14.12.2007 | 17:33
60. Góð við dýrin
Á ágætu bloggi sínu fjallar hinn áhugaverði kapítalisti Laissez-Faire um skynjun dýra og réttmæti pyntinga á þeim.
Setti ég þessa athugasemd við færslu hans:
Að því ég best fæ skilið lukkaðist vísindamönnunum að fjarlæga lyktarskyn músarinnar, eða alltént gera hana ónæma fyrir ákveðinni tegund lyktar, svo lyktin af rándýri vakti ekki hjá henni óttaviðbrögð.
Mér þykir full-langsótt að draga af þessu þá ályktun að dýr séu ekki meðvitaðar verur.
LF nefnir fjögur skilyrði fyrir því að lífvera teljist meðvituð: i) gera sér grein fyrir að hún er á lífi ii) gera sér grein fyrir að hún hafi verið á lífi iii) óttast dauðann iv) gera sér grein fyrir endanleika dauðans.
Það held ég að mörg okkar dagsdaglega skiljum ekki til fullnustu "tilveru tilveru okkar", og endanleika dauðans (Annars myndum við ekki horfa á "Tekinn" og spila Bubbles á leikjanet.is). Börn, á fyrstu þroskaskeiðum, gera sér litla grein fyrir eigin tilveru og dauðleika. Sumt fólk, sökum vanlíðunar eða andlegrar uppljómunar af einhverjum toga óttast ekki dauðann.
-Með röksemdafærslu LF mætti því leiða af þessu að pyntingar væru leyfilegar á sumu fólki, allt frá ungabörnum til strangtrúaðra sem halda að þeirra bíði framhaldslíf.
Hvort það var Smith, sem fjallaði um illa meðferð á dýrum. Hann benti á [að umræðu um meðvitund slepptri], að mörg dýr sýna mannlega eiginleika: væntumþykju, ótta, tryggð, vináttu, samúð, ást og hatur. Í útliti sýna þau einnig mannlega þætti, og hafa t.d. fræðimenn bent á að hrifning okkar af hvolpum, og kettlingum, og öllu sem er búttað og með stór augu skýrist m.a. af því að slík dýr deila útlitseinkennum og hlutföllum með ungabörnum -sem heilbrigðu fólki á víst að vera líffræðilega innrætt að vernda og hrífast af.
Alltént, vildi Smith meina að ill meðferð við dýr, sem sýnir þessi mannlegu einkenni, sé undanfari illrar meðferðar við mannfólk. Sá sem keyrir múlasnann sinn áfram með priki, er aðeins einu skrefi frá að berja börnin sín með sama prikinu.
Og flestu andlega heilbrigðu fólki þykir væntanlega rangt að sýna öðrum manneskjum illa meðferð.
Ég er hins vegar ekki á þeirri skoðun að banna eigi prófanir á dýrum, en slíkar prófanir verða að vera háðar mjög ströngum skilyrðum um framkvæmd og þörf. Dýr á ekki að þurfa að þjást nema mjög mikilvægir hagsmunir séu í húfi, og ekki séu aðrar leiðir færar. Á þá að gæta þess mjög vandlega að dýrið þjáist sem minnst og styst.
Mikið er um óþarfar prófanir á dýrum, og oft eru framleiðendur lyfja og snyrtivara að spara sér tíma og pening með einföldum og ódýrum dýratilraunum, þegar hægt væri að rannsaka öryggi vöru með öðrum hætti en kostnaðarsamari.
Fyrir mitt leyti þætti mér gott að öll vara sem ég kaupi sé vottuð um hvort, og þá með hvaða hætti dýr voru notuð við prófun vörunnar. Þannig gæti ég tekið upplýsta ákvörðun um t.d. hvaða lyf og snyrtivörur ég kaupi. og þannig beint fjármunum mínum frekar til þeirra sem stunda mannúðlega framleiðslu og rannsóknir.
Varðandi handtökur og dóma fyrir illa meðferð á dýrum: ég held að þar væri við hæfi að leggja meiri áherslu á geðræna meðferð. Það hafa rannsóknir sýnt að ill meðferð við dýr er oftar en ekki merki um andlega örðugleika. Frægt er að margir, ef ekki allir, trylltustu raðmorðingjar sögunnar voru duglegir að pinta og drepa dýr í barnæsku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.