18.12.2007 | 18:59
62. Helstu ástæður fyrir því að það er ömurlegt að búa á Íslandi
Í tilefni þess að dýrast er að búa á Íslandi:
1. Á Íslandi eru veður vitlaus, rok, kuldi, myrkur, og vosbúð mestallt árið. Þökk sé hnattrænni hlýnun má eiga von á stuttbuxnaveðri svona 2-3 daga á sumri, og lenda þeir alveg örugglega á virkum degi.
-Í öðrum löndum eru veður mild og blíð, sól og birta, og rétt yfir bláveturinn að væsi um rétt nóg til að ná í trefilinn úr skápnum
2. Á Íslandi eru skattar, tollar og gjöld svimandi há. Ríkið leggur 100% ofan á bíla, bensín, og flest það sem telst til lífsins lystisemda.
-Í öðrum löndum eru skattar lægri. Meðaltekjumaður getur hæglega keypt sér nýjan kagga og notið lífsins lystisemda dagsdaglega.
3. Þrátt fyrir svimandi háa skatta og opinber gjöld eru biðlistar í heilbrigðiskerfinu, fátækt í félagslega kerfinu, öryrkjar og aldraðir lifa upp til hópa eins og aumingjar.
-Í öðrum löndum er skattpeningunum þó varið í að byggja upp skilvirka heilbrigðisþjónustu og boðlega aðstoð við aldraða og öryrkja. Frakkland, Kanada, Danmörk, Noregur, Svíþjóð -virðast öll gera þetta mikið betur en við.
4. Skólabörnin læra minna en nokkru sinni í skólunum, og væntanlega leitun að grunnskólum í hinum siðaða heimi þar sem fólk fær minna fyrir peninginn.
-Í öðrum löndum er agi í skólum, og börnin læra. Og það kostar ekki formúgu.
5. Matur, vín og veitingastaðir eru svo dýr, að það er ekki nema á tyllidögum að maður bregður sér út að borða. Það þykir flottræfilsháttur á Íslandi að drekka kók í gleri. Þökk sé innflutningshömlum eru osta- og sælkerabúðir með álíka gott úrval og léleg sjoppa í úthverfi Mílanó.
-Í öðrum löndum fer venjulegt fjölskyldufólk út að borða oft í mánuði. Börnin læra matarmenningu og borðsiði. Hráskinkur, úrvalsostar, eðalvín og hnossgæti eru partur af daglegu mataræði.
6. Fasteignaverðið er orðið slíkt á höfuðborgarsvæðinu að venjulegt fólk hefur ekki efni á öðru en að kaupa sína fyrstu íbúð á Stokkseyri. Leigumarkaðurinn keppir við verðlagið í miðbæ New York og Lundúna.
-Í öðrum löndum er fasteignaverð jarðbundið, og leigumarkaðurinn aðgengilegur og normalt verðlagður.
7. Allar byggðir á Íslandi eru ljótar og niðurdrepandi, og því ljótari sem meira hefur verið byggt. Ljótast er auðvitað höfuðborgarsvæðið, það sem telja mætti virkilega fagurfræðilega gleðjandi byggingar og götumyndir á fingrum annarrar handar.
-Í öðrum borgum eru falleg hús, heillandi götumyndir og nærandi manngert umhverfi.
8. Á Íslandi býr lítið fólk, hentikristnir móralistar, feminískar undirlægjur, hagkaupsbæklinga úthverfapakk, sem hlustar á Zúúber, flykkist í hjörðum í verslunarmiðstöðvarnar í alveg hreint hamslausu og stefnulausu eyðslufylleríi. Þegar klámframleiðendur vilja halda smá viðskiptafund verður allt vitlaust og mannréttindi brotin á saklausu fólki, en þegar harðsvíraðir vopnaframleiðendur þinga hérna heyrist ekki píp.
Þetta lið vinnur 55 klukkustundir á viku og um helgar fer blessað fólkið svo niður í bæ, dópar sig upp og tuskast, ælir og mígur, og hefur svona álíka mikla sivilisasjón á næturlífs- og vínmenningunni og forhertustu togarasjómenn í Múrmannsk.
-Í öðrum löndum hefur fólk réttar áherslur í lífinu, og kann að lifa því.
9. Og öllum virðist vera sama. Því Ísland á að vera svo frábært og yndislegt. Húrra fyrir ári kartöflunnar og Reykjavik Energy Invest!
Dýrast að búa á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég vil þig í framboð, loksins einstaklingur með viti og ég meina það.
Snildar lestur ! Allt nákvæmlega eins og þetta er hérna.
nei (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 21:52
Ahahahaha.......þetta er algjört snilld og auðvita hvert orð satt hehe
Hjördís Ásta, 19.12.2007 kl. 02:00
Gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.12.2007 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.