31. Mig langar að stofna alvöru frelsisflokk

Ég held það sé mikil vöntun á alvöru hægriflokki í íslenskum stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn svo langt inn á miðju, og farinn að hafa svo miklar áhyggjur af einkalífi og neyslu borgarans, að hann stendur varla undir nafni lengur sem hægriflokkur.

Frjálslyndi flokkurinn virðist vel meinandi á ýmsum sviðum, einkum þegar kemur að einkavæðingu og markaðsfrelsi, en er með kolranga skattastefnu.

 

Hvar er flokkurinn sem berst ekki fyrir öðru en afskiptaleysi ríkisvaldsins? Hvar er flokkurinn sem vill í alvöru lækka skatta svo eftir verði tekið, og færa sem mestan rekstur af hendi hins opinbera?

Hvar er flokkurinn sem er með hreinan skjöld, ekki með tengsl í valdablokkir í allar áttir og ekki með innra uppeldiskerfi sem sér til þess að enginn nema þeir valdagráðugustu, ríkustu og slóttugustu komast á toppinn í flokkinum.

Hvar er flokkurinn sem vill ekki skipta sér af siðferðismálum borgaranna, og meinar það þegar hann segir að kominn sé tími til að skilja að ríki og trúarbrögð?

Myndu ekki margir Reykjvíkingar kjósa flokk sem hefði þá skýru og einföldu stefnu að lækka skatta, einkavæða þjónustu og skipta sér ekki af lífi borgaranna?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Ég hallast reyndar frekar til vinstri en hægri; tel ríkisrekstur á ýmsum grunnstoðum samfélagsins af hinu góða, sem og velferðarkerfi og allt það. Hins vegar hlýtur að vera eitthvað að þegar jafnvel mér er farið að blöskra forræðishyggjutalið í sumum Sjálfstæðismönnum.

Fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um frjálslyndi - að ríkið eigi að skipta sér allra minnst af persónulegum högum fólks eða reyna að móta þeirra hegðun og siðferði. Aðskilnaður ríkis og kirkju er gott dæmi um mál sem íslenskir stjórnmálamenn hafa því miður upp til hópa engan áhuga á, þó svo að meirihluti landsmanna segist iðurlega styðja slíkan gjörning í skoðanakönnunum. Það vantar bara allt þor og dug í þessa pólitíkusa; sumu má bara einfaldlega ekki hrófla við. Síðan virðast flestir þeirra líta á það sem sitt hlutverk að leiðbeina okkur sauðunum og passa að við förum okkur nú ekki að voða.

Hugmyndin um að flokkurinn yrði laus við ítök rótgróinna valdablokka hugnast mér líka sérlega vel. Það er allt of oft sem maður spyr sig að því hvaða hagsmunir eru að baki hinu og þessu sem pólitíkusarnir eru að boða - til að mynda eru núna komnar upp samsæriskenningar um að raus Binga og Villa um hversu hræðilegt það sé að Vínbúðin sé að selja bjór í stykkjatali tengist viðskiptahagsmunum kráanna í miðbænum; að þeim hugnist ekki þessi samkeppni. Auðvitað veit maður ekkert hvað er til í þessu, en engu að síður er þetta enn eitt dæmið um  undarlegan málflutning sem auðvelt er að kokka upp samsæriskenningar um. Þetta virðist alla vega ekki byggjast á neinni heilstæðri hugsjón - svo mikið er víst.

Já, ég held því að ég gæti vel hugsað mér að styðja slíkan flokk, allt eftir því hvernig heildarhugmyndafræði hans verður, og hverjir munu leiða hann.

Þarfagreinir, 17.8.2007 kl. 20:01

2 Smámynd: Ingvar Skúlason

Varðandi síðustu málsgreinina, þá myndu 30% Reykvíkinga kjósa Sjálfstæðisflokkinn þó þar væru ljósastaurar í 10 efstu sætum.

Ingvar Skúlason, 27.8.2007 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband