í sama hlutfalli og aðrir landsmenn, og að vilja fá að eiga jafnsterkt atkvæði á þingi, þá er ég aldeilis sekur um Reykajvíkurrembing af hæstu gráðu.

Ingvar:

Ef þú mátt tala um Landsbyggðarríg, þá má ég tala um Reykjavíkurrembing. Annars er ég í meginatriðum sammála þér með atkvæðisréttinn, hann þarf að jafna og ég spái því að það gerist innan 10-15 ára. Einhverjir hafa þó bent á að betra aðgengi Reykvíkinga að stjórnsýslunni vegi þennan mun upp að einhverju eða öllu leyti, og fyrir 20 árum síðan höfðu þeir eitthvað til síns máls, en ekki í dag, sökum batnandi samskiptatækni.

Hnoðri:

Varðandi forsendur útreikninga minna. Það er munur á þjóðartekjum og útflutningsverðmæti. Margar tekjur þjóðarinnar verða til innanlands, og er neytt innanlands, og hafa lítið sem ekkert að segja með útflutningstekjur. Þó ég sé að rifja upp tölur eftir minni, þá held ég það þurfi ekki að fara fjarri lagi að segja að sjávarútvegurinn skapi 12% af þjóðartekjum, þó hann skapi 45% af útflutningsverðmæti.

Ingvar: 

Ég er ekki hagfræðingur, og hef kannski ekki öll hugtök á hreinu í því sambandi, en eins og ég skil dæmið þá hlýtur innlent fjármagn að vera að mestu leyti háð því sem kemur inn og því sem kemur út. Undanfarið hefur meira farið út en inn, og heildarfjármagn í landinu minnkað sem því nemur. Ríkið tekur sinn skatt af því fjármagni sem í landinu er, hvar sem það er statt þá og þá stundina, og skatttekjur ríkissjóðs eru því beinlínis háðar viðskiptahallanum, og þ.a.l. útflutningstekjum. Því vil ég meina að röksemdafærsla þín hvað varðar hlut Eyjamanna í skatttekjum ríkssjóðs sé í besta falli yfirborðskennd.

Hnoðri: 

Sjómannsstéttin, rétt eins og bændastéttin, er því ekki að gera okkur hinum svo ofboðslegan greiða með því að sækja sjó og rækta rollur. Þeir eru að vinna vinnuna sína, fá borgað í samræmi, og eiga ekki heimtingu á neinum sérstökum fríðindum frekar en aðrar stéttir.

Ingvar:

Í meginatriðum sammála þessari fullyrðingu, svo fremi hún eigi líka við hinn almenna vinnandi borgara á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil reyndar meina að hætta eigi þessu dekri við bændur á viðeigandi aðlögunartíma. Helstu fríðindi sjómanna er sjómannaafslátturinn, sem er barn síns tíma, og væri betur aflagður, ef á móti koma ákvæði í kjarasamningum. Ríkinu er ekki stætt á að gefa einni starfsstétt meiri afslátt af sköttum en öðrum.

Hnoðri: 

Ingvar setur fram hípótetíska spurningu um samgöngur víð litla götu á höfuðborgarsvæðinu. En dæmið er út úr kú. Það er eðlilegt að vænta góðra samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem við njótum þeirra fríðinda að vera í náinni samneyslu með tugum þúsunda fólks í okkar bæjarhluta.

Ingvar:

Þetta er útúrsnúningur, þar sem aðalmálið var að íbúar við téða götu myndu kvarta, enda væri það eðlilegt. Það sem þú ert í rauninni að segja er það að fólk á landsbyggðinni hafi ekki rétt til að kvarta. Ég verð að mótmæla því, enda stjórnarskárbundinn réttur allra landsmanna að segja skoðun sína á hverju sem er. Ég held að flestir á landsbyggðinni skilji að þeir geti ekki búist við að fá jarðgöng undir hvern einasta hól sem er fyrir þeim, en fyrir mitt leyti verð ég að segja að á meðan er ekki hægt að komast eftir helstu þjóðvegum landsins(1, 60, 61, 85) nema hossast á möl, þá er ekki nóg að gert. Á einstaka stað dugir þó malbikið eitt og sér ekki til, og þar er nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti að grafa göng. Dæmi um slíkt eru Óshlíðargöng og ný Norðfjarðargöng.

Hnoðri:

Við fórnum þeim fríðindum að búa í náttúrusælu, með lágt fasteignaverð og frið og ró. Í staðin hljótum við þau fríðindi að vera í nágrenni við menningu, menntun og heilbrigðisþjónustu, og ýmis önnur þægindi sem við deilum með hagkvæmum hætti með tugum þúsunda samborgara okkar.

Ingvar: 

Ég hef alltaf litið á menntun og heilbrigðisþjónustu sem grunnmannréttindi en ekki sem fríðindi. Menninguna máttu eiga fyrir mér, enda er nóg af henni úti á landi, því þar sem tveir menn koma saman, þar er menning. Að öðru leyti þokkalegasti punktur.

Hnoðri:

Sá sem býr í afskekktu sveitaþorpi tekur upplýsta ákvörðun um að flytja eða ekki flytja. Hann velur sveitasæluna, sjómannslaunin og hvaðeina annað sem heillar og sættir sig við að ekki er hægt að leggja malbik upp að hverjum kofa, og að stundum fennir fólk inni í fjörðum. Það er ekki fjárhagslegur sans í því að búa honum nákvæmlega sömu samgöngur og þjónustu og hinum sem býr í blokk í Reykjavík. En hann veit það fyrirfram, og getur ekki kennt öðrum um hvernig fyrir honum er komið. Enginn hefur beitt hann ranglæti, og skattborgarar bera ekki skyldu til að borga fyrir að leggja hitaðan veg upp að býlinu.

Ingvar:

Það er enginn að tala um að leggja malbik að hverjum kofa, enda yrði slíkt verkefni á vegum viðkomandi sveitarfélags, hvort sem er í Reykjavík eða Breiðdalshreppi, og væri því greitt af útsvarspeningum íbúa. Það sem verið er að tala um eru þjóðvegir, að hægt sé að komast á milli þorpa, bæja, borgar, landshluta án þess að eiga á hættu að fá nýrnalos af hristingnum. Það verkefni er reyndar vel á veg komið en betur má ef duga skal. Mér finnst reyndar hafa verið bruðlað svolítið með jarðgöng undanfarin ár, og forgangröðun þáverandi samgönguráðherra ekki til fyrirmyndar, en nú virðist horfa til betri vegar.

Hnoðri:

Bónda Durgssyni er hins vegar frjálst að reyna að bæta hag sinn sjálfur. Hann gæti t.d. keypt sér vélsleða, til að komast með stæl milli staða í mestu snjóunum, eða fjárfest í spíttbát til að geta spanað með hraði til meginlandsins þegar sá gallinn er á honum.

Ingvar:

Já, hann um það, þetta er jú frjálst land.

Bestu kveðjur....

Ingvar Skúlason (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 18:12

17 Smámynd: Promotor Fidei

Mikið er fjarskagaman að fá svona vönduð og ítarleg svör, eins og Ingvar setur hér inn á bloggið mitt.

Um sumt getum við Ingvar verið sammála, og um annað ekki.

  • Það væri gaman að lesa ítarlega úttekt á þeim fjármunum sem varið er í þjónustu og allskyns fjárveitingadekstur á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar, og fá þannig botn í þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Ég held hins vegar að tónlistarhúsið, sem Ingvar nefnir sem dæmi, nái ekki -þegar höfðatala er tekin með í reikninginn-, að trompa ólympísku innisundlaugarnar og yfirbyggðu gervigrasvellina sem byggðir eru í nokkur þúsund manna bæjarfélögum.
  • Vegagerð er rándýr, og það er hreinlega ekki réttlætanlegt annað í þeim málum en að eyða peningunum fyrst þar sem ávinningurinn er mestur. Ef við látum ekki hagkvæmniáhrif ráða ferðinni í forgangsröðun, þá er eitthvað mjög vafasamt á seyði. Ef það fæst meiri ávinninguraf að byggja mislæg gatnamót í Reykjavík, en að malbika einhverja tugkílómetra milli fiskveiðiþorpa, þá hafa mislægu gatnamótin forgang. Það má ekki refsa borgarbúum fyrir það að hafa sameinað samneysluhagsmuni sína á einn blett á landinu. Óþægindi í samgöngum vega ekki þyngra úti á landi en þau gera í Reykjavík.
  • Ingvar bendir á þau merkilegu rök sem menn beittu áður fyrr, til að réttlæta atkvæðisvægismuninn, að í Reykjavík væri fólk svo nærri stjórnsýslunni að það bætti upp muninn. Þetta er einmitt lýsandi dæmi um hugsunarvillu í landsbyggðapólitik: að hægt sé að láta einhvern hluta landsmanna hljóta skert eða aukin ríkisborgararéttindi eftir því hvar þeir velja sér (vitandi vits og ónauðugir) að búa.
  • Ég vísa á bug að tölfræðifikt mitt með áhrif Vestmannaeyinga á þjóðarhag sé yfirborðskennt, þó dæmið sé einfaldað og byggt á minni. Við borgum öll af tekjum svipað hlutfall í skattasjóðina, hvort sem við vinnum við útflutningsgreinar eða ekki. Þó útflutningurinn sé af hinu góða, þá er heilmikil verðmætaframleiðsla önnur í landinu, og framlag Vestmannaeyinga ekki slíkt, og svo einstakt, að þeir eigi skilin sérstök fríðindi á kostnað okkar hinna.
  • Jú fólk kvartar, en það má huga að því hvernig stjórnmálamenn og og fjölmiðlar fást við þessar kvartanir.
    Þegar gangaraupið í misvitrustu Vestmannaeyingum fór af stað, hefði átt að hlægja að þeim sem báru málið upp, frekar en að skrifa um það í blöðum og vinna skýrslu um málið -svo fáránleg er hugmyndin.
    Skynsemi og heilbrigð forgangsröðun á að ráða ferðinni, en ekki hvaða hreppspólitíkus nær að hrópa hæst.

      Umræða á landsbyggðinni eins og hún er orðin nú getur ekki kallast annað en frekja. Og það á ekki að heiðra sumar af þessum gengdarlausu bruðlhugmyndum með því að taka þær til umræðu. Dreifbýli er dreifbýli, og það er einfaldlega út í hött að ætlast til þess að fá jarðgöng í hvern dal eða keppnissundlaug í hvert pláss.
       Sveitarfélögin hafa auðvitað svigrúm til að dekstra við ýmis verkefni í héraði, fyrir útsvarstekjur og frjáls framlög, en að vilja ganga á samneyslusjóði þjóðarinnar í hlutfalli sem er alveg hreint úr öllu samhengi við fólksfjölda, er eitthvað sem ekki er tækt, sama hvað sveitin er fögur, og sama þó togaraútgerðin gangi ágætlega í plássinu.

Svo má í lokin láta fljóta með áhugaverðar tölur. Að því er fram kom athugasemdum frá einum aðilanum hérna kostar reksturinn við Herjólf, nú eða í framtíðinni allt að milljarð á ári -og þjónustar sumsé 4.000 manna eyju.

Erfitt var að finna nýlega tölfræði til samanburðar, en ég gat þó grafið upp á netinu að kostnaðurinn við Strætisvagnakerfið allt á höfuðborgarsvæðinu var einhversstaðar á bilinu 1 til 1,5 milljarður árið 2004. -og þjónustar hér um bil 200.000 manna svæði.

Þessi litli tölfræðistubbur segir mikið um þann mun á fjármagni sem fer í að bæta lífsgæði borgarbúa annars vegar og bæta lífsgæði Vestmannaeyinga hins vegar, en Vestmannaeyingurinn fær um fimmtugfalt meiraí sinn hlut, s.kv. þessu einfaldaða dæmi.

Promotor Fidei, 29.7.2007 kl. 19:09

18 identicon

Ég held það endi með því að við verðum sammála um að vera ósammála.

Mig langar samt að benda á eitt í sambandi við Tónlistarhúsið. Það fer nefnilega eftir því hvaða höfðatölu maður miðar við hvort þetta telst vera bruðl eður ei. Þú notar greinilega íbúatölu Reykjavíkur eins og hún leggur sig, á meðan ég vil frekar miða við þann þrönga hóp manna og kvenna sem kemur til með að nota ferlíkið. Ef þér finnst mulið undir landsbyggðina, þá skaltu skoða hvað er mulið undir listamenn í þessu landi.

Varðandi keppnissundlaugar og Knattspyrnuhallir, þá er ég ekki viss hvaða sundlaug þú ert að vísa í, en ef þú ert að vísa í Knattspyrnuhöllina á Reyðarfirði þá fjármagnaði Alcoa það verkefni að stórum hluta, og sveitarfélagið bróðurpartinn af því sem eftir stóð ef mig misminnir ekki.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru ekki eins slæmar og af er látið. Þar er þó hægt að komast á milli staða á malbiki sama hvert maður ætlar, og þarf ekki að hafa áhyggjur af nýrnalosi og snjóflóðum. Óþægindi af völdum samgangna í Reykjavík felast að mestu leyti í þeim fjölda sem notar þær.

Óþægindi, ef svo skyldi kalla, af samgöngum á landsbyggðinni, eru fyrst og fremst öryggistengdar. Vegakerfið þar er nefnilega umtalsvert hættulegra en nokkurn tímann í Reykjavík. Banaslys í umferðinni á síðasta ári, áttu sér flest stað á landsbyggðinni. Einhver vegna hraðaksturs, en flest vegna þess að þar á eftir að nútímavæða vegakerfið. Spurningin er: Hversu mörgum mannslífum vilt þú fórna til að vera 5-10 mínútum fljótari í vinnuna á morgnana? Ég segi núll.

Þú berð saman Strætó og Herjólf, en þar er ekki líku saman að jafna, og að segja að Strætó þjónusti 200.000 manns er í besta falli ýkjur. Meirihluti borgarbúa notar aldrei strætó, og ég gæti trúað að við værum í mesta lagi að tala um 10.000 manns sem notar þessa þjónustu oftar en 10 sinnum á ári. Það er hins vegar vandfundinn sá Eyjamaður sem aldrei hefur stigið fæti í Herjólf. Þessi samanburður er því svolítið skakkur hjá þér.

Ingvar Skúlason (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 20:13

19 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

nú verð ég alveg að játa það að ég hvorki nenni né hef tíma til þess aðkoma með svona rosalega stór og mikil svör einsog Ingvar Skúlason á heiðurinn af.

en ég ætla að fá að benda á nokkra hluti.

 í einhverju svarinu hérna á undan sagðir þú.(ætlaði alltaf að commenta á þetta áður en það bara gleymdist)

"

En þá gleymist að minnast á hversu dýrt það er fyrir hið opinbera, reiknað á hvern íbúa, að reka allskyns þjónustu í fámennum byggðum. Leggja holræsi í hvert hús, byggja vatns- og rafmagnsveitu, starfrækja skóla þar sem kannski eru ekki nema 5-10 börn í árgangi. Vera með lögreglu og lækna á vakt allan sólarhringinn í bæjarfélagi sem telur varla upp fólksfjöldan í hálfu póstnúmeri í Reykjavík."

holræsin veit ég ekki betur en að bærinn sjái um

vatn og rafmagn sáu bærinnum og núna Hitaveita Suðurnesja (þess má geta að 1968 þegar að vatnsleyðslan kom þá voru það vestmannaeyjingar sem að borguðu fyrir hana, einmitt vegna svona mönnum einsog þér).

ég veit ekki betur en að bæjarfélögin sjái um skólana með styrk frá ríkinu, jafnháum styrk per haus, alveg sama hvort að barnið gangi í skóla í reykjavík, á akureyri eða í mjóafirði (já eða hérna í eyjum)

það er nú bara þannig að þetta er ísland og ríkið ísland sér um heilsu og löggæslu, þannig að ég get ekkert séð að því að það sé lögrelga og læknar á svæðinu.

Með Sundlaugarnar og knattspyrnuvellina

ég er nú ekki alveg pottþéttur á því en ég er bara alls ekkert svo öruggur um að ríkið borgi krónu í þessu, allavega er verið að reyna að fá knattspyrnuhöll hingað í þetta bæjarfélag og það er alltaf bærinn sem að er verið að rífast í útaf því, ekki ríkið.

nú sundlaugin hérna var ef að e´g man rétt gjöf frá norðmönnum

ég get ekki séð afhverju þú ert að nöldra yfir eitthverju sem að einmitt reykvíkingar (né aðrir landsmenn) hafa bara ekkert komið nálægt því að borga.

nú ætla ég að renna örlítið yfir nokkra aðra hluti sem að þú nefndir.

strætó. þú segir að hann þjónusti 200.000 manns, afhverju í ósköpunum eru þá allir stræðtóar hálf tómir ?, málið er að hann þjónustar ekki nema alveg maximum 10 - 15 þúsund mans sem að nota hann að staðaldri. þannig að þér er alveg óhætt að lækka töluna þarna alveg óhemju.

með atkvæðismuninn er ég reyndar alveg sammála þér, það er eitthvað sem að á sinn hátt er náttúrulega útí hött.

 "Ef eitthvað er eru sjómenn, og þó bændur sérstaklega, að skaða okkur hin. Hversu mörg frystihús hafa ekki fuðrað upp í eldi "fyrir slysni", eftir að ógáfulegar fjárfestingar sveitalubba keyrðu útgerðina í þrot?"

tjahh ég man ekki eftir neinu í augnablikinu, þú kannskirifjar upp nokkur stykki.  :)

en síðast af öllu vill ég minna þig á það sem að  ég sagði hérna fyrst.

það er enginn eyjamaður að biðja um göng uppá 50 - 80 milljarða 

Árni Sigurður Pétursson, 29.7.2007 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband