50. Skerið er að sökkva -yfirlit

Það er hérumbil súrrealískt að fylgjast með framvindunni á Íslandi þessa dagana. Það er eins og ekki sé hægt að taka eina rétta ákvörðun, og við hvert fótmál séu óféti að reyna að hagnast á óförum annarra.

1. Almannatryggingakerfið, sem við borgum fyrir með himinháum sköttum, er orðið eintómt plat, sem festir fólk í fátækragildru.

2. Matvöruverslanirnar stunda rótskitin vinnubrögð til að hækka matvöruverðið í laumi, blekkja neytendur og bola burtu samkeppni.

3. Pólitískt skipuð stjórn Orkuveitunnar færir nokkrum auðmönnum og flokksgæðingum sérfræðiþekkingu fyrirtækisins á silfurfati, og þegar borgin, eigandi Orkuveitunnar (sem valið hefur menn í stjórnina) ætlar að fá ákvörðunina ómerkta fyrir dómstólum fara flokksgæðingarnir í stjórninni í hart.

4. Nokkrir dónamyndaframleiðendur ætla að halda saklausa viðskiptaráðstefnu og allt logar í mótmælum svo á endanum er brotið á réttindum hópsins til ferða og starfa. Síðar halda hérna fund svakalegir vopnaframleiðendur, sem búa til drápstól sem bana hjörðum af fólki árlega -og ekki fer eitt einasta mótmælaskilti á loft.

5. Þingmenn láta sér detta í hug að banna opinberum starfsmönnum á vinnuferðum erlendis að gista á hótelum þar sem hægt er að kaupa aðgang að dónarás. -Og setja um leið stranga siðferðislöggjöf um alla hegðun opinberra starfsmanna utan landssteinanna. Er ekki í lagi með fólk?

6. Ljótir fúakumbaldar við afskræmt aðaltorg borgarinnar fuðra loksins upp, og stjórnmálamenn láta sér detta í hug að viðra þá hugmynd á almannafæri að endurbyggja hroðann í þeirri mynd sem hann var fyrir.

7. Illa unnar æsifréttir af barnaníðingum berast æ ofan í æ, og hysterískur lýðurinn hrópar á hengingu og pyntingar í hvert sinn. En enginn gefur því gaum að sálfræðimeðferð kynferðisbrotamanna er engin í íslenska refsikerfinu, og heldur engin raunhæf úrræði í gangi til að stöðva vanstillta menn í sporunum áður en þeir brjóta af sér -og þeir munu brjóta af sér.

8. Þegar borgin lætur loka  helstu sumbl-athvörfum ógæfumanna, svo þeir neyðast til að vera meira á rápi um borgina, lætur borgarstjóri sér detta í hug að lausnin sé að fjarlægja bjórkæli úr verslun ÁTVR. Og fólk má heldur ekki drekka lengur á almannafæri áfengar veigar, á þessum fáu veðragóðu sumarnóttum, því það er víst kolólöglegt.

9. Keypt er ofur-stórt sjónvarp fyrir sem svarar andvirði lúxusbíls, á kostnað skattgreiðenda, til að setja upp í einhverjum vatnsveituskálanum uppi á hálendi -til kynningar. Á sama tíma er stillt upp ljóskastara sem kostar góðan part úr íbúðarverði, til að snobba fyrir illa þokkaðri ekkju listamanns sem fyrir löngu er dauður -og allt auðvitað á kostnað skattborgara.

10. Kynferðisbrotakafla hegningarlaga er breytt svo lítið beri á, svo að ef 17 ára unglingur sængar hjá 14 ára unglingi er sá eldri, og hugsanlega sá yngri líka, búinn að fremja glæp og getur ekki fengið lægri refsingu en 1 ár í fangelsi fyrir verknaðinn.

...og svona má halda áfram endalaust.

Það er ljóst að á Íslandi er allt bókstaflega að fara til andskotans. -Og við eigum ekkert betra skilið, því engum getum við kennt um nema okkur sjálfum.


mbl.is Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband