21.8.2007 | 16:01
34. Þriðji hver prestur hómófóbískur
Enn og aftur sýnir íslenska prestastéttin hvað hún er algjörlega úr sambandi við raunveruleikann. Andaktin er svo mikil í þessu liði að það þeir ná engu jarðsambandi, þessir menn og konur sem taka það svo að sér að prédika yfir okkur hinum um hvað eru réttir siðir og rangir.
Nokkur atriði vil ég taka fram í tilefni af frétt á Mbl.is um könnun Íslensku þjóðkirkjunnar
1. Eins og oft vill gerast vantar nánari upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður könnunarinnar. Rösklega þriðjungur svarenda er svo hómófóbískur að hann vill ekki einusinni vígja samkynhneigða saman. Sögunni fylgir ekki að um netkönnun var að ræða og svarhlutfall aðeins 75%, og leyfi ég mér að ætla að sá fjórðungur aðspurðra sem ekki tók afstöðu séu einmitt af allraforpokuðustu sortinni, sem líklega loka netkönnun med det samme þegar orðið "samkynhneigð" birtist á tölvuskjánum.
2. Af þeim sem svöruðu voru 20% mjög andvígir að vígja saman samkynhneigð pör. Má því ætla að fimmti hver prestur sé virkilega róttækur í afstöðusinni gegn samkynhneigð.
3. Það er ofboðslega þreytandi að hjúskapur samkynhneigðra skuli vera nefndur öðru nafni en hjúskapur gagnkynhneigðra. Það er móðgun og réttindabrot að veita samkynhneigðum pörum ekki sömu vígsluna með sama nafninu (og auðvitað alveg sömu réttindum og skyldum).
Það er til marks um fordóma þegar fólk getur ekki talað um hjónaband og giftingu samkynhneigðra, heldur grípur til afsláttarorða eins og staðfest samvist og staðfestingu. Það held ég svei mér að gagnkynhneigð pör myndu móðgast ef presturinn byðist til að staðfesta hjá þeim samvistir.
Samkynhneigðir eru ekki annars flokks þjóðfélagsþegnar, og sambönd þeirra og ástir ekki annars flokks heldur -nema auðvitað í augum þjóðkirkjunnar.
En prestunum, jafn heilagir og sjálfumglaðir og þeir eru, væri svosem frjálst að stunda sína hómófóbíu og mismuna samkynhneigðum eins og þá lysti ef kirkjan væri frjáls félagasamtök. En um er að ræða stofnun sem fær að njóta sérstakra sponslna úr vasa skattgreiðenda. Við borgum marga milljarða ár hvert fyrir mannréttindabrotin, og dregur kirkjan sér jafnmikið úr launaumslögum gagnkynhneigðra og samkynhneigðra.
Það er löngu tímabært að skera á tengsl ríkis og kirkju, og binda endi á þau sérfríðindi sem lútersk evangelíska kirkjan nýtur umfram önnur trúfélög á landinu. Enda alveg hreint fáránlegt að upplýst nútímasamfélag taki siðrænt mark á valdastofnun sem byggir prédikanir sínar á ofsjónum kvenhatandi þrælahaldara sem stunduðu hjarðmennsku fyrir botni miðjarðarhafs á bronsöld. -Valdastofnun sem trekk í trekk í veraldarsögunni hefur staðið í vegi fyrir framförum og mannréttindum, og jafnvel verið hvatinn að mörgum mestu hörmungum og stríðsátökum sem dunið hafa á mannkyninu.
Verkin sýna að valdastofnunin hin kristna kirkja er enn söm við sig, og veldur ómældu tjóni og þjáningum.
Og nú vil ég sjá eitthvert hommaparið eða lesbíuparið taka sig til, og heimta að þau verði gefin saman með sömu athöfn, sama nafni og sömu lagalegu afleiðingum og ef þau væru gagnkynhneigt par. Hver sá sem stendur í vegi fyrir vígslunni, hvort heldur það verður einhver bjúrókrati hjá sýslumanni, skrifstofulumma hjá Biskupstofu eða skattaspekúlant hjá Ríkisskattstjóra, verður kærður fyrir brot á 65. grein Stjórnarskrárinnar. Það dugar ekkert minna en að siga dómstólum á þetta lið, og getur þá tvennt gott hlotist af: að þjóðkirkjan verði að beygja sig undir mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, ellegar að hún segir skilið við þjóðkirkjutitilinn og þau sérfríðindi sem honum fylgja.
Ég læt hér fylgja með mynd af Alnæmissjúklingi í Afríku, sem bíður dauðans. Svona rétt til að mina á hvað það kostar stundum að hlusta á vitleysuna sem kemur frá hinni kristnu kirkju, en Páfanum er mikið í mun að Afríkubúar noti ekki smokkinn, -enda hefur Vatíkanið margoft lýst því yfir þvert á það sem allir vita og vísindamenn hafa margítrekað sannað, að smokkurinn veiti enga vernd gegn HIV smiti, og auki jafnvel hættuna á smiti.
Það má líka fylgja með að Utanríkisráðuneytið ver um 193 milljónum króna árlega til mannúðarmála og neyðaraðstoðar, en Þjóðkirkjan fær um 3,5 milljarða árlega úr vösum skattgreiðenda.
Meirihluti presta hlynntur heimild til að staðfesta samvist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.