30.8.2007 | 14:48
38. Af draugum og drekaflugum
Ég rak fyrir tilviljun augun í færslu Katrínar Snæhólm Baldursdóttur, þar sem hún segir frá því þegar drekafluga sveimaði eitt sinn kringum hana og vinkonu hennar, og lýsir því hvernig hún telur að drekaflugan hafi verið að reyna að koma prívat skilaboðum áleiðis til vinkonunnar.
Katrín kallar líka bókina Nornin frá Portobello eftir Paulo Coelho "snilldarverk", alveg kinnroðalaust.
Gat ég ekki á mér setið að setja inn litla athugasemd, sem virðist hafa espt upp í henni Katrínu mikinn móð, um allskyns skynjun og skilning fyrirbærum sem ekki eru á allra færi að nema.
Og Katrín spyr, í nýjustu færslu sinni um undarlegar upplifanir fólks, og varpar í leiðinni fram:
Eru takmörk fyrir því hvað mannveran getur skilið um sjálfa sig og er um við kannski miklu meira og stærra en við höldum?
Stóðst ég ekki að setja inn litla athugasemd við færsluna, sem ég endurbirti hér að neðan,
-og bæti um betur með nokkrum skemmtilegum hlekkjum í hinn bráðgóða þátt Penn og Teller, þar sem þeir taka fyrir nokkur tengd fyrirbæri.
Fúll á móti hérna aftur.
Frummenn áttu það til að halda að orð, og jafnvel bara hugsanir, byggju yfir einhverjum mætti; að með því að ákalla veiðiguðinn yrði fengsælt, og með því að óska einhverjum dauða væri hann feigur. Ef einhver fengi nafnið Sterki Björn yrði hann stæðilegur og þyrfti ekki að óttast nafna sinn úr dýraríkinu.
Við sjáum í börnum margt af einföldum hugsunarhætti forfeðra okkar, og þekkjast t.d. vel dæmi þess þegar börn, fá samviskubit þegar eitthvað slæmt gerist fyrir tilviljun vegna þess að þau "hugsuðu það" eða "óskuðu þess".
Vísindamenn hafa skrifað heilu bókaflokkana um þessa frumstæðu hegðun sem, þegar að er gáð, er uppspretta allra trúarbragða og siða sem við þurfum að lifa með í dag og eru allt frá því að vera heimskulegir til þess að vera skaðlegir.
Að fólk skuli halda að talan 13 sé verri en aðrar tölur, og talan 7 betri en flestar, eða að svartir kettir boði ógæfu eru t.d. birtingarmyndir þessarar ímyndunarveiki, sem án vafa hefur valdið ótöldum svörtum köttum, og fasteignasölum, ónauðsynlegum þjáningum.
Hér má skjóta því að að nýverið fjallaði Kastljósið alveg gagnrýnislaust um raupið í nýaldarkjána sem hélt því fram að hugsanir hefðu áhrif á okkur, og sýndi því til sönnunar myndir af vatnskristölum sem höfðu orðið fyrir hugsunum.
Það er til skammar að fréttaþáttur skuli fjalla með svona gagnrýnislausum hætti um slíka endemis vitleysu, en smá rannsóknarvinnahefði leitt í ljós að "tilraun" Masaru Emoto var algjört bull og vitleysa frá rótum.
-en trúgjarnar kerlingar hafa ekki fyrir því að lesa gagnrýnina, enda er óneitanlega gaman (og eflaust huggandi) að lifa í þeirri trú að heilinn í ekkert-sérstaklega-vel-gefinni húsmóður búi yfir einhverskonar undarlegum galdramætti.
Af sama meiði er svo sú trú að stöður himintungla hafi einhver áhrif á framvindu lífs okkar hér á jörðunni (við verðum fyrir álíka miklum kröftum frá þessum plánetum og við verðum fyrir af mýflugu sem sest á handarbak okkar á meðan þessi pistill er lesinn), eða að litríkir kristallar og steinar geti haft einhvern áhrifamátt þegar þeir komast í snertingu við okkur.
Verst er þó þegar fólk notar trúgirni annarra vitleysinga til að hafa af þeim fé, og jafnvel með því að bjóða þeim falslækningar við alvarlegum sjúkdómum. Mikill fjöldi fólks hefur miklar tekjur af því að heila, lesa í spil og spákúlur, búa til görug seyði og hvaðeina -allt saman hrein og klár vitleysa sem aldrei hefur getað staðist rannsókn.
Og þessa hegðun, og þennan frumstæða/einfalda hugsunarhátt, á ekki að umbera.Því þó það geti verið ósköp gaman að ímynda sér að drekaflugur eigi í samskiptum við okkur hin, og að afi og amma séu að tala til okkar huggandi orðum frá hinni hliðinni, og að stjörnurnar haldi yfir okkur verndarhendi og hvaðeina -þá er engum greiði gerður af því að lifa í blekkingu. Sér í lagi þegar blekkingin er síðan farin að kosta fólk fúlgur fjár í greiðslum til allskyns kukklara og lófalesara -fúlgur fjár sem væri betur varið í að leysa raunveruleg vandamál, uppræta hungur og lækna sjúkdóma.
Þessi trú á hverskonar galdralausnir og töfra og "alheimsorku" eða hvaða nafni svo sem það nefnist, er að tefja okkur í því mikilvæga starfi að skilja okkur sjálf og takast á við eigin vandamál með raunhæfum hætti.
Það getur vel verið að allt sé fullt af álfum og draugum og málglöðum drekaflugum í kringum okkur, og að heilinn sé mun merkilegri en við höldum. En það er ekkert mark takandi á fullyrðingum um slíka hluti sem ekki hefur tekist að færa á einhverjar vísindalegar sönnur. Það sem ekki er hægt að sanna, er líkast til lygi, ímyndun eða misskilningur -og breytir þá engu þó að heil hjörð af nýaldarkerlingum séu alveg ólmar í að trúa á spennandi galdra.
Eftir stendur að ég á hvað erfiðast með að trúa að nokkrum manni þyki bækur Paulo Coelho góð lesning
Og svo nokkrir góðir tenglar:
Penn og Teller um andlegar upplifanir við dauðans dyr
Penn og Teller um Dalai Lama
Penn og Teller um Móður Teresu
Penn og Teller um geimverur
Penn og Teller um umhverfishippa
Penn og Teller um andasæringar
Athugasemdir
Þó ég sé sammála þér efnislega, finnst mér óþarfi að móðga fólk og nota orð eins og "trúgjarnar kerlingar" og "ekkert sérstaklega-vel-gefnar húsmæður". Það er held ég líka skaðlausara að tala við drekaflugur heldur en ímyndaða guði og ésú kalla...svo lengi sem drekaflugurnar fara ekki að stjórna lífi, hugsunum og gerðum fólks á sama hátt og Jehóva og Múhammeð.
Annars eru Penn og Teller alltaf jafn góðir.
Róbert Björnsson, 30.8.2007 kl. 19:03
Kæri Róbert
Ég held einmitt ekki að það þurfi að fara með silkihönskum um þetta fólk, þetta lið, sem eltist við álfa og læknandi kristala og hvaðeina. Þetta fólk á það skilið að móðgast þegar vitleysan, og þeir sem henni trúa, eru nefnd sínu rétta nafni.
Ég skal svo senda Feministafélaginu 5.000 kr gjöf og afsökunarbeiðni fyrir fordómana þegar einhverjum tekst að sýna fram á að vitleysingarnir eru ekki, eins og ég held, upp til hópa "trúgjarnar kerlingar" og "ekkert-sérstaklega-vel-gefnar húsmæður"
Promotor Fidei, 30.8.2007 kl. 21:48
Og þessa hegðun, og þennan frumstæða/einfalda hugsunarhátt, á ekki að umbera......Hvað áttu við með þessu? Kannski bara að brenna "svona fólk" á báli eða???
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.8.2007 kl. 23:27
Það sem ég á við með þessu er að það þarf að taka til máls, og það tæpitungulaust, þegar trú á hverskonar fyrirbæri berst í tal.
Hvort sem það er trú á skeggjaðan guð á himnum, hjarðir af hreinum meyjum í himnaríki, eða trú á kómmúníkerandi flugur, drauga, spákonur og álfa.
Því svona endemis prímitív vitleysa, trú á allskyns anda og strauma og orku og hvaðeina leiðir fólk aðeins að falslausnum, blekkingu, ímyndun og óskhyggju, í stað þess að stuðla að því að við tökumst á við verkefni tilverunnar með raunhæfum og skynsömum hætti og finnum raunverulegar lausnir sem virkilega bæta líf okkar.
Verst er svo þegar óprúttnir aðilar nýta sér þessa frumstæðu tilhneyingu mannsins að trúa á ímyndaða hluti. Hvort sem það eru andamiðlarar sem nýta sér hryggð þeirra sem hafa misst ástvin sinn, eða prestar ..sem reyndar líka nýta sér hryggð þeirra sem hafa misst ástvin sín.
Heilarar, andalæknar, kortalesarar, kristalsölukerlingar, talnaspekingar, stjörnuspámenn, -og svo auðvitað delluverksmjiðan Paulo Coelho, sem er allt annað en góður rithöfundur.
Promotor Fidei, 31.8.2007 kl. 01:53
Nei, veistu Jónína, ég held við þurfum að vara okkur á því að umbera hindurvitni hverskonar sem skemmtilegt hobbý eða saklausa andlega upplifun.
Þessi hneigð er til þess fallin að byrgja okkur sýn, og oft á tíðum magnast upp í hegðun sem er blátt áfram skaðleg. Má nefna hverskonar galdralækningar í því sambandi, og jafnvel trúarbrögð. Mörgum nútímaíslendingnum finnst t.d. allt í lagi að vera "frístundakristinn", hefðar, eða siða vegna, eða vegna jákvæðra þátta í kristinni siðspeki. Á meðan lifir fólkið í hálfgerðri hálf-blekkingu, styður hálf-virkt eða óvirkt við valdastofnun sem veldur ómældum hörmungum um allan heim, og kemst á meðan engu nær því að horfa á viðfangsefni heimsins frá hinu gagnrýna sjónarhorni og kryfja til grunnar orsakir og afleiðingar hegðunar okkar og hugsana.
Hún Katrín, á meðan hún hélt að flugan væri að koma áleiðis skilaboðum til hennar, hafði t.d. ekki fyrir því að reyna að fræðast um hegðun drekaflugna á hausttíma, hún reyndi ekki að finna líffræðilegar ástæður fyrir hegðun flugunnar, hún reyndi ekki að öðlast skilning á þeim þáttum sem ráða fegurðarmati okkar og furðu, og valda því að það vekur hjá okur notaleg hughrif að sjá drekaflugu hegða sér með ákveðnum hætti á fallegum haustdegi.
-Henni fór ekkert fram vitsmunalega eða andlega, því það fyrsta sem hún greip til var yfirskilvitlega útskýring frummannsins.
Dæmið um hana Katrínu er auðvitað ekki til að fjargviðrast yfir í mörgum köflum, en ef hennar reynsla er margfölduð með þeim milljörðum manna sem byggja jörðina, er ljóst hversu mikið það er að kosta okkur, mannkynið, að ganga hverskonar trú og spiritúalisma á hönd.
Það sem einn kallar "hugljúfa hugsun", kalla ég glatað tækifæri. Það sem einn kallar skemmtilega þjóðlega álfatrú, eða stjörnuspálestur til afþreyingar kalla ég sóun á tíma sem annars hefði getað farið í að skilja hvað raunverulega stýrir hegðun okkar og upplifunum.
The Secret áróðurinn er auðvitað heilaþvottur af svæsnustu sort. Einmitt eins og þú lýsir nýaldarfroða og peningaplokk.
Það er hreinasta pína að horfa á myndbandið sem sett hefur verið saman um þessa dellu, þar sem sérlega karismatískir aðilar, sem titla sig "author", "philosopher", og jafnvel "metaphysician" og "visionary" (btw. sá sem titlaði sig Visionary titlaði sig líka phd, séra og ég veit ekki hvað -og var með rosalega dreads-lokka).
Orð vísindamanna plokkuð úr samhengi og púsluð saman, meira að segja komment í "vörumerki" eins og Chruchill. Feel good kjaftæði sem auðvitað fær ekki staðist vísindalega rýni og er þess vegna framreitt með smá mælskulist og gæsahúð.
En hrollurinn fer svo fyrst af stað fyrir alvöru þegar staðhæfingar um "lækningar" fljóta með, og orð eins og krabbamein fara á flug.
Þess vegna held ég Jóna, að það sé áríðandi að taka til máls gegn hverskonar hindurvitnatrú, og ekki umbera hana gagnrýnilaust í neinni mynd.
Það þarf að taka til máls umbúðalaust, og beina sérstaklega til trúgjörnu vitleysinganna sem taka með glöðu geði við sannfærandi feel-good peningaplokksboðskap. -og fara jafnvel að eyða peningum og sóa tíma í falslausnir til að finna lækningu eða farsæld.
Þetta virðist eflaust hálfgerður ofstopi, en hann jafnast ekki á við ofstopann í hina áttina. Það verður að taka skýra og sterka afstöðu gegn þessu bulli, því á meðan vitleysan fær að viðgangast (hvort sem hún er trú á kristala og mátt hugsana, eða trú á jehóva og félaga) erum við ýmist að standa í stað eða fara aftur, og jafnvel eru hópar fólks að líða miklar kvalir fyrir (hommar um allan heim, konur í arabalöndunum, HIV veikir afríkubúar osfrv)
Það mætti kenna þessa afstöðu mína við "antíþeisma", frekar en gallharðan krúttisma. Til skrauts vísa ég í erindi Sam Harris um trúmál í þessu sambandi, en hlekk í upptöku af mjög fræðandi tali Harris má finna í bloggrein minni frá júní sl. Þar fjallar hann m.a. um hversu það er í raun áríðandi að hætta að umbera trúrarbrögð
Promotor Fidei, 1.9.2007 kl. 21:53
Hmmmm...Ég er í raun sammála þér að trúarbrögðin séu ekki gæfuleg. Það að þú skulir lesa svona margt og mikið úr því að ég kjósi að sjá smá ævintýrir úr hegðun einnar drekaflugu...fær mig til að brosa. Ég sagði hvergi að hún hefði talað eða sagt eitt eða neitt..en þessi gjörningur að taka að sér skrælnað laufblað og fljúga með það upp í tré og tylla því þar á grein með lidandilaufblöðum fannst mér falleg sýn. Og las úr henni að kannski væri það á einhvern hátt táknrænt. Og hvað er að því að framkalla tilfinningu um að það geti verið eitthvað gott í þeirri sýn. Þú verður eiginlega að passa þig að verða ekki sjálfur eins og bókstafstrúarmennirnir sem þú ert svo á móti og gefa smá pláss fyrir tilfinningu og skynjun. Sem er bara mannlegt. Bara rétt eins og að upplifa t.d tónlist. Að fara ekki hamförum yfir að einhver upplifi tónlist á jákvæðan hátt þó hún sé ekki tónfræðilega rétt skrifuð. Og ég veit að það kemur þér eflaust á óvart..en meiri efasemdarmannskju en mig finnur þú varla....mín niðurstað hins vegar eftir margra ára skoðun og leit er sú að vísindin ein og sér svara ekki öllum spurningum og þar sem við erum stödd á því sviði í dag er hreint ekki fullnægjandi.
Lifðu heill!!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.9.2007 kl. 23:31
Kæra Katrín.
Leitt ef ég hef tekið þig í misgripum fyrir nýaldarbarn. Coelho-lesturinn og drekafluguævintýrið hafa verkað svona sterkt á mig.
Tilfinningar og skynjun eru ágætar, en nær alltaf er hægt að dýpka og bæta upplifanir okkar og skilning ef við reynum að skilja hlutina á vísindalegan máta frekar en grípa, eins og svo margir freistast til, yfirskilvitlegra útskýringa.
Og alls ekki gefast upp á vísindunum, þó þau svari ekki öllu strax. -ef þú ætlar að trúa á eitthvað í blindni, hafðu það þá vísindin og rökin!
Eg veit, ég verð á köflum annsi hreint ofstækisfullur í anti-theisma tautinu, en það veitir ekki af (til að vega upp á ofstækinu í öllum hinum, auðvitað!) Líka, eins og Sam Harris veitir rök fyrir í erindinu sem vísað er í hér að ofan, þá verður að taka róttæka afstöðu gegn hindurvitnum.
Megi skynsemin vera með ykkur öllum!
Promotor Fidei, 3.9.2007 kl. 01:11
Hmmm.ok gott og vel. Hvernig væri að við ynnum saman að því að finna út hvað er hvað??? Látum lönd og leið bara vísindalegar skýringar og bara hippalegar upplifanir?? Verð að segja að þrátt fyrir að hafa upplifað meira af skrítnum hlutum en flestir se ég þekki.þá hef ég eflaust verið mest á móti því að gefa þeim nýaldarskyringar. Sit einhvernveginn þarna mitt á milli. Með fullt af óútskýranlegum upplifunum og vísindalegum staðhæfingum sem pssa ekki. En er meira en viljug ti að skoða og skilgreina. En vil samt ekki um leið gefa frá mér svo margar merkilegar upplifanir sem framkalla endalausar spurningar sem vísindin hafa ekki endilega svör við. Kannski erum við á svipuðum nótum....ræðumst við áður en við förum í eitthvert stríð...verum opin að skoða og skilgreina hvers annars sjónarmið...þaðan getum við kannski komist að niðurstöðu sem þjónar framförum mannskyns sem mér finnst ég lesa í gegnum skrif þín að við getum verið sammála um að þurfi að gerast. Ég sé opin fyrir að skoða einlæglega þín sjónarmið og þú mín.
Kannski finnum við eitthvað mikilvægt þar???
Með vinarkveðju og von um skilning
Katrín
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.9.2007 kl. 01:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.