68. Hið opinbera rýrir lífsgæði okkar um 50-70%

Hnoðri dundaði sér í dag við að reikna hvað skattheimta hins opinbera er að kosta hinn venjulega launamann.

Þetta er það sem gerist þegar maður sofnar út frá Milton Friedman myndböndum á Youtube.

Hér að neðan er einfölduð samantekt, og eru viðkvæmir varaðir við enda lesningin svakaleg en engu að síður dagsönn.

 

Skattar á einstaklinga og fyrirtæki

Jón vinnur 160 klst í mánuði og er með 300.000 kr í laun fyrir skatt.

Ríkið tekur, þegar upp er staðið, 25% af laununum hans, og nokkur prósent fara í lífeyrissjóðina og orlof, svo hann fær um 212.000 kr útborgað, sem vill svo heppilega til að er ákkúrat sú upphæð sem hann þarf til að lifa af mánuðinn.

Ef ríkið tæki ekki af laununum hans, gæti hann unnið uþb 47 færri vinnustundir í mánuði. Það má hvort heldur sem er líta svo á að hann gæti tekið sér frí sex virka daga í mánuði, eða að hann sé að vinna fyrir ríkið rösklega eina viku hvers mánaðar.

 

Vinnuveitandinn borgar til ríkisins ýmis launatengd gjöld, sem nema að jafnaði um 20% ofan á launin. Vinnuveitandinn þarf einnig að borga tekjuskatt af hagnaði fyrirtækisins, miðum vði 18%, sem er tekjuskattur hlutafélaga (en ekki 26% semer tekjuskattur sameignarfélaga).

Gerum ráð fyrir að launatengd gjöld séu 60% af veltu, og hagnaður 10% af veltu. Ef ríkið tæki ekki þessi gjöld af atvinnuveitandanum gæti hann borgað starfsmanninum amk 360.000 kr í mánaðarlaun, og líklega farið upp í 370.000 kr en átt samt jafn mikinn hagnað eftir fyrir sjálfan sig af rekstrinum í lok mánaðarins.

Í því tilviki, til að fá 212.000 kr útborgaðar, til að lifa út mánuðinn, myndi launþeginn Jón ekki þurfa að vinna nema rétt rúmlega 91 klst á mánuði. Hann gæti því, ef ríkið léti reksturinn allan í friði, tekið sér frí næstum 9 vinnudaga í mánuði, eða næstum því tvær vinnuvikur, en haldið sömu lífsgæðum.

 

Það má líka líta svo á að ef ríkið léti alveg vera að skattleggja fyrirtækið og starfsmanninn, væri launþeginn að fá 370.000 útborgað í stað 212.000 kr. Það er raunlaunahækkun upp á 74,5%, sem getur ekki talist amalegt.

 

 

Skattar og gjöld á vörur

En gefum okkur að landsmenn hafi ekki gæfu til að kjósa yfir sig ráðamenn sem lækka skatta á launum og fyrirtækjum. Þá er kannski einhver von á að vöruskattar verði lækkaðir

Jón er eftir sem áður með 212.000 kr útborgað fyrir 160 klst vinnu, eða hérumbil 1.325 kr fyrir hverja klukkustund.

 

Nú ætlar Jón að kaupa sér erlendan ost, 500gr, sem kostar frá framleiðanda í Bandaríkjunum 200kr. Út úr búð þarf Jón að borga fyrir ostinn 567kr. Þar af eru 314kr að fara til ríkisins.

Jón þarf því að vinna fyrir ostinum 26 mínútur, en ekki 9 mínútur. 14 mínútur af þeim tíma sem Jón þarf að púla fyrir ostinum fara til ríkisins.

 

Jóni svíður undan hvað hann er skattpíndur, og ákveður að drekkja sorgum sínum. Hann kaupir sér vodkaflösku sem frá framleiðanda kostar 300kr, en kostar hjá ÁTVR 4.185 kr. Þar af fara 3875 kr beint til hins opinbera.

Jón er um 3:10 klst að vinna fyrir flöskunni, en ef ríkið léti vera að leggja álögur og skatta á sopann tæki það Jón ekki nema 13 mínútur að vinna fyrir sömu flösku.

 

Jón kaupir sér ágætan bíl, með 2,5 lítra vél. Frá framleiðanda í Bandaríkjunum kostar bíllinn 1.500.000 kr, en hjá bílaumboðinu í Reykjavík þarf Jón að borga 3.120.000 kr fyrir bílinn. -Ríkið fær þar af 1.140.000 kr. Jón þar að vinna sem svarar 15 mánuðum til að eiga fyrir bílnum. Ef ríkið léti hann í friði tæki það ekki nema 9 mánuði að vinna fyrir bílnum. Hann gæti því haldið sömu lífsgæðum, en tekið sér 6 mánaða frí til að aka um holt og hæðir á nýja kagganum, ef ríkið léti hann í friði.

 

Svo þarf Jón að kaupa bensín á bílinn. Þannig vill til að heimsmarkaðsverð á olíu er 50kr lítrinn, en á bensínstöðinni þarf Jón að borga 116 kr. Þar af fara 64 kr til ríkisins. Í stað þess að vera 20 mínútur að borga fyrir 10 bensínlítra, þarf Jón að strita í vinnunni í um 50 mínútur fyrir bensíninu.

 

Samanlögð áhrif skatta og gjalda á laun og vörur

Svo gerist það einn daginn, fyrir kraftaverk, að landsmenn fá nóg og átta sig á að þeir geta ráðstafað peningum sínum mun betur en hið opinbera. Alvöru frelsisflokkur kemst til valda og fellir niður skatta og gjöld.

Þá tekur Jón aldeilis gleði sína, því hann getur tekið sér tæplega 6 mánaða frí á hverju ári, og haldið sömu lífsgæðum.

 

Hann getur einnig litið svo á að hann er nú:

Tæpar 6 mínútur að vinna fyrir uppáhalds ostinum sínum, en ekki 26 mínútur eins og áður

Um 13 mínutur að vinna fyrir 10 lítrum af bensíni, en ekki 50 mínútur eins og áður

Tæpar 9 mínútur að vinna fyrir vodkapelanum, en ekki, 3:10 klst eins og áður.

Rétt rúmlega 5 mánuði að vinna fyrir draumabílnum, en ekki 15 mánuði eins og áður.

 

 

Í hnotskurn: álögur hins opinbera skerða lífsgæði okkar um í kringum 50-70%.

 

 

P.S:

Til að gera þessa hryllingssögu enn skelfilegri má ég til með að taka fram að ég tek ekki með í reikninginn erfðafjárskatt, skemmtanaskatt, skipulagsgjald, stimpilgjald, fasteignaskatt, gatnagerðargjöld, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, fjármagnstekjuskatt og ýmsar aðrar álögur.

Ég læt líka vera að reikna út barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta-kerfið. Bótakerfið er flókið og óaðgengilegt, enda tengt eignum, tekjum, fjölskyldugerð og fjölda barna, heill frumskógur. Gaman er þó að geta þess að hann Jón hérna að ofan, borgar af launum sínum á einum mánuði (beint, og líka óbeint gegnum vinnuveitanda) upphæð sem samsvarar uþb hámarksupphæð vaxtabóta fyrir einstakling á ári.

 

Svo læt ég líka vera að taka saman allar þær vinnu- og frístundir sem fara í að henda reiður á skattareglunum. Skatta- og bótakerfið er svo margflókið, að það tók mig drjúgan part úr degi að setja saman þetta litla skjal.

 

P.P.S.

Þetta eru allt alvöru tölur, og peningarnir sem ríkið tekur af okkur eru alvöru peningar, jafnvel þó þeir birtist okkur dagsdaglega bara sem tölur á kvittun eða launaseðli.

Í guðs bænum kjósið þetta af ykkur í næstu kosningum. Þvílík endemis skerðing á lífsgæðum sem þetta er.

 

P.P.P.S

Hvað er ríkið svo að láta okkur fá í staðinn fyrir það sem við borgum?

Ef við hefðum 75% meira útborgað í lok mánaðarins, hefðum við þá ekki efni á að borga fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu, laus við biðlista? (Eða er betra að þurfa að bíða mánuði og ár eftir aðgerð og sjúkrarúmi?)

Hefðum við ekki efni á að senda börnin í vandaða skóla þar sem þau fengu metnaðarfulla menntun? (Eða er betra að senda börnin í ríkis-skóla þar sem lægsti samnefnari er upphafinn, úrvalsbörn eru útundan og börn með vandamál vanrækt?)

Hefðum við ekki efni á að spara og fjárfesta eftir eigin höfði, til að eiga eitthvað til mögru daganna? (Eða er betra að láta peningana fara í band-bruðlandi lífeyrrissjóði sem við fáum ekki einusinni að velja sjálf?)

Hefðum við ekki svo mikið á milli handanna að við gætum rétt þeim ættingjum okkar og vinum hjálparhönd sem ekki geta séð um sig sjálfir? (Eða er þessu fólki betur borgið flækt í fátæktar- og niðurlægingargildru gallaðs bótakerfis?)

Kæri lesandi. Þínu fé er best borgið hjá þér sjálfum. Þú veist miklu betur en Ingibjörg, Geir, Steingrímur og Guðni hvað er þér fyrir bestu.

 

(Því miður get ég ekki hengt við skjöl og töflur yfir útreikningana, þar sem þau geta verið persónurekjanleg á þann sem samdi. Höfundi hnoðrabloggs þykir gott að vera nafnlaus. Útreikningarnir eiga samt allir að stemma, meira eða minna.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Skúlason

Hvaða flokk eigum við svo að kjósa til að ná þessu fram? Ég minnist þess ekki að nokkur flokkanna hafi verið með afnám skatta á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar.

Ef borgararnir fengju þennan pening í vasann sem ríkið tekur til sín núna, myndu þeir ekkert græða á því, öll fyrirtæki landsins myndu sjá sér leik á borði og hækka verðskrá sína sem nemur skattalækkuninni. Borgarinn (pun intended) myndi því eftir einhvern tíma borga sömu upphæð og hann gerði áður, nema hvað þeir færu í vasa eigenda fyrirtækjanna, en ekki til ríkisins. Hjá ríkinu fær borgarinn þó eitthvað af peningunum til baka í formi heilbrigðisþjónustu, löggæslu, og vegakerfis o.fl. Ég sé ekki fyrir mér að fyrirtækin myndu gera slíkt, nema þá í mjög litlum mæli.

Ingvar Skúlason, 10.1.2008 kl. 14:04

2 Smámynd: Promotor Fidei

Það er rétt hjá Ingvari að því miður er enginn einasti flokkur á íslandi sem býður kjósendum upp á þann valkost að kjósa skattalækkanir og minnkuð ríkisafskipti. 

Raunar vilja flestir flokkarnir hækka skatta, og þar með auka það fjármagn sem þeirra pólítíkusar hafa úr að spila. Þeir vilja í senn auka eigin völd, og hafa vit fyrir kjósendum.

Það eru samt blikur á lofti. Kannski sjáum við nýtt framboð fyrir næstu kosningar sem býður kjósendum einfaldan og einlægan valkost: lægri skatta og minni ríkisafskipti.

Kæri Ingvar. Fyrst þú ert svona svartsýnn á að skattalækkanir skili sér í vasa borgaranna, eigum við þá ekki einfaldlega að hækka skatta upp í 100% og koma alveg í veg fyrir að nokkur geti sætt færis? Er ekki ríkinu best treystandi til að ráðstafa öllum okkar peningum? Skattar hljóta að vera alltof lágir núna, og fyrirtækin hljóta að vera að taka eitthvað til sín nú þegar -er það ekki?

En annars búa fyrirtæki og launamenn þessa lands ekki í tómarúmi. Gefum okkur að skattar yrðu felldir niður, þá sækja fyrirtæki auðvitað færis, og hækka hjá sér álagninguna. Launafólk sætir líka færis, og biður um launahækkanir.

Þeir sem ekki hækka laun starfsmanna sinna missa hæfasta starfsfólkið til þeirra fyrirtækja sem bjóða hækkuð laun. Þeir sem hækka álagninguna missa viðskipti til þeirra sem ekki hækka álagninguna.

Þeir sem hækka álagninguna sína svo langt umfram raunkostnað af rekstrinum að þeir okra, þeir skapa tækifæri fyrir aðra til að koma inn á markaðinn, gera betur, og laða til sín alla viðskiptavini, og græða á tá og fingri.

Þetta eru einföld lögmál hagfræðinnar, að kaupendur og seljendur deila með sér kostnaðinum af sköttum og ávinningum af skattalækkunum. Skattar gera ekki annað en að skekkja náttúrulegt samband framboðs og eftirspurnar, og draga úr lífsgæðum. -og skattar færa auðvitað peninga og völd til stjórnmálamanna.

Blessunarlega lætur hið opinbera okkur fá eitthvað í staðinn fyrir peningana. Hins vegar fer ríkið ekkert alltof vel með peninginn, og þjónustan sem veitt er nýtur ekki aðhalds heilbrigðrar samkeppni. Það er staðreynd að einstaklingurinn fer best með eigin peninga, og ráðstafar þeim þangað sem hann fær mest fyrir skildinginn.

Svo bætist auðvitað við að ríkið hefur búið til flókinn vef útreikninga og frádráttarliða sem valda því að í meira eða minna öllu félagslega og almannatryggingakerfinu er venjulegum manni ókleift að þekkja réttindi sín og nýta sér þau til hins ýtrasta. Að auki eru þeir sem á annað borð skrapa botnin í samfélaginu fastir í aumingja- og fátæktargildru, því um leið og þeir reyna að vinna handtak tekur ríkið af þeim skatta og bætur.

Til gamans reiknaði ég í hvaða stöðu hann Jón okkar væri í, ef hann fengi í eigin vasa allan launakostnað atvinnuveitandans hans, ca  370.000 kr, og legði til hliðar með fjárfestingum eða sparnaði það sem áður var hlutur ríkisins, ca 158.000 kr á mánuði, og ávaxtaði verðtryggt með 4% á ári.

Hann ætti þá um 187 milljónir eftir 40 ára starfsævi. Áætlum nú mjög ríflega að Jón gangi í skóla í 20 ár, og skólagjöldin hvert ár séu ein milljón. Gerum líka ráð fyrir að sjúkrakostnaður hans sé tíu milljónir yfir ævina, sem ég myndi ætla að sé mjög, mjög ríflega áætlað og dugi fyrir tafarlausri heilsugæslu af bestu gerð við öllum kvillum.

Jón ætti þá eftir um 157 milljónir, sem verður að kallast ágætis lífeyrir við starfslok.

Þá tek ég ekki með í reikninginn ef ríkið hættir að innheimta virðisaukaskatt og tolla, og áhrif þess á kaupmátt Jóns. 212.000 kr á mánuði myndu duga honum Jóni á bilinu 10-30% betur í hagkerfi án skatta. Ég tek ekki heldur með í reikninginn að af þessum 212.000 kr sínum leggi Jón eitthvað fyrir eða fjárfesti, t.d. í húseign. Sú eign/sparnaður/fjárfesting bætist við 157 milljónirnar hér að ofan, þegar tekið er saman það sem Jón hefur úr að spila á ævikvöldinu.

Og haldið þið ekki að Jón gæti, með þessar fúlgur fjár, hjálpað vinum sínum og ættingjum í nauð? Hann gæti borgað áfengismeðferð fyrir rónann hann frænda sinn, og gæti splæst á liðskiptiaðgerð fyrir mömmu gömlu. Hann gæti gefið ríflega til þeirra góðgerðarfélaga sem standa honum næst, hvort sem það væri kattavinafélagið eða mæðrastyrksnefnd. Ef húsið myndi brenna ofan af nágranna hans væri Jón aflögufær um milljónir, en ekki þúsundkalla.

Promotor Fidei, 10.1.2008 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband