25.8.2007 | 14:38
37. Rauðar flíspeysur -getum við ekki kennt börnunum að klæða sig smekklega í leiðinni?
Það er merkilegt hvað Íslendingar eru veikir fyrir flíspeysum. Flíspeysan virðist vera orðin hinn nýji þjóðbúningur, jafnpokaleg og tilbrigðalaus flík og hún er.
Jogginggallinn er önnur bráðvinsæl flík, og litlu smekklegri. Lægsti samnefnari fataheimsins, en Íslendingar eru víst oft bráðhrifnir af lægsta samnefnara.
Og úr hverju samanstendur svo "skólabúningurinn" sem börnin í Sæmundarskóla fá? Jú, blágráum joggingalla og rauðri flíspeysu.
-Það er ekki einu sinni litasamræmi á milli flíka!
Börnin eru því klædd upp eins og dæmigert íslenskt úthverfapakk. Vantar bara að blokkaríbúð í Breiðholtinu, flaska af bónus-kóla og áskrift að Sýn fylgi með.
Skólabúningar eru ágætis uppfinning. Það skyldi enginn vanmeta áhrif einkennisbúninga til að innræta fólki ákveðna hegðun. Fötin skapa viðmótið: hver tæki t.d. mark á úrskurðum Hæstaréttar ef dómararnir væru í rauðum flíspeysum og jogginggöllum?
Virðulegir skólabúningar skapa þannig agað og samheldið umhverfi í skólum. Ekki síður gera skólabúningar skólastarfsmönnum auðveldara fyrir að sjá hvort eitthvað barn hefur bæst í hópinn sem ekki á heima á skólalóðinni.
Skólabúningar geta líka gagnast til að kenna börnum að klæða sig smekklega -en það gera flíspeysu-joggingallasettinn ekki.
Það væri þá betra að sjá börnin í almennilegum virðulegum skólabúningum að breskum sið. Fatnaði sem, í alvöru talað, er til þess fallinn að gera börnin myndarlegri frekar en að láta þau líta út eins og algjörir plebbar.
Íslendingar eru síst of smekklegir í klæðaburði, og dylst það engum sem fer til borga á borð við París eða Mílanó að þrátt fyrir alla peningana erum við í Reykjavík flest hver klædd eins og smekklausir flís-durtar.
Ég læt það eftir mér að fantasera um að það myndi kannski smita út frá sér, upp á við, ef börnin væru í klassískum og smekklegum búningum í skólanum.
Hér fylgir svo með mynd af almennilegum skólafatnaði, aldeilis klæðilegri en gerviefna smekkleysan sem virðist ætla að verða ofaná í íslenska skólakerfinu.
Flestir vilja vera í skólabúningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Piff! Held það væri gaman að sjá íslenska skólastráka í svona stuttbuxum í janúar, og ætli stelpurnar yrðu hressar með pilsin í haustrokinu?
Annars vil ég taka það fram að ég bý í blokkaríbúð í Breiðholtinu, hef aldrei verið með áskrift að Sýn og geng ekki í rauðum flíspeysum.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 25.8.2007 kl. 16:01
Persónulega myndi ég frekar vilja vera í þægilegum joggingalla í skólanum en stífum búning eins og þú settir inn hér. Hægt er að nota helgarnar til að kenna börnunum að "klæða sig smekklega".
HOG (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 16:08
Segi sama og HOG, held að það sé mun þægilegra fyrir börn að leik að vera í jogging-galla og flíspeysu heldur en þessum stífu bresku skólabuxum ... svo maður tali nú ekki um hlýrra í skítakuldanum hérna.
Anna (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 16:28
Það má alveg spinna út frá stuttbuxnaþemanu og búa til skólafatnað sem er virðulegur og klæðilegur en ver börnin einnig fyrir vetrarveðrum.
Joggingalli og flíspeysa er reyndar ekkert sérstakur skjólfatnaður þegar út í það er farið. En þá væri kannski næsta útspil hjá íslenskum grunnskólum að gera max-kuldagallann (og helst í nógu ljótum lit) að vetrar-einkennisfatnaði.
Smekklegur og klassískur skólafatnaður þarf ekki að vera óþægilegri en flís- og jogging smekkleysan.
Ég get t.d. séð fyrir mér að einfaldur skólafatnaður fyrir pilta væri hvít skyrta og vesti eða peysa í virðulegum dökkum lit með skjaldarmerki skólans -strax mun myndarlegri klæðnaður en samt fjarri því óþægilegur eða hamlandi.
Og því get ég lofað að ef einn skólinn tæki sig til og klæddi nemendur upp í virkilega flottan skólabúning, þá myndu aðrir skólar fylgja á eftir. Skólabúningur getur nefnilega verið töff flík, sem getur verið sómi af að klæðast. Þegar aðrir skólar, krakkar og foreldrar sjá hvað myndarlegur skólabúningur getur gert, er ekki að spyrja að viðbrögðunum.
Promotor Fidei, 25.8.2007 kl. 16:40
Bara svona svo staðreyndirnar séu á hreinu þá er hægt að velja um tvo liti á henson göllum og tvo liti á flíspeysum og húfum í Sæmundarskóla. Ef til að mynda valinn er dökkblár Henson galli, dökkblá flíspeysa og blá húfa, þá ætti litasamræmið að vera í lagi. En svo er það nú bara einu sinni svo að misjanf er smekkur manna - sem betur fer og ekkert óeðlilegt við það að fólk vilji leika sér með liti.
En mikið er leiðinlegt hve mikla komplexa þú ert með gagnvart Breiðholtinu ég ráðlegg þér að renna í gegnum og skoða hverfið því Breiðholtið er eitt fallegasta hverfi borgarinnar með elliðárdalinn og rjúpnahæð í bakgarðinum.
Óttarr Makuch, 25.8.2007 kl. 17:42
Hvort tveggja þykja mér hallærislegir búningar, bæði þessi Ameríski fangelsis/shopping mall klæðnaður og líka þessi stuttbuxnastíll.
Er sammála samt með að eitthvað á þetta að vera smekklegt til að virka. Þarf oft ekki nema einfaldar buxur og langermaskyrtur.
Spurning hvort þetta klæðnaðarsystem þurfi á annað borð.
Ólafur Þórðarson, 25.8.2007 kl. 19:49
"Fötin skapa viðmótið: hver tæki t.d. mark á úrskurðum Hæstaréttar ef dómararnir væru í rauðum flíspeysum og jogginggöllum?"
Ekki minna en nú þegar.
Arnór (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 20:20
"Breiðholtið er eitt fallegasta hverfi borgarinnar með elliðárdalinn og rjúpnahæð í bakgarðinum."
Það er aldeilis smekkvísin! Breiðholtið er margt, en fallegt verður það aldrei. Fjölfaldaðar sóvétblokkir og sorp um allar götur. Illa uppalin krakkagerpi brjótandi rúður, hrækjandi og mígandi. Mikið vildi ég óska þess að ég byggi annarsstaðar.
Elliðaárdalurinn er svosum sæmilegur, en Vatnsendinn er óðum að hverfa undir Kópavogsháhýsi.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 26.8.2007 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.