28.9.2007 | 12:57
40. Eru grunnskólarnir að bruðla með peningana okkar?
Frétt Mbl.is af meðalkostnaði á hvern nemanda í grunnskólum vekur upp ýmsar spurningar.
968.000 kr er engin smávegis upphæð, og þarft að spyrja hvað skattborgarar eru að fá fyrir peninginn. Á heimasíðu Hagstofunnar er ekki að finna neinar ítarupplýsingar í fljótu bragði, svo Hnoðri þarf að taka sig til við útreikningana:
Kennarar eru ekki með nein ofurlaun, en þó þarf aðeins sem jafngildir einu stöðugildi til að kenna heilum bekk. Þetta er auðvitað einfaldað dæmi, og róterast kennslufög milli kennara vitaskuld, en eftir situr að aðeins ein manneskja vakir yfir bekknum hverju sinni.
Ef við gefum okkur að 20 börn séu í bekk að jafnaði, og grunnskólakennari með 300.000 kr í mánaðarlaun ætti því mánuðurinn að kosta 15.000 kr á barn, og árið þá litlar 180.000 kr.
Vitaskuld bætist við húsakostnaður, einhver skrifstofukostnaður, en hann getur varla verið svo geigvænlegur, enda ganga grunnskólabörn ekki um með brotum og bramli og geta varla verið svo þung í vöfum skriffinskulega séð.
Svo er víst matur kominn í dæmið líka. [Of]áætlum að ein máltíð á dag kosti 300 kr úr vasa sveitarfélagsins -það gerir þá 60.000 kr á barn yfir 200 daga skólaár.
Hvar liggur þá kostnaðurinn? Hvað veldur því að sveitarfélögin eru að borga tæpa milljón á hvert barn, á meðan raunkostnaðurinn við meðal króa ætti ekki að vera nema í hæsta lagi 300-400 þús. kr.
Jú, vitaskuld eru einhver börn sem þurfa sérstaka aðstoð og úrræði, en það getur þó varla verið svo dýrt að það þrefaldi meðaltalskostnaðinn á börnin öll.
Þá vaknar líka sú spurning, hvort landanum væri ekki betur borgið ef skólarnir væru einkareknir. Það held ég að almenningur myndi aldeilis vilja fá úrvalsþjónustu fyrir sitt barn, sama hvað, ef borguð væru undir það skólagjöld milliliðalaust, upp á tæpa milljón árlega -og jafnvel þó skólagjöldin væru helmingi minni en það.
Er nokkuð svo vel séð um börnin í því kerfi sem sveitarfélögin borga með skattpeningum okkar? Eru ofvirk börn, lesblind og önnur sem eiga í erfiðleikum að fá þjónustu í samræmi við það sem borgað er? Og það sem meira er: eru úrvalsbörnin, þau sem bera af námslega, að fá að njóta sín til fullnustu í metnaðarfullu skólaumhverfi?
Væri kannski peningunum okkar, sem teknir eru úr launaumslaginu af misvitrum pólítíkusum, betur varið hjá okkur sjálfum? Væri hagsmunum barnanna okkar ekki betur borgið ef við fengjum að verja peningunum eftir eigin höfði á samkeppnismarkaði, á þeim stað þar sem við fáum mest fyrir peninginn?
Grunnskólanemendur kosta milljón á ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.