16.8.2007 | 12:57
30. Ekki örvænta. Hún lækkar alltaf á haustin (með línuriti!)
Það er vel skiljanlegt ef lesendum Mbl.is svelgist á hádegismatnum þegar æsilegar fréttir berast af veikingu krónunnar um 12,6% á einum mánuði.
Nú er Hnoðri bara frístunda-hagfræðingur, en hefur þó fyrir löngu komið auga á þá staðreynd að íslenska krónan tekur breytingum eftir árstíðum, og gengishækkunin kemur og fer rétt eins og farfuglarnir.
Hnoðri ætti auðvitað að halda þessum upplýsingum fyrir sig, til að valda ekki titringi á markaði, en einhversstaðar verður það þó að koma fram að undanfarin 5 ár hefur gengi dollars gagnvart krónu tekið að hækka um júlí-ágúst-september og lækkað að nýju 2-3-4 mánuðum síðar.
Þar sem Hnoðri er ekki enn útlærður í göldrum hagfræðinnar getur hann ekki sagt svo glatt til um hvað veldur þessum skýru árstíðasveiflum, en líklegir sökudólgar eru í huga Hnoðra a) skýrslur Hafró um þetta leyti árs b) hallærisleg fjármálastjórn hins opinbera c) pólitíkusar og bankagaurar eru að koma úr sumarleyfum um þetta leyti árs og leiðist í vinnunni.
Meðfylgjandi er svo lítið graf, yfir þróun dollars gagnvart krónu frá janúar 2002, sem sem sýnir árstíðasveiflurnar á ótrúlega skýran hátt.
Til glöggvunar er sett rauð ör á kúfinn, sem lendir á línu sem dreginn er milli júlí og október ár hvert, og broskarl þegar dollarinn er hvað hagstæðastur gagnvart krónu, iðulega um og eftir apríl hvert ár.
Svo er spurning hvort Hnoðri fær ekki starf hjá einhverri greiningardeildinni fyrir framtakið?
Krónan hefur veikst um 12,6% á tæpum mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Athyglisverð hagfræði, Hnoðri. Þó ber að athuga kerfisbreytingar sem eru í gangi í hagkerfi heimsins og eru ráðandi þættir varðandi krónuna. Núna er flóðbylgja, ekki bara flóð og fjara.
Ívar Pálsson, 16.8.2007 kl. 13:54
Þetta er auðvitað hálfgerð rassvasahagfræði hjá mér, en sveiflurnar eru þó furðu skýrar.
Það er gaman að lesa bloggið þitt Ívar, enda fáir sem láta það eftir sér að tala með hæfilegum votti af svartsýni um íslenska hagkerfið í öllu bjartsýnisfylleríinu.
En efnahagur Íslands virðist trekk í trekk ná að brjóta þau lögmál sem annars gilda í löndum þar sem býr fólk með fjármálavit og skynsemi. Alveg síðan íslenska fjármálaútrásin hófst hafa gáfaðir menn varað við því að farið væri of geyst, gengið væri út í hött, fjárfestingar og framkvæmdir rangt tímasettar og efnahagslegt syndaflóð á næsta leyti.
Alltaf virðist dæmið samt ganga upp á endanum. Og kannski er hin nýfædda "hnoðrakenning" um bylgjuhreyfingar íslensku krónunnar lýsandi fyrir hegðun íslenska hagkerfisins, sem hreyfist í skörpum begjum endrum og sinnum en helst alltaf á skikkanlegu róli.
Promotor Fidei, 16.8.2007 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.