41. Málsfrelsi, námsfrelsi og mæri heims

Orð menntamálaráðherra eru ansi harkaleg, ef rétt er eftir henni haft í grein Mbl.is:

"Íslenzkan er það tungumál sem á að vera númer eitt alls staðar og af því verður enginn afsláttur gefinn meðan ég er menntamálaráðherra."

Eins og menntamálaráðherra eigi nokkuð að vera að skipta sér af því hvaða tungumál fólk kýs að tala, og á hvaða máli það kýs að læra.

 

Ísland er lítið sker upp á 300 þús. hræður, og er afkomu okkar best borgið með því að læra sem flest tungumál sem best, og hafa þannig sem greiðastan aðgang að mörkuðum og þekkingu erlendis frá.

Því lokaðri sem við erum, menningar-, efnahags- og mállega, því meira förum við á mis við.

Veitir ekki af að skerpa á málþekkingunni, því til að standast samkeppni þurfum við að tala mál viðskiptanna fölskvalaust. Þá er gott að hafa eignast víðtækan orðaforða á þeim hugtökum sem þarf að nota í faginu, eins og nemendur við verslunarskólann myndu fá á ensku námsbrautinni.

 

Þessir nemendur munu líka standa betur að vígi en þeir annars myndu gera, ef þeir skella sér í háskólanám erlendis. Þeir standa einnig betur að vígi við lestur á námsbókunum við íslensku háskólanna, sem eru að stærstum hluta á ensku.

Þeir standa ekki hvað síst betur að vígi í íslenskunni, því það að tala önnur tungumál vel styrkir aðeins og dýpkar skilning okkar á móðurmálinu. Tungumálin eru nefnilega ekki eins og fótboltalið, í keppni um að bola hvort öðru úr fyrsta sæti: tungumál tengjast, vaxa hvert úr öðru og fléttast saman.

Hverju tungumáli fylgir líka hugarheimur og hugtök, skilningur á samskiptum og siðum, sem við förum á mis við ef við ekki tölum málið.

Það má kannski líkja þessu við, að það má spila sömu melódíuna á píanó og fiðlu -en hún hljómar ekki eins þrátt fyrir það. (Og enginn spilar verr á píanó þó hann læri að leika líka vel á fiðluna)

 

Eða svo ég vitni í margtugginn Wittgenstein: "The limits of my language mean the limits of my world"

(Þessi tilvitnun hefur verið þýdd "Mæri máls, mæri heims" -sem þó hefur einhvernvegin ekki sama slagkraft, enda ekki það sama að segja hlutina á ensku og íslensku, rétt eins og "Deyr fé, deyja frændur" missir allan vind á ensku).

 

...Alltént. ef eitthvað er að marka Wittgenstein vill menntamálaráðherra að heimur framhaldsskólanema á landinu nái ekki út fyrir dalinn þar sem þeir fæddust.

Ef ég væri í hennar starfi myndi ég gera í því  að láta kenna fög á ensku við framhaldsskólana, því æska þess lands á að fá þá menntun sem gerir henni kleift að sigra heiminn.

 


mbl.is Verzló vill fá enska námsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Já, þetta þykir mér alveg ótrúlegt. Það er ekki eins og verið sé að tala um að skylda einn né neinn til að læra á ensku, heldur yrði þetta námsbraut sem yrði val hvers og eins. En nei, menntamálaráðherra telur það vera sitt hlutverk að ákveða að slíkt eigi ekki að vera á boðstólnum. Framhaldsskólanemendur skulu nema sitt nám á íslensku, og ekkert múður.

Þetta minnir mig skemmtilegt nokk óneitanlega á þegar Eggert Þorleifsson lék Mörð Árnason í áramótaskaupinu, þar sem grín var gert að því að Mörður setti sig upp á móti því að Júróvijónlagið yrði sungið á ensku:

"Lagið verður á íslensku. ÍSLENSKUUU!"

Þarfagreinir, 7.10.2007 kl. 15:35

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Oh I say...jolly good argument, sir!  

Ég sé ekki að góð færni í öðru tungumáli ógni íslenskunni, þvert á móti eins og þú bendir á. 

Ensku-kunnátta íslendinga er vægast sagt ofmetin í dag...menntaskóla-enskan er svona álíka góð og menntaskóla-danskan!  Það er rétt svo að fólk bjargi sér á veitingahúsi. 

Næsta skref hjá menntamála- og Rúv ráðherra er kannski að döbba alla erlenda sjónvarpsdagskrá á íslensku?

Róbert Björnsson, 7.10.2007 kl. 19:30

3 identicon

> Ísland er lítið sker upp á 300 þús. hræður, og er afkomu okkar best

> borgið með því að læra sem flest tungumál sem best

sammála, en það tungumál sem forgang á að hafa á þeim lista er íslenskan. einmitt vegna þess að ísland er lítið sker með merkilega litla þjóð og arfagamla þjóðtungu þarf að gæta málsins vel. ég vorkenni ekki skólum sem þiggja opinbert fé fyrir að vera skikkaðir til að kenna á opinberri þjóðtungu íslendinga.

ég sé heldur ekki hvaða vanda er verið að leysa. ég get ómögulega séð að enskukunnátta landans sé það takmörkuð að það dragi úr krafti útrásarinna. ég held að flöskuhálsinn liggi annars staðar. ég er sjálfur í háskólanámi erlendis (í kanalandi). mellufærni í ensku og dönsku máli er jú þegar skilyrði fyrir inngöngu í háskólann.

kannski er verið að koma til móts við útlenska nemendur, en satt best að segja held ég að þeim sem enginn greiði gerður með því að fresta upptöku þeirra á íslensku. ég kann illa við tilhugsunina um að kljúfa þessa litlu þjóð í tvo tungumálaheima.

> Eins og menntamálaráðherra eigi nokkuð að vera að skipta sér af því

> hvaða tungumál fólk kýs að tala, og á hvaða máli það kýs að læra.

(!)

það er jú mál menntamálaráðherra að viðhalda gæðum menntaskólanáms á íslandi, og hún heldur eftir allt saman utan um budduna.

> "Eða svo ég vitni í margtugginn Wittgenstein: "The limits of my language > mean the limits of my world" "

þarna vitnar þú í margtuggna _enska_ _þýðingu_ á orðum wittgenstein, eða hvað? flest verk sín ritaði wittgenstein á þýsku eða latínu held ég, þótt hann hafi verið menntaður í englandi. en hvort sem það er tilfellið eður ei, þá satt best að segja finnst mér íslenska þýðingin kjarnyrtari og flott.

en hvort sem á ensku íslensku þýsku eða latínu... ég skil ekki alveg hvernig þú skilur þessa tilvitnun. heldur þú að wittgenstein hafi meint að því fleiri tungumál sem þú talar því stærri er heimurinn? ég skil hann öðruvísi. það sem kemst fyrir í þínum heimi er það sem þú kemur orðum að -á einhverju máli, óháð hverju máli það er.

ég held að það séu allar líkur á að wittgenstein væri í þessu tilfelli menntamálaráðherra sammála. þú útvíkkar ekki veröldina þína með því að tala tvö mál illa. ég skil orð wittgensteins þannig að maður þurfi gott vald á móðurmálinu.

en ég tek það fram að ég hef ekki sérstakar áhyggjur af afkomu íslenskunnar. hún hefur þegar staðið svo margt af sér og hún er enn alveg ótrúlega flott og öflug til tjáningar.

mbk

--

óskar

óskar holm (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 03:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband