17.2.2008 | 20:15
80. Svo mörg skref í ranga átt
Hvar á maður að byrja á tillögum ríkisstjórnarinnar?
1.
Í stað þess að hækka persónuafslátt og hækka barnabætur og húsaleigubætur hefði verið gáfulegra að hreinlega afnema bótakerfið og snarlækka skattprósentu á launum.
Afsláttarkerfið verkar í raun til þess að markaðurinn stillir sig þannig af að þeir lægstu launuðu hafa litla sem enga möguleika á að auka tekjur sínar með aukinni vinnu. Ríkið er búið að ákveða, ofanfrá, hvar mörkin eru dregin við "eðlileg laun", og klípur síðan um helminginn af hverri vinnustund umfram "eðlilega vinnuviku".
Bótakerfið skekkir aðeins verð á fasteignamarkaði enn frekar (bæði kaupmarkaðinn og leigumarkaðinn) og hvetur til óhagkvæmra ákvarðana um barneignir.
Með lágri flatri skattprósentu hefur fólk frelsið til að auka tekjur sínar ef það þarf þess, það fær að njóta ávaxta erfiðis síns, og ráðstafa tekjum sínum og fjárfestingum eins og hagsmunum þeirra hentar best, á markaði sem einkennist af eðlilegu samhengi framboðs og eftirspurnar, og þar af leiðandi eðlilegri verðmyndun.
2.
Lækkun á tollum og vörugjöldum, og lækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 18 í 15% -gott mál, en ganga þarf miklu lengra. Burt með alla tolla og hömlur -það á ekki að stýra neyslu okkar ofanfrá, enda vitum við betur hvað er okkur fyrir bestu en nokkur ráðuneytisnefnd. Það á ekki heldur að vernda óhagkvæman rekstur, s.s. eins og fær að viðgangast í landbúnaði -allir tapa á slíku dútli, og mest þeir sem taka við styrkjunum.
Burt með tollana, svo við getum öll, og þó ekki síst þeir sem minnst hafa, notið ódýrra og góðra matvæla úr öllum heimshornum.
3.
Niðurfelling stimpilgjalda við fyrstu íbúðakaup, og húsnæðissparnaðarkerfi: Stimpilgjöld eru auðvitað bara skattur, og raunar alveg út úr kú. Enginn ætti að þurfa að borga stimpilgjöld, nema ef vera skyldi afgreiðslugjald upp á nokkur hundruð krónur til að ganga frá skráningum í opinber skjalasöfn.
Það er skítalykt af húsnæðissparnaðarkerfi. Allt slíkt verkar í raun bara til að skekkja markaðinn enn frekar, og þegar maður pælir í því, þá verður slíkt kerfi -lagt saman við stimpilgjaldafslátt af fyrstu íbúðakaupum- líklega til þess að ungt fólk hefur óeðlilegan hvata til að kaupa sér fyrstu íbúð sem er mun dýrari en þau hafa í raun efni á.
4.
Atvinnuleysisbætur hækka til samræmis við lægstu laun, hækkun á bótum almannatrygginga: afætujól. Það á að afnema félagslega bótakerfið, um leið og við afnemum alla skatta. Fólk hefur þá meira en nóg aflögu til að rétta ættingjum sínum og vinum hjálparhönd í erfiðleikum (í núverandi kerfi erum við svo niðurnjörvuð af sköttum að við erum algjörlega háð fátæktargildru bótakerfisins).
5.
Áfallatrygging: nýr skattur, sem nefndir, stýrihópar og ráð munu örugglega ná að nota á óendanlega óhagkvæman og flókinn máta.
6.
Menntunarmarkmið: aftur, hið opinbera á ekkert með að skipta sér af því hvernig fólk telur sér best borgið á markaði. Sumir þurfa ekki stúdentspróf eða iðnmenntun til að geta fúnkerað fínt á vinnumarkaði. Ríkið á heldur ekkert með að vera að eyða peningum í símenntun og fullorðinsfræðslu -markaðurinn getur séð um slíkt sjálfur, og gætir þá hagkvæmni.
Einstaklingurinn er best hæfur sjálfur til að vita hvort borgar sig fyrir hann eða ekki að mennta sig, og þá hvar og hvernig og hvenær. Ef hið opinbera hætti að skattpína okkur í bak og fyrir þá hefðum við meira aukreitis til að borga þessa menntun okkar sjálf, og myndum líka njóta jafnóðum ávinningsins af þeirri framleiðniaukningu sem hlýst af menntuninni (eða gjalda fyrir það ef við bárum ekki vit til að velja okkur nám sem gerði okkur eftirsóknarverðari og afkastameiri á markaði).
Sumsé, fjöldamörg skrefi tekin í átt að meiri ofanstjórnun. Það kerfi styrkt í sessi sem verkar letjandi á fólk að auka framleiðni og taka sjálft ákvarðanir um eigin velferð. Möguleikar fólks á að hjálpa sér og sínum sjálft gerðir að engu, og allir orðnir háðir því að betla velferðarþjónustu af ríkinu.
Æ, þessir kjánar í ríkisstjórn...
Æ, þessir kjánar sem kjósa svona yfir sig...
Stöðugleiki meginmarkmiðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.