26.1.2008 | 08:12
71. Hafa hrossin það svo gott?
Ég stórefast um að "hrossin hafi það ágætt úti", eins og segir í frétt á mbl.is
Þau lifa þetta af, og það þarf ekki að hafa mikið fyrir þeim, en ég held það hljóti að vera ömurlegt fyrir dýrin að hýrast úti í kulda, slyddu og byl dag og nótt frá hausti fram á vor.
Það er sjálfsagt að hestabændur séu skikkaðir til að bjóða hestunum í það minnsta upp á einhverskonar skýli og að þeir hafi nánar gætur á að bæði sé nóg að éta og dýrin í góðu ásigkomulagi.
Ef þeir geta ekki séð um hestana á að koma þeim til annarra eiganda, sem eru til þess hæfir.
Ill meðferð dýra í íslenskum landbúnaði er annars eitthvað sem má gera að umtalsefni. Dýravinafélagið hefur m.a. vakið á því athygli að loftgæði í sumum fjárhúsum jaðra við eitrunarmörk enda safnast þar saman metan og allskyns óþverri í lokuðu og litlu rými. Það er heldur varla nein sæluvist fyrir dýr að þurfa að hanga á örlitlum bás, oft í kraðaki, allan liðlangan veturinn, með saursletturnar upp eftir öllu, sýkingar og sár.
Svo ég tali ekki um kýrnar sem eru hafðar í hálfgerðum gapastokk lungað úr árinu. Ég ætla ekki einu sinni að byrja á kjúklingabúunum og eggjaverksmiðjunum.
Það þarf oft merkilega lítið til, jafnvel ekki annað en viljann, til að gera miklu betur við dýrin.
Í öðrum tilvikum þarf smáframkvæmdir og lágmarkstilkostnað, en oftar en ekki skilar það sér í betri vöru, færri slysum, minni afföllum á skepnum og minni skemmdum á kjöti.
Sem neytandi myndi ég vilja geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort ég nota krónurnar mínar til að styðja landbúnað þar sem farið er illa með dýr, eða landbúnað þar sem er farið vel með dýrin. Glaður myndi ég borga mikið dýrara verð fyrir afurð af dýri sem ég get vitað með vissu að átti notalega ævi í góðu yfirlæti, og var fellt á streitu- og sársaukalausan máta.
Kannski bændur og verslunarkeðjur geti farið að sjá hag sinn í mannúðlegum landbúnaði þegar neytendur eru farnir að bjóða vel fyrir framtakið. Kannski þeir komi sér upp úttektarapparati og byrji að stimpla með mannúðar-gæðastimpli þá vöru sem á það skilið.
Þá er ekki spurning hvað ég mun kaupa.
Hart í ári hjá hrossunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.