78. Einföld leið til að hækka laun um 20%: losum okkur við ASÍ og félaga

Mikið er nú fjarskagott að til skuli vera samtök sem taka ákvörðun fyrir launafólk um á hvaða verði það megi bjóða krafta sína á vinnumarkaði. Mikið er fjarskagott að þessi sömu samtök fá lögum samkvæmt að tína til sín skerf af laununum okkar, bæði í félagsgjöld og í lífeyrissjóði sem fara með peningana á þennan eða hinn veginn.

Eða hitt þó heldur.

 

Af launum okkar eru atvinnurekendur látnir borga, svo lítið ber á, á bilinu 1-1,4% launa okkar í ýmsa sjóði stéttarfélaganna, s.s. starfsmenntasjóði, fjölskyldu- og styrktarsjóði.

Þeir sem reynt hafa vita hversu lítið er síðan hægt að sækja í þessa sjóði þegar á reynir, og þarf yfirleitt að draga peningana með töngum úr verkalýðsfélögunum.

 

Af launum okkar þurfa atvinnurekendur, t.d. í tilviki starfsmanns í LSR, að borga að auki tryggingagjald (5,34%), lífeyrisframlag (11,50%), tryggingagjald af lífeyrisframlagi (5,34%), og oft líka mótframlag í séreignarsjóð og tryggingagjald af sérframlagi (20,97%).

Það er til marks um hversu mikið við fáum að njóta þessara peninga, að flestir launþegar gera sér enga grein fyrir þessum greiðslum, né vita til hverra þær rata. (Tryggingagjaldið fer til ríkisins, sýnist mér, en allt hitt til lífeyrissjóðanna í skjóli lagaverndar).

 

Þá eru ótalin þau gjöld sem við þurfum sjálf að borga til lífeyrissjóðanna og stéttarfélögunum af þeim hluta launanna sem við sjáum á launaseðlinum.

Lífeyrissjóður verslunarmanna tekur 4% af laununum okkar, og verkalýðsfélögin taka á bilinu 1-0,7% til viðbótar.

Svo er svo sniðugt, kerfið hjá þeim, að maður fær ekki að njóta neinna, eða mjög skertra réttinda úr þessum samtryggingarsjóðum þeirra, nema maður uppfylli allskyns skilyrði og hafi borgað svo og svo mikið svo og svo lengi.

Peningunum okkar er síðan breytt í "punkta", svo það sé alveg öruggt að enginn geti skilið almennilega hvað hann er að fá lítið til baka fyrir það sem hann leggur til sjóðsins.

 

Einstaklingur með 300.000 kr í grunnlaun í núverandi umhverfi boða og banna ríkisins um stéttarfélags- og lífeyrissjóðsgjöld myndi, ef verkalýðsfélögin væru tekin úr myndinni, hafa um 285.000 kr til ráðstöfunar hvern mánuð, en ekki 221.000 eins og nú er.

Já, þú lest rétt -stéttarfélögin eru að taka til sín eitthvað í kringum 63.000 kr af launum einstaklings með 300.000 kr í grunnlaun, reiknað í fljótheitum.

Að ég tali ekki um ef hið opinbera tæki ekki til sín tekjuskatt og útsvar. Þá væri 300.000kr gaurinn okkar allt í einu með ekki minna en 348.000 kr til ráðstöfunar.

 

Þessi sami einstaklingur gæti þá varið peningum sínum þar sem hentar hans hagsmunum best. Það gæti borgað sig miklu meira fyrir hann að t.d. borga niður dýrar skuldir, frekar en leggja fyrir.

Það gæti borgað sig meira fyrir hann að eyða peningunum í að kaupa hús, til að hætta að spreða í húsaleigu, eða það gæti borgað sig fyrir hann að leggja fyrir fyrir meira námi til að auka verðmæti sitt á markaði. 

Hann gæti kosið að velja fjárfestingarsjóð sem hann treysti betur en stjórnlausum og gerspilltum sjóðum lífeyrissjóðanna til að skila ávöxtun sem er meira en rétt yfir verðbólgu, og það á sama tíma og markaðurinn er að ávaxta sig margfalt.

-En ríkið og stéttarfélögin eru búin að taka af borgaranum þetta frelsi. Þau eru sjálf búin að ákveða, úr miklum fjarska, nákvæmlega hvað hentar okkur öllum best.

 

Svo ég minnist ekki á hvað það hefði heilbrigð áhrif á markaðinn að eðlileg lögmál framboðs og eftirspurnar réðu launaupphæðum. Í núverandi kerfi neyðast atvinnuveitendur til að fylgja kröfum um lágmarkslaun -sem þýðir að vinnuveitandi getur þurft að borga starfsmanni meiri laun en vinnuframlag hans er virði. Í slíku kerfi gerist það einfaldlega að þeir sem ekki eru nægilega verðmætir starfsmenn fá ekki vinnu, enda gefur auga leið að fyrirtæki tapar á því að hafa þá á launum.

Launastjórnanir af þessu tagi skekkja líka allan markaðinn, og leiða til þess að verðmætari starfsmenn eru að fá hlutfallslega minna fyrir framlag sitt en minna verðmætir starfsmenn. 

-Launakúrvan er skekkt og ónáttúruleg. Það síðan letur fólk til að auka verðmæti sitt í starfi og á endanum dregur allan markaðinn niður.

 

Ég ætla svo ekki að byrja að tala um sumarhúsareksturinn hjá stéttarfélögunum, og hvaða áhrif hann hefur á eðlilega þróun gistimarkaðar. Það er alveg óborganlegt hvernig stéttarfélögin eru búin að taka þá ákvörðun fyrir verkalýðinn að það sé miklu sniðugra fyrir hann að eiga inni afsláttarleigu í sumarbústað einhversstaðar úti á landi, en t.d. nota sama pening fyrir huggulegri menningarferð til Lundúna eða Parísar.

 

Stéttarfélögin myndu gera launþegum mestan greiða með því að leggja sjálf sig niður. Fólk á sjálft að geta ráðið peningum sínum og launum. Ef það er eitthvað sem stéttarfélögin mega gera, þá er það að reka lítinn kontór, taka í mesta lagi til sín 0,1% af launum og nota peninginn til að gera launakannanir, eða öllu heldur kaupa launakannanir af þeim sem býður best í verkið. Launakannanir eru nefnilega bráðsniðugt tæki sem stórbætir stöðu starfsmannsins þegar hann semur um kaup og kjör.


mbl.is Orlof lengt í 30 daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Er ekki líklegra að 300 þúsund króna maðurinn væri enn með 150 þúsund krónur í laun ef ekkert unionið hefði barist fyrir hærri tekjum og réttindum fyrir hann?

Burt með corporate fasisma! 

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsins brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag -
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

Þó að framtíð sé falin,
grípum geirinn í hönd
Því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð;
nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum, því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt

Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd,
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd

Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, - þiggjum ekki af náð!
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð

Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd,
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd

Róbert Björnsson, 14.2.2008 kl. 17:39

2 Smámynd: Promotor Fidei

Eitt sinn var tími fyrir stéttarfélög, rétt eins og eitt sinn var tími fyrir ríkisvirkjanir og ríkisskóla.

Nú er gangverk samfélagsins hins vegar orðið þroskaðra, og nægilega þroskað til að geta fúnkerað eðlilega án stjórnunar ofanfrá.

Í slíku umhverfi er ofanstjórnun í raun til þess að hefta hagvöxt og skerða lífsgæði borgaranna, jafnt þeirra lægstu, sem þeirra í miðjunni og á toppnum.

Promotor Fidei, 14.2.2008 kl. 17:51

3 identicon

300 þús???? Er ekki verið að tala um full háar tölur núna. Það er stjarnfræðileg tala fyrir ansi marga þótt þeir reyni að vinna alla aukavinnu sem þeir geta fengið, ríkið þarf jú sitt.

Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 18:18

4 Smámynd: Promotor Fidei

Sigríður:

300.000 kr, er ekki stjarnfræðileg tala. Ég hef það fyrir satt að í betri húsgagnaverslunum séu sölumenn, lausir við öll stúdents- og háskólapróf, að fá eitthvað í nágrenni við 300.000 kr í laun fyrir mánuðinn -að vísu fyrir ansi langa vinnuviku.

Þessi tala væri enn meira innan seilingar þeirra allralægst launuðu, ef þeir fengu tækifæri til að njóta þeirra aukastunda sem þeir leggja á sig að vinna -í stað þess að glata næstum helmingnum til ríkis, borgar og stéttarfélaga.

Promotor Fidei, 14.2.2008 kl. 19:25

5 identicon

Nú er gangverk samfélagsins hins vegar orðið þroskaðra, og nægilega þroskað til að geta fúnkerað eðlilega án stjórnunar ofanfrá.

Er það þessvegna sem verktakafyrirtæki eru enn að reyna að svindla  á erlendum verkamönnum og greiða þeim undir lágmarkskjörum? 

Rún (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 20:12

6 Smámynd: Promotor Fidei

Rún:

Ef verkamenn eru fáanlegir til að vinna á launum undir lágmarkstöxtum, þá er það hið besta mál. Þeir vita best sjálfir hvað þeir eru tilbúnir að selja vinnu sína á. Markaðinum er miklu betur treystandi til að ákvarða rétt virði vinnuframlags þeirra, heldur en einhverjum kleinuétandi kontóristum hjá stéttarfélögunum.

Ef þeir eru að fá undirgreiðslu fyrir vinnuna sína hljóta þeir að geta fundið annan vinnuveitanda sem borgar þeim betur fyrir vinnuna, enda nýtur hann enn hagnaðar af framlagi þeirra til framleiðslunnar.

Verktakadramað er þó m.a. komið til vegna þess að útlendingar hafa ekki nema takmarkað frelsi til starfa á íslenskum markaði, enda er atvinnuleyfi verkamannanna eign fyrirtækisins -ekki vinnumannsins. Verkamaður sem kemur hingað til lands gæti, þegar hann sér að hann fær miklu lægri laun en hann gæti fengið, farið til annars fyrirtækis sem sækist eftir kröftum hans og borgar betur -ef atvinnuleyfið væri í hans nafni.

Vandi þessara manna myndi því leysast af sjálfu sér, ef þeir byggju við frelsi. Þeir eru hins vegar, þökk sé ríkinu og raunar kröfum stéttarfélaganna sjálfra um að erlent vinnuafl sé vottað og með leyfi og stimpla í bak og fyrir, bundnir á höndum og fótum.

Það eru, eins og svo oft, verkalýðsfélögin sem verka hamlandi á það að eðlilegt gangverk frjáls markaðar fái að hámarka hamingju okkar allra.

Promotor Fidei, 14.2.2008 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband