8.8.2007 | 14:35
27. Frekar póker en spilakassa
Hnoðri kann ósköp illa við hverskonar fjárhættuspil, en vill samt leyfa samborgurum sínum að njóta frelsisins til að vera nógu vitlausir til að sólunda eigin peningum eins og þá lystir
Það er verst að það kemur sér ekkert sérstaklega vel fyrir hagkerfið að leyfa fjárhættuspil: það verður ekki til nein framleiðsla eða menning í spilasölunum -heldur eru peningar bara færðir úr einum vasa í annan og fólk sóar tíma sínum í fíkn og framleiðsluleysi. Það væri þá betra fyrir hagkerfið ef peningunum væri frekar sóað í varning á borð við hraðskreiða bíla, góðan mat, dýr vín, ferðalög á framandi slóðir eða hvaðeina annað sem veitir fólki lífsfyllingu og upplifun.
En óhætt er að segja að ef menn ætla að veðja á annað borð, þá er stigsmunur á veðmálum í spilakassa og veðmálum í almennilegum spilavítisleik á borð við póker. Spilakassar eru og verða alltaf lágkúra og fíkn, þar sem [iðulega] neðstu og aumustu lög þjóðfélagsins láta glepjast til að sitja í trans, ýta á takka á litríkum skjá og bíða eftir að tilviljun færi þeim smá sigur, með klinkhljóði og melódíu.
Við pókerborðið myndast þó mannlíf! Þar er líka ekki aðeins hægt að stóla á heppnina, heldur þarf að tileinka sér hæfileika og rökhugsun, og þroska einhverjar hliðar sjálfsins. Þar er maður manns gaman.
Pókerleikirnir hafa það einnig fram yfir spilakassanna að vera ekki framan í fólki á öllum strætóstoppistöðvum og í horninu á hverjum bar og sjoppu. Til að spila póker þarf bæði tilefni og félagsskap, og skemmir ekki fyrir að panta sér varning með leiknum eins og eina bjórkrús og snarl úr eldhúsinu.
Best af öllu er þó að við fimm manna pókerborð má ætla að amk einn hreyfi við mótmælum þegar amma gamla öryrki ætlar að spreða öllum lífeyrinum sínum í leikinn. -Það er engin siðferðisfítus til staðar á spilakössunum.
Segir lögreglu ekki hafa mál í höndunum vegna pókermóts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.