24.8.2007 | 14:04
36. Um blokkir, birtu, og gullinsnið á 64. breiddargráðu
Reykjavík er flöt borg, og raunar má halda því fram að það sé vöntun á stöku turni og spíru til að nota sem kennileiti.
Ef ekki væri fyrir það að allsstaðar sést í Esjuna í norðri, þá væri varla nein leið fyrir aðkomumann að ná áttum á Reykjavíkurflatlendinu.
Og eins og Reykjavík er flöt, þá er hún dreifð. Og kannski fullmikið úr henni teygt, sem hefur kannski helst þann fylgifisk að strekkja á samgönguleiðum og torvelda uppbyggingu brúkanlegs almenningssamgöngukerfis.
Það má byggja hærra en gert er, og þéttara. Raunar mættu flest hús í Reykjavík vera einni eða tveimur hæðum hærri, án þess að það kæmi að sök -þau eru ekki orðin háhýsi fyrir því. Við verðum samt að fara varlega í því að byggja heilan skóg af turnum, birtunnar vegna.
Buenos Aires er dæmi um borg sem byggð er mjög hátt og þétt. Hús upp á 9-10 hæðir þykir ekki gnæfa yfir umhverfið, og húsalengjurnar eru ekki aðskildar með nema tveggja akreina götu. -En í Buenos Aires er líka alltaf sól, og nokkurnvegin beint ofaná húsin, svo það skapast enginn drungi í skugga bygginganna.
Manhattan er líka þétt byggð, og byggð mun hærra en Buenos Aires, en nýtur þó ekki alveg sömu birtuskilyrða. Þar hafa menn líka gripið sérstaklega til byggingarreglna til að gæta þess að hleypa birtu niður á götu. Mér skilst að þar megi ekki enn byggja upp í beinni línu frá lóðarmörkum, heldur verði byggingin að falla inn um svo og svo margar gráður frá lóðarmörkum, svo að hún kasti ekki jafnmiklum skugga.
Á Íslandi fellur sólin yfirleitt lárétt á landsmenn. Það þarf ekki að byggja háa turna og marga til að mynda vegg sem varpar löngum skugga.
Blokkirnar sem nú standa við Keilugranda, jafnljótar og þær eru, taka merkilegt nok tillit til þessarar staðreyndar, enda aðeins byggt 3-4 hæðir upp, en svo tekur við mikið aflíðandi þak með um 45° halla, um 2,5 hæðir í viðbót. Þannig er meiri birtu hleypt í svæðið milli blokkanna.
Ef þeir gera það ekki nú þegar þurfa þeir sem ráða byggingastefnunni á Íslandi að huga sérstaklega að birtuskilyrðum, svo ekki myndist drungi yfir borginni.
Um leið verðum við þó að láta það eftir okkur að byggja stöku spengilegan turn, og alls ekki falla í þá gryfju að byggja háhýsin lárétt eins og gert var í Breiðholtinu að Rússneskum sið. Það þarf að byggja þétt, en þó þurfa húsin að vera í klösum sem eru ekki svo þéttir að þeir hleypi ekki birtu inn í plássið sem milli þeirra er.
Sú leið sem virðist hafa gefist best til að þétta byggð hér á landi er að byggja lágt, en mjög þétt, eins og og í Þingholtunum. -Þar er enginn garður á milli húsa, heldur bara fyrir framan og aftan. Lágreist byggð þar sem húsin snertast er hæglega þrefalt þéttari en ef garður væri í kringum hvert hús, en hleypir um leið birtu.
Við ættum kannski frekar að líta til Lundúna til fyrirmynda, þar sem hús rísa 3-4 hæða og standa þétt saman. Þar láta þeir heldur ekki sama arkitektinum eftir að hanna heilu hverfin, svo að götumyndin verður ekki eins og kæliskápadeildin í raftækjaverslun.
Ef gullinsnið væri svo notað sem viðmið um breidd götu og hæð húsanna sem við hana standa, þá ætti að vera tryggt að götumyndin er bæði björt og í góðu hlutfallslegu jafnvægi.
Á fimmta hundrað íbúa í nágrenni Keilugranda andmæla skipulagstillögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.