4.9.2008 | 10:38
90. Fáránlega dýr og ósniðugur samgöngumáti: upptalning
Þó sporvagnar séu kallaðir "léttlestar" verða þeir ekkert ódýrari í kaupum eða léttari í rekstri. Um einstaklega dýran og óhagkvæman almenningssamgöngumáta er að ræða og með ólíkindum að stjórnmálamenn skuli trekk í trekk fara í "kynningarferðir" til Evrópu að skoða lestarkerfi og borga "sérfræðingum" milljónir á milljónir ofan til að gera úttekt á samgöngumáta sem sést óravegu frá að er út í hött.
1. Lestarnar eru dýrar. Það kostar ekkert smávegis að leggja járnbrautarteina og rafmagnskapla fyrir hverja leið og vagnarnir sjálfir kosta ekkert smáræði. Ef teinarnir eru lagðir ofan í akbrautir veldur það töfum, en ef teinarnir eru lagðir á sér landsvæði, t.d. meðfram vegum, er verið að nota upp dýrt landrými.
2. Kerfið er ósveigjanlegt. Nógu illa hefur gengið að gera gott strætóleiðakerfi í Reykjavík og á hverju ári sjá stjórnendur Strætó til að bæta við og fjarlægja nýjar leiðir. Ef breyta á lestakerfi þarf að leggja nýjar brautir og rafmagnskapla -lestarnar geta ekki notað það vegakerfi sem fyrir er eins og strætisvagnarnir gera. Ef lestarteinarnir eru lagðir ofan í akbrautir, þá þýðir það að bilaður vagn verður líka í veginum fyrir almennri umferð.
3. Kerfið er viðkvæmt. Ef einn vagn bilar, þá er öll leiðin stopp, enda geta sem á eftir fylgja ekki tekið fram úr vagni sem er fastur á teinunum. Alls óvíst er hvernig svona lestarkerfi á að geta gengið í íslensku slabbi og hálku, og roki. Við bætist að borgin er ekki flöt og væri eflaust spennandi að sjá hvernig vagnarnir eiga að geta komist upp brekku í góðri hálku og fannfergi -Hvers konar almenningssamgöngur eru það sem verða lamaðar nokkra daga eða vikur á ári vegna veðurs.
4. Vagnarnir fara hægt yfir. Það er deginum ljósara að sporvagnar komast ekki jafnhratt af stað né geta farið jafnhratt yfir og strætisvagnar. Nógu langan tíma tekur það að komast á milli bæjarhluta í Reykjavík þó ekki sé farið hægar!
Strætisvagnar eru kannski ekki jafnrómantískir. Sporvagnar minna jú á þroskaðar miðevrópuborgir, þar sem veður eru góð og verðlag manneskjulegt. En Sporvagnakerfi eða lestarkerfi í nokkurri mynd dugar engan veginn sem almenningssamgöngukerfi í Reykjavík. Kerfið er of dýrt, of ósveigjanlegt, og vagnarnir fara hægt yfir.
Þeir stjórnmálamenn sem halda áfram að hamra á þessum hugmyndum eru annaðhvort eða bæði vitlausir, fjárhagslega óábyrgir eða blindaðir af miðevrópu borgarrómantík sem á ekkert erindi við Reykjavík.
Þessa stjórnmálamenn á að púa niður.
Svo þarf varla að taka fram að það yrði "geðveikislega" dýrt að leggja einhvers konar lest út í Keflavík. Ef lestin ætti að hafa endastöð í RVK einhvers staðar annars staðar en Mjódd, þá þyrfti að leggjast í mikla gangnaframkvæmd til að leiða lestina niður í miðborg. Þar þyrfti að reisa mikla lestarstöð. Lestarnar væru að fara hálftómar milli borgar og flugvallar -þetta yrði ekkert sambærilegt við London og Heathrow. Keflvíkingar sjálfir myndu ekki nota lestina enda er mest hagræði af því að fara í bæinn á bíl og hafa þá samgöngutæki innanbæjar (það er jú ekki hægt að nota almenningssamgöngurnar í borginni).
Sporvagnar í borg og flugvallarlest myndu kosta tugi, ef ekki hundruðir milljarða og gagnast nánast engum. Reiknaði ekki einhver vitringurinn um daginn að miðað við núverandi notkun væri verið að borga tugi þúsunda með hverjum lestarfarþega?
Nýjar forsendur fyrir léttlestum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er sammála sérhverju orði sem hér stendur í færslu þinni, Hnoðri. Nógu fáir taka nú strætó á milli staða. Mér er það eiginlega hálfgerð raun að sjá hálftóma, skröltandi strætisvagna á götum borgarinnar í þessari borg einkabílsins. Hvers vegna ætti að þurfa að leggja í aukakostnað sem hlaupið getur á milljörðum í það að leggja teina og annað sem til þarf? Þú tínir til mörg góð rök máli þínu til stuðnings sem ættu að fá borgaryfirvöld til þess að hugsa sinn gang. Mun nær yrði að leggja þessa peninga í að bæta aðstæður gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna með því að leggja fleiri stíga og undirgöng á milli hverfa hér í borg og á milli nágrannasveitarfélaganna, í góðri sátt við þau, og ekki síst meðfram stofnbrautum. Það yrði, að ég hygg, langódýrasta lausnin. Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.
Þorgils Hlynur Þorbergsson (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 12:02
Og þar að auki væri mun nær að nota þessa fjármuni í það að tvöfalda akreinar þjóðveganna út á land — og það sem fyrst, líkt og gert hefur verið á leiðinni til Reykjanesbæjar og bæta þar með umferðaröryggið. Það er svo margt brýnt sem þarf að gera í samgöngumálum. En eins og efnahagsástandið er núna og íslenskar aðstæður yfirleitt, eins og þú lýsir svo vel og réttilega, finnst mér lestakerfi ekki sérlega fýsilegur kostur. Það er svo margt annað sem þarf að gera hér á landi, svo að landsmönnum líði sem best og mér finnst hugmyndin um „létt“lestakerfi alls ekki tímabær. Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.
Þorgils Hlynur Þorbergsson (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 12:12
Hvað með að hita upp vegina í borginni og breyta lögum þannig að allir með bílpróf geti ekið 125cc vespum eða mótorhjólum? Auðvitað rándýrt en gæti samt verið sniðug hugmynd, eða hvað?
Allir með bílpróf gætu ekið um á hjóli sem eyðir litlu en kemst þokkalega hratt og þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur af hálku um veturinn.
Daníel Kristjáns (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 15:14
Það er nákvæmlega ekkert mál að leggja braut á jafnsléttu á milli Mjóddarinnar og Kvosarinnar.
Hefðir þú einhverntímann ferðast út fyrir þína þröngu sveit, þá sæir þú að lestarsamgöngur eru þægilegustu og hagkvæmustu samgöngur sem til eru á fjölförnum leiðum hvort sem er i dreifbýli eða í þéttbýli.
Elías Halldór Ágústsson, 5.9.2008 kl. 09:05
Mikið hef ég ferðast út fyrir mína sveit og veit þess vegna mætavel hvað lestarsamgöngur eru óhagkvæmar. Sjáðu t.d. ástandið sem verður á götum St. Pétursborgar þegar sporvagn eða rafmagns-knúinn strætó bilar.
Miklu hagkvæmari eru samgöngur sem geta nýtt það vegakerfi sem fyrir er og tekið breytingum eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni.
Aðeins er möguleiki á að lestarsamgöngur geti orðið hagkvæmur kostur þar sem fjöldi farþega er mjög mikill, þ.e. þegar um er að ræða samgöngur milli milljónaborga og landa eða milli bæjarhluta í milljónaborgum.
Ég skal éta hattinn minn ef einhver getur bent á dæmi um 300.000 manna samfélag eða 150.000 manna borg þar sem farið hefur verið út í að koma upp einhvers konar lestarkerfi til almenningssamgangna og það þótt takast vel.
Því má svo bæta við að sennilegt má telja að innan 10-20 ára verði einkabíllinn að mestu orðinn sjálfvirkur. Þá munu almenningssamgöngu-farartækin hverfa og við taka tölvustýrðir smávagnar sem koma okkur hratt og ódýrt milli staða og notast við það vegakerfi sem fyrir er. Þá verða hvers konar lestarsamgöngur alveg pottþétt með öllu úreltar og ónothæfar.
Promotor Fidei, 9.9.2008 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.