Færsluflokkur: Bloggar

10. Hvaða lögmál gilda í samgöngum milli vestnorrænu-landanna?

Hnoðra hafa lengi þótt undarlegar samgöngurnar milli Íslands, Grænlands og Færeyja.

Heilu hjarðirnar af vestnorrænum-nefndum halda ráðstefnur og fundi trekk í trekk ár með það göfuga markmið að leiðarljósi að stuðla að bættum samskiptum landanna.

Yfirleitt eru lausnirnar hjá þessum nefndum að styrkja stöku grunnskólabekki til að fara í námsferð, borga flugfar undir stöku listamann eða þjóðháttafræðing í vinnuleyfi og síðan auðvitað senda heilu hjarðirnar af bæjarstjórnarfulltrúum til að spássera um Færeysk tún og Grænlensk kofaþorp og halda áfram leitinni að töfralausninni á auknum vestnorrænum samskiptum.

Hinn almenni borgari, hins  vegar, virðist alltaf eiga jafnerfitt með að heimsækja frændurna á nágrannaeyjunum og þarf ekki að leita lengra en á verðlista flugfélaganna til að sjá hvers vegna.

Það virðist eitthvað skrítið í gangi með samgöngur á milli landanna þriggja. Þvílíkt og endemis verð. Fyrir nokkrum árum eignaðist Hnoðri grænlenskan aðdáanda gegnum netið. Það varð hins vegar ekkert úr aðalfundi aðdáendafélagsins þegar í ljós kom að það var álíka dýrt að fljúga spölinn frá Reykjavík til Kulusuk og það að fljúga frá Heathrow til Hong Kong.

Einhversstaðar heyrði ég því fleygt að ástæðan sé skortur á markaðsfrelsi í flugi milli landanna. Allskyns leyfi og undanþágur þurfi til að mega fljúga milli vestnorrænna áfangastaða.

Og eflaust haldast í hendur flughátt verð og skortur á farþegum, svo verðið helst uppi í himinhæðum.

Eins og með svo margar leiðir í innanlandsflugi grunar mig að vélarnar milli Íslands, Grænlands og Færeyja séu aðallega fullar af opinberum starfsmönnum á leið á nefndarfundi.

Engin af samnorrænu nefndunum hefur látið sér detta í hug, á öllum fundunum, hvort að tímabundnar niðurgreiðslur á fargjöldum kippi kanski í liðinn markaðinum, og kannski í leiðinni fella niður allar hömlur og leyfisveitingar á flugferðum milli landanna.

 

Í tilefni af fréttum um Nuuk-flug Flugfélags Íslands leit Hnoðri á verðin. Flug til kulsuk næstu daga virðist ekki kosta minna en 25-30 þús. kr aðra leið, en ef bókað er flug í ágúst er verðið töluvert geðslegra, 3.300 - 6.500 - 7.500 - 8.900 - 11.200 kr eftir því í hvaða verðflokki er laust. (Ég leyfi mér að halda að aðeins örfá sæti séu seld á þessum lágu verðum).

Vegalengdin frá Reykjavík til Kulusuk er 734 km.

Á sama tíma kostar flug frá Reykjavík til Akureyrar næstu dagana 8.900 til 11.300 kr.  aðra leið, og fer niður í 3.300 - 6.500 þegar bókað er flug í sumarlok.

Milli Reykjavíkur og Akureyrar eru ekki nema 247 km í beinni loftlínu.

Þvínæst var heimsótt síða flugfélagsins OasisHongkong.com. 16. júní eiga þeir flug frá Gatwick til Hong Kong fyrir 30.000 kr aðra leið. Þegar leitað er lengra út árið er verðið komið undir 10.000 kr aðra leið.

Vegalengdin frá Lundúnum til Hong Kong er 9740 km

 

Af þessu má draga þá ályktun að nefndir um aukin samskipti Hong Kong og Lundúna séu að standa sig töluvert betur en Vestnorrænu nefndirnar.


mbl.is Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug til Nuuk á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9. Góður dómur. Misvitrir Moggabloggarar

Eins og alltaf gerist þegar Mbl.is flytur fréttir af nauðgunarmálum streyma inn athugasemdir frá refsiþyrstum Moggabloggurunum sem sjaldan eða aldrei hafa fyrir því að kynna sér málin áður en þeir byrja að gaspra.

Reyndar var fréttin fyrst birt hálfskrifuð, en síðar bætt við upplýsingum um rökstuðning dómsins og lýsingu á málsatvikum. Þá munar vefratvísum ekki um að fara á heimasíðu héraðsdóms Reykjavíkur og lesa dóminn ítarlega áður en þeir kveða sjálfir upp úrskurð um sekt eða sakleysi.

Kemur í ljós að framburður stúlkunnar var á óljós og á reiki, framburður strákanna fjögurra, sem sjálfir voru á aldrinum 15 til 17 ára, sér samkvæmur og skýr. Er hreinlega of margt við þetta mál sem bendir til að ekki hafi verið um nauðgun að ræða, stúlkan hafi m.a. hafst við í íbúðinni morguninn eftir, og farið með einum ákærðra í verslun.

Hún virðist sjálfviljug hafa neytt áfengis og fíkniefna í veislunni, og undir áhrifum þeirra sóst eftir kynlífi hjá unglingspiltunum sem sjálfir eru svo ungir að ekki er hægt að ætlast til af þeim að þeir bregðist öðruvísi við en að þiggja boðið, enda sjálfir ölvaðir og undir áhrifum efna.

Hitt er svo annað mál að þessi upplifun hefur örugglega fengið á stúlkuna, og ekki skrítið. En hún var ekki beitt ranglæti, heldur gerði sjálf þau mistök að sænga hjá stráknum. Ég yrði sjálfur á allstórum bömmer eftir að hafa gert svona lagað í áfengis- og pillumóki, og væri vís til að vilja kenna öðrum en sjálfum mér um.

En alltént, moggabloggararnir skeyta ekki um málavöxtu. Þeir sem grunaðir erum um nauðgun virðast ekki eiga að njóta neinna réttinda eða vafa.

Nógu svakalegt hlutskipti er það þó í dómhörðu siðapostula dvergsamfélagi eins og Íslandi að vera sakaður um nauðgun, jafnvel þó að dómstólar lýsi á endanum yfir sýknu.

Og gömlu tuggurnar eru endurteknar: karlarnir alltaf að kúga konurnar, karlægt réttarkerfi og karlægur reynsluheimur gefur út veiðileyfi á saklausar ungar stúlkur og svo framvegis.

Síðan reynist dómurinn, sem er vandaður og ítarlegur, kveðinn upp af tveimur konum og einum karli.

Þeir sem þykja sýknudómar í nauðgunarmálum fullalgengir ættu ekki að skamma réttarkerfið eða lagasetningarvaldið. Dómsheimildir í nauðgunarmálum eru þegar meira en nógu víðar til að knýja fram sekt. Víðari heimildir myndu aðeins skerða mannréttindi sakaðra manna. Það gersit vitaskuld að sekir menn sleppa við refsingu eins og kerfið er nú, en það er betra að leyfa 1000 sekum mönnum að ganga frjálsir, en að refsa einum saklausum.

Ef refsiglaðir og hneykslaðir Moggabloggararnir vilja eitthvað læra af þessu máli, þá ætti það helst að vera að kenna ungum stúlkum, og strákum, hvernig á að bregðast við ef þeim er nauðgað. Rétt viðbrögð geta skipt öllu þegar sanna á sekt fyrir dómstólum.


mbl.is Fjórir piltar sýknaðir af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

8. Er lögreglan að svindla?

Mér kemur á óvart hversu oft berast fréttir af því að yfirheyrslur lögreglunnar á Íslandi yfir grunuðum mönnum hafi leitt í ljós ítarlega játningu á öllum sakaratriðum, og stundum gott betur.

Nú síðast var Mbl.is að flytja fréttir af 17 ára pilti sem kemur á lögreglustöð að lýsa eftir "týndum bíl" sínum, en fer ekki frá stöðinni fyrr en hann hefur fallist á að játa á sig að hafa ekið bílnum inn í garð, og að auki verið ölvaður undir stýri.

Að mér læðist grunur að ólögráða drengurinn hafi verið yfirheyrður án þess að hafa lögfræðing eða jafnvel bara forráðamann viðstaddan. Ég get rétt ímyndað mér drenginn einan í yfirheyrsluherbergi með tveimur fílefldum lögreglumönnum, ráðalaus og ráðavilltur. Ekki auðvelt að plata óharnaðan unglinginn til að játa á sig brotin sem líklega voru engin sönnunargön fyrir.

Að mér læðist líka sá grunur að lögreglumenn á Íslandi séu ekki nógu samviskusamir um að upplýsa sakaða menn um réttindi sín, s.s. að hafa lögfræðing til aðstoðar sér að kostnaðarlausu. Mig grunar líka sterklega að lögreglumenn herlendis stundi sömu blekkingar og eru t.d. frægar í Bandaríkjunum að lofa hinum sakaða vægari meðferð í dómskerfinu ef hann játar vandaræðalaust.

Síðast þegar ég vissi hafa lögreglumenn ekkert að gera með lengd dóma, upphæðir sekta eða bóta.

Íslenskir smáglæponar stíga væntanlega ekki í vitið, eða hafa misst skynsemina með lyfjanotkun. En hvers vegna eru þeir svo vitlausir að játa hikstalaust á sig glæpi sem iðulega virðist erfitt að sanna að er þeirra sök?

Ætli sakaðir menn viti af þeim rétti sínum að þurfa ekki að gefa lögreglu neinar upplýsingar sem geta varpað ljósi á sök þeirra?

Að því ég best veit dugar sterkur grunur skammt fyrir dómstólum á Íslandi. Sakfelling fæst seint ef ekki er til staðar sönnunargagn, vitni, nú eða auðvitað játning.

Þó lögfræðingar á Íslandi virðist upp til hópa frekar ófrumlegir í hugsun (sem er efni í annan pistil) þá ætti skapandi og metnaðarfullur lögfræðingur hæglega að geta varið mann frá refsingu í máli þar sem sýna má fram á einhvern vafa á sök.

Ef einhverjir af lesendum þessa pistils lenda í því að verða handeknir og yfirheyrðir mæli ég með því að fólk játi ekki á sig nokkurn skapaðan hlut, sama hvað, fyrr en eftir að hafa ráðfært sig ítarlega við lögfræðing. Ekki lúffa fyrr en í fulla hnefana, og þangað til þú þekkir réttindi þín og möguleika út og inn.

Þó að töluverður munur sé á reglum um rannsóknar- og málsmeðferð í Bandaríkjunum og á Íslandi ætti lesendum Hnoðrabloggsins að vera mikið gagn af að horfa á myndbandið Busted sem Bandarísk mannréttindasamtök létu gera. Þar má læra ýmis nytsöm ráð um hvernig á að eiga í samskiptum við laganna verði, með því einu að þekkja réttindi sín og takmörk valdheimilda lögreglunnar.

Ég vil líka benda á þetta leiðbeiningarblað hérna sem American Civil Liberties Union lét gera, þar sem má finna einfaldar leiðbeiningar sem hægt er að prenta út og hafa við höndina.


mbl.is Seinheppinn brotamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7. Engar hjónavígslur samkynhneigðra? -Förum þá alla leið

Var bent á mjög áhugverða bloggfærslu. Greinarhöfundur bendir á að ef kristin gildi eiga að standa í vegi fyrir því að samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband, þá hljóti þessi sömu kristnu gildi að vega jafnþungt í því að banna skilnaði og endur-giftingar.

If our marriage laws must conform to Christian doctrine so as to bar gays from marrying, then it also must prohibit married couples from divorcing, and must also bar them from entering into so-called "re-marriages." As I pointed out last week, Christianity bars divorce and re-marriage every bit as much as it bars same-sex marriages. Thus, there is simply no intellectually or religiously honest way to claim that Christian values compel a ban on same-sex marriages while continuing to allow divorces and to recognize "re-marriages."

En eins og venjulega eru siðapostularnir bara að nota trúna sem átyllu.

Moralizing is easy when you don’t have to sacrifice anything or restrain yourself in any way. That’s why it’s so easy for these large majorities to approve bans on same-sex marriage. It doesn’t cost them anything, because they don’t want to marry someone of the same sex.

Sjá nánar hér og hér


6. "Þau miða allt sitt litla líf við lítinn bæ..."

Maður hefði vonað að ótalmörg skipulags- og byggingarslysin í Reykjavík hefðu kennt fólki að forðast mistökin.

En svo bjóðast svona gullin tækifæri, þegar fúakofar á besta stað í miðbænum fuðra loksins upp, og hægt er að byggja reisulegt húsnæði sem húkir ekki eins og dvergur við hliðina á byggingunum við kring.

Þá gera stjórnmálamenn það sem reynist best í pólitíkinni: halda sig við það sem var, frekar en að koma með djarfar tillögur með sýn og metnað. Höfuðborgarsvæðið er ljótt, illa skipulagt og skortir samræmi. Ljótastur er miðbærinn. Reynslan hefur sýnt að íslenskir arkitektar og skipulagsfræðingar virðast ekki til mikils liklegir og hafa ekki gert nein sérstaklega áhugaverð stórvirki síðásta áratug eða tvo. Svona á þetta eftir að verða þangað til loksins stígur fram á sjónarsviðið stjórnmálamaður sem bæði hefur völd og smekk, og ekki síst metnað til að gefa Reykjavík þá heildarandlitslyftingu sem hún þarf. Og sumstaðar þarf meira til en smink og plokk -ef vel ætti að vera þarf að skera upp á ýmsum stöðum.Að gera Reykjavík fagra á eftir að kosta peninga og erfiði, og ekki hvað síst ótæmandi metnað og þolinmæði staðfasts stjórnmálamanns. Og örugglega eiga margir eftir að eiga erfitt með að skilja við kunnuglega niðurníðslu-sveitaþorps-kumbaldablæinn sem er á miðborgarsvæðinu sterkastur en birtist annars um allan bæinn. Við höfum alist upp í þessari borg og getum stundum verið svo vön lýtunum að vil tökum ekki eftir þeim lengur, og skiljanlegt að fólk sé svolítið hikandi þegar skipta á út gömlu fyrir nýtt, sérstaklega ef íslenskum arkitektum á að treysta fyrir að búa til það nýja. 

En samt þarf ekki svo mikið til. Bara hóp af hæfileikafólki sem fær sköpunarfrelsi, og kortleggur það sem miður fer. Eins og gerðar eru skipulagsáætlanir til 10-20 ára má kannski gera fegrunaráætlun sem fer ofan í saumana á götum og hverfum og leggur drögin að endurbótum, lagfæringum, snitti og snatti sem dregið getur úr stærstu lýtunum, og dregið fram það fallega. Þetta hefst svo á endanum. Falleg Reykjavík verður ekki byggð á einum degi, en einhver með vit á málunum þarf að sjá til þess að fyrstu skrefin verði stigin í rétta átt. Í stað þess að vera eins og fiskiþorp á sterum gæti Reykjavík verið snotur lítil skandinavísk borg með heildarsvip og samræmi.En ég efast um að þetta muni nokkurntíma gerast. Reykjavík á eftir að halda áfram að vera ljót og óspennandi, uppfull af misheppnuðum tilraunum og misnotuðum tækifærum. Flæmið á eftir að breíða úr sér til Keflavíkur á næstu áratugum, og í stað þess að vera líkt við París eða Lundúnir verður Reykjavík kennd við Houston eða Mexíkóborg.  Skyndilausnir, skammsýni og pólitískir hagsmunir eiga eftir að ráða ferðinni

Því þannig er það bara á Íslandi. Þar virðist búa lítið fólk með litla drauma, sem kýs yfir sig stjórnmálamenn í samræmi.


mbl.is Lækjartorg, Stjórnarráðið og Bernhöftstorfan myndi sterka heild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5. Blóðþyrstar mömmur vs. raunsæ og yfirveguð umræða

Jæja, núna verður örugglega allt vitlaust, eins og iðulega vill gerast í siðapostulasamfélaginu Íslandi þegar einhver vill ræða um og kryfja tabúin til hlýtar frekar en hrópa á hefnd og útskúfun.

Hann er kannski ekki til að furðast yfir, sá blóðþyrsti kór sem hljómar á Moggablogginu í hvert skipti sem fréttir berast af mönnum sem hafa misnotað börn eða fundist með barnaklám í fórum sínum. Móðureðlið er sterkt og allt það. Umræðan um börn, ungmenni og kynlíf er líklega sú sem auðveldast er að misskilja og sú sem erfiðast er að ræða um án þess að tilfinningarnar taki völd.

Ég er samt hissa á að aldrei heyrist hlutlæg skoðun á þessum málum. Þeir sem tjá sig vilja sjá þessa menn og konur sem brjóta af sér læsta inni og lyklinum hent, eða þaðan af verra. Refsifýsnin og blóðþorstinn í skaranum minnir á æstan lýð af verstu sort sem vill henda norninni á bálið við minnsta grun um kukl.

Sú frétt sem kallar á þessa bloggfærslu eru tíðindi af manni sem fannst með agnarögn af "barnaklámi" á tölvunni sinni. Á fréttum má þó allteins ráða að myndirnar jaðri á mörkum þess að geta kallast klám, eða jaðri á mörkum þess að vera af "börnum" skv skilningi laganna, og hafði maðurinn raunar eytt flestum myndunum af tölvunni. Að fá 250.000 kr sekt er því allverulega ströng refsing þegar myndirnar geta allteins hafa slysast inn á tölvu mannsins.

Það þekkja allir klámhundar sem leitað hafa að efni sér til fróunar á netinu að það er ekki hægt að leita að klámi nú til dags án þess að stöku sinnum slæðist með efni sem gæti eða gæti ekki verið af einstaklingi undir 18 ára aldri.

Í Danmörku virðast þeir hafa tekið tilit til þessa, þar sem ekki er hægt að sakfella menn fyrir að berja augum "barnaklám", og ekki fyrr en fólk af ásetningi geymir efnið á tölvum sínum að um glæp er að ræða.

Eflaust myndu margir vilja sjá mig í gapastokk á Lækjartorgi fyrir það eitt að hafa orðið "barnaklám" í gæsalöppum. En það þarf að hafa fyrirvara á þegar þetta hugtak er notað: Skv. skilgreiningu laga er barnaklám það efni sem sýnir einstkalinga undir 18 ára aldri á kynferðislegan eða klámfenginm hátt. Í öðrum skilningi laga sem fást við kynlíf eru táningar þó ekki "börn", og þannig er fólk talið hafa andlegan þroska til að ráða kynlífi sínu sjálft frá 14 ára aldri, en nýtur þó lagalegar verndar gegn blekkingu og táli.

Ég vil meina að það sé öllu alvarlegra mál að sækja í klámefni sem sýnir börn, fólk sem ekki hefur náð kynþroska, en að sækja í efni sem sýnir táninga í kynferðislegum athöfnum. Það væri kannski ekki óvitlaust að nota annars vegar hugtakið "barnaklám" og hins vegar "táningaklám", til að hafa umræðuna skýrari, rétt eins og við gerum greinarmun á bjór og kókaíni.

 

...Allavega; 14 ára ungmenni getur sængað hjá sextugum manni, en ef þetta sama ungmenni tekur myndir af sjálfu sér nöktu er það orðið sekt um framleiðslu barnakláms. Fullorðinn maður eða kona má taka sér 16 ára elskhuga og horfa á hann gera hvað sem er kynferðislegt. Ef hann sér 16 ára einstakling í sömu kynferðislegu athöfn á ljósmynd, þá er það orðið glæpur. Ef 18 ára strákur tekur nektarmynd af 17 ára kærustu sinni er hann orðinn sekur um alvarlegan glæp skv. skilningi laganna.

Hvers vegna ætli táningar séu kynverur í einni lagagrein hengingarlaga, en ekki í öðrum? Jú, náttúran lætur ekki að sér hæða. Líffræðilega séð erum við orðin kynverur um leið og kynþroska er náð. Forfeður okkar víkingarnir voru búnir að eignast stóð af börnum, vega mann og annan og deyja úr kartnögl við 16 ára aldurinn.

Það er síðari tíma uppfinning að gera ungmenni að börnum langt fram eftir aldri, vernda þau fyrir öllu illu og halda þeim undir móðurvæng til átján og jafnvel lengur.

Náttúrunni verður ekki breytt. "Börn" eru ekki lengur börn í kynferðislegum skilningi þegar kynþroska er náð. Og það ekki annað en sjálfsblekking að neita því að karlmenn (og konur) laðast að ungu fólki í blóma kynþroska síns. Ein rannsóknin, sem ég nenni þó ekki að leita að tengli í, fór þannig fram að körlum á ýmsum aldri voru sýndar ljósmyndir af stúlkum. Stórum hluta þeirra þóttu hvað mest aðlaðandi þær myndir sem sýndu stúlkur kringum 17 ára, einmitt þegar þær eru líffræðilega á allrabestum aldri til að geta börn.

Hversu margir karlar voru ekki slefandi yfir Britney Spears þegar hún steig fyrst fram á sjónarsviðið? "[Hit me] me baby one more time" kom út þegar Britney litla var bara 16 eða 17 ára, og dillaði sér í eggjandi mynbandi með fléttur og í stuttu pilsi. Q.E.D.

 

Þeir sem reynt hafa vita að kynhvötin er ein af sterkustu hvötum mannsins. Sagan hefur sýnt okkur að reglur samfélagsins geta ekki brotið þessa hvöt á bak aftur, þó hún geti kannski ýtt henni undir yfirborðið. Lög sem mæla gegn náttúrulegum hvötum mannsins breyta ekki hegðun fólks heldur búa bara til glæpamenn.

Blessunarlega er þó löglegur aldur til samræðis 14 ár hér á landi, og löggjöfin ekki að reyna að svipta ungmenni kynhvötinni fram til 18 eða 20 ára aldurs eins og gerist sumstaðar.

Táningar eru kynverur, og það er ekki skrítið að hópur manna laðist að þessum kynverum. Vilja sumir meina að lög sem banna hvort heldur samræði við ungmenni eða efni sem sýnir þau á kynferðislegan hátt séu tímaskekkja -reglur sem ofuríhaldssöm trúartengd siðaverndunaröfl hafi komið á á ólíkum tímum undir ýmsu yfirskini. 

Málsvarar þessa sama málstaðar segja rannsóknir sem sýnt hafa fram á að ekkert sé óeðlilegt við kynlíf ungmenna eru þaggaðar í hel, og að rannsakendur sem vilja meina að ekki sé afbrigðilegt að þykja örvandi kynferðislegar myndir af 16 ára kynveru eru rægðir og sviptir rannsóknarfjármagni.

Er svo komið að enginn þorir að rannsaka málið á hlutlægum gurndvelli. Tilfinningarnar ráða öllum ákvörðunum og umræðu.

 

En þangað til hægt er að ræða um kynferði ungmenna án þess að moggabloggarar sjái rautt og heimti tjörgun og fiðrun er kannski hægt að fjalla aðeins um gerendurna í kynferðis- og barnaklámsbrotum. Það litla sem ég hef lesið um þessi mál bendir til þess að  samfélagið hafi nefnilega iðulega brugðist þeim sem brjóta gegn börnum eða sækja í barnaklám. Margir þeirra hafa sjálfir orðið fyrir einhverskonar kynferðislegu áfalli í æsku, en enga hjálp fengið.

Þegar hér er komið sögu er rétt að ég taki fram að þó ég haldi því fram að ungmenni, táningar, geti verið kynverur fyrr en margir myndu vilja sætta sig við þá er ég alls ekki að verja alvarlega kynferðisglæpi gegn börnum eða efast um skaðsemi glæpsins fyrir fórnarlambið. Þeir sem fremja verstu glæpina þurfa hins vegar hjálp okkar og skilning frekar en hömlulausa reiði og refsifýsn.

Þessir menn og konur þurfa aðstoð sérfræðinga til að geta unnið bug á eða náð að stjórna fýsnum sínum. Þegar viðbrögð samfélagsins eru hins vegar að rísa upp af minnsta tilefni með logandi kyndlum hrópandi á blóð er ekki skrítið að menn feli sín leyndarmál og leiti sér ekki aðstoðar.

Það þarf að gerast með þetta eins og alkóhólismann: fá umræðuna upp á yfirborðið, tala ekki um refsingar heldur raunhæfar forvarnir. Sumir vilja tala um pedófíliu sem geðsjúkdóm, og kannski á að taka á henni sem slíkri -þú læknar engan af sjúkdóm með því að loka hann bak við lás og slá. -Þú færð engan til að leita sér aðstoðar við sjúkdómi ef því er haldið stöðugt fram að sjúklingarnir ættu að vera réttdræpir hvar sem til þeirra næst.

Forvarnirnar þurfa að beinast bæði að mögulegum fórnarlömbum og mögulegum gerendum til að skila einhverjum árangri. Nóg virðist vera auglýst af úrræðum fyrir fórnarlömbin, en hvergi hef ég séð auglýsta þjónustu fyrir þá sem hafa áhyggjur af að þeir geti brotið af sér, og þurfi að vinna úr kenndum sem ekki getur hlotist neitt gott af.

Engin vefsíða er starfrækt hér á landi þar sem fólk getur leitað upplýsinga í ró og næði og reynt að skilja hvort það á við vanda að stríða, og hvernig það getur leitað meðferðar.

 

Í framhaldinu getum við síðan rætt um það hversu mikill glæpur það er í raun að sækjast í efni sem sýnir unglinga á kynferðislegan hátt, og hvaða gagn það gerir að banna mönnum að horfa á ungling stunda kynlíf á mynd, en leyfa þeim að stunda kynlíf með sama ungling í egin persónu.

Ég hef gert ljósa þá skoðun mína hér að ofan að það sé ekki náttúrulega afbrigðilegt að laðast kynferðislega að fólki á táningsaldri, og ætti þess vegna ekki að vera jafnalvarlegur glæpur og margir vilja meina að sækjast eftir efni sem sýnir þennan aldurshóp á kynferðislegan hátt.


mbl.is 250 þúsund króna sekt fyrir að vera með barnaklám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

4. Aftur þarf tjáningar og skoðanafrelsið að lúta fyrir róttækri siðvöndunarstefnu

Er ég einn um það að hafa áhyggjur af þróun mála á Íslandi? Enn eitt dæmið hefur bæst við þau fjölmörgu tilfelli þar sem réttur manna til tjáningar- og skoðanafrelsis er virtur að vettugi vegna gruns um siðferði sem ekki fellur að skapi háværra sjálfskipaðra siðapostula. Nú er það tölvuleikurinn RapeLay sem menn geta ekki séð í friði.

Og eins og venjulega upphefjast misvitar bloggraddirnar í athugasemdum við fréttir mbl.is, flestar hverjar í formi "húrra og amen"-skeyta frá fólki sem vill ekki leyfa öðrum að hafa annað siðferði en það sjálft. -Og, eins og líka gerist venjulega, hafa fæstir haft fyrir því að kynna sér málið, gaspra út frá því litla sem stendur í fréttunum og telja aldeilis gott að hið opinbera fái að ráðskast með það hvaða tölvuleiki menn spila. Nýbakaður ráðherra hikar ekki við að lýsa því yfir að banna ætti svona lagað, enda varla hægt að treysta almúganum fyrir því að ráða því sjálfur hvað þau skoðar á netinu.

Eins og aðstandendur Torrent.is, sem hýsa leikinn, bentu á þá verða menn ekki morðingjar af að spila skotleiki og verða því varla heldur nauðgarar af að spila leik þar sem þeir eru settir í spor japansks "perverts". Af upplýsingum um leikinn á Wikipedia.com má ráða að hér sé á ferðinni gagnvirk saga sem endað getur á ýmsa vegu. Meðal annars getur "nauðgarinn" lent í því að vera stunginn til bana af fórnarlambi sínu eða endað fyrir lest.

Leiknum mætti lýsa sem rafrænni frásögn sem endurspeglar menningarkima japansks samfélags og segir söguna frá sjónarhonni lestarkáfarans, alræmdar "perrategundar" í Japan, svona eins og "krókódílamaðurinn" er á Íslandi. Ef Murakami myndi gera eitthvað þessu líkt þætti það líklega brakandi snilld.

Nú reikna ég með að ríkislögreglustjóri og ráðherrar taki næst til við að fjarlægja aðrar frásagnir af nauðgunum. Kannski menn byrji á Biblíunni og nokkrum vel völdum sagnasöfnum úr grískri goðatrú. Hendum líka völdum íslendingasögum, og grisjum síðan allt fram í Houellebecq. Hver veit hverju menn gætu tekið upp á ef þeir slysuðust til að lesa sorann sem er að finna í þessum ritum.

Kannski er næsta skref að Dómsmálaráðherra setji á laggirnar siðalögregludeild að Sádi-Arabískri fyrirmynd. Þá held ég aldeilis að margir moggabloggarar myndu gleðjast.

 

Æ, hvað er að verða um Ísland? Hvernig stendur á því að svo fáar raddir andmæla siðavöndunarkórnum sem vill ekki leyfa fólki að halda bláar ráðstefnur í friði eða spila dónalega tölvuleiki? Erum við að breytast í hægrikristið beturvitrunga siðaveldi að bandarískri fyrirmynd, þar sem ekki er pláss fyrir neitt annað en hvolparómantík og trúboðastellinguna með ljósin slökkt? Hvenær fer það að gerast hér á landi að ríkislögreglustjóri fer í mál við sjónvarpsstöðvarnar vegna þess að sést fyrir slysni í geirvörtu í beinni útsendingu?

Og svo bara verð ég að láta fljóta með að fólk skoði vandlega myndina sem mbl.is notar með fréttunum af RapeLay. Ég fæ ekki betur séð en að þar sé kvenfígúra glennt framan í lesendur með brundklessurnar lekandi niður andlitið. Alveg óborganlegt, og raunar dæmigert, að siðavandaða pakkið skuli fjargviðrast yfir því sem það aldrei hefur séð, en tekur ekki eftir því sem er fyrir framan nefið á þeim.


mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3. Jón Valur

Textinn hér að neðan átti að verða comment við Jónsvalsbloggið. Þegar textinn var loksins klár var runninn út tímafrestur á athugasemd við viðkomandi grein hjá Jóni. Set athugasemdina mína hér, svo hún fái einhversstaðar að vera.

....

Jón Valur

Skrif þín fara yfirleitt fjarskamikið í taugarnar á mér, en ég freistast samt til að skoða hatursáróðurinn hjá þér endrum og sinnum, líklega vegna þess að ég fæ létt kikk út úr því að sjá hvað þú ert ofstækisfullur, þröngsýnn og manískur í samfélagslegum og trúarlegum túlkunum þínum.

Að lesa bloggið þitt höfðar til svipaðra kennda og að fylgjast með fréttum af Paris Hilton: maður tekur ekkert mark á þér en hefur samt gaman af að sjá hvað þú hefur bjagaða sýn á tilveruna og hvernig þú verður þér að athlægi á opinberum vettvangi. 

Þú leggur út frá róttækum trúartúlkunum í meiðandi og særandi greinum þínum, og býður upp á samræður og athugasemdir, en ég þykist vita að það er lítil von á rökræðum þegar annar viðmælandinn telur sig vera með algildan sannleika mannlegrar tilveru á hreinu. Ég get samt ekki staðist að taka þátt í vitleysunni svona einusinni, upp á sport. 

Þú getur síðan dundað þér við það part úr degi að taka orð mín úr samhengi, vitna í fyrri og væntanleg skrif þín, og hentivalin biblíuvers, eins og þú gerir yfirleitt ef einhver gerir athugasemdir við furðuvíðlesnar bloggfærslur þínar. 

Ég reyni að freistast ekki til að taka frekari þátt í umræðum á blogginu þínu, því ef ég reyndi að rökræða við hvern þann kjána sem ég rekst á í netheimum gerði ég ekki annað. Þér er frjálst að túlka það sem vitsmunalegan sigur af þinni hálfu þegar ég þegi þunnu hljóði. 

Það er að segja ef þú leyfir þessari athugasemd að standa, að hún þyki ekki of óhefluð. Sjálfum þykja mér þín skrif iðulega dónaleg og særandi, sama þó iðulega fylgi einhverskonar röksemdafærsla. Það má deila um hvor fullyrðingin á við betri rök að styðjast, að kalla þig þröngsýnan kjána eða að kalla samkynhneigð illa og andstyggilega. 

+++ 

Fyrst gamla lumman: Ef þú notar þá bronsaldar heimspeki sem birtist í Biblíunni sem tæki til að dæma menn á 20. öld geturðu ekki valið og hafnað. Það er jú andstætt sjálfum orðum biblíunnar að fylgja ekki lögmálinu til hins ýtrasta (nenni ekki að finna tilvitnun í vers, þú veist eflaust um þær fleiri en ég). Þú vilt ekki vera kallaður “kenningardaufur”, er það nokkuð? Allt eða ekkert, annars ferðu til andskotans –er það ekki? 

Þú þekkir mikið betur en ég fyrirmæli Biblíunnar, í gamla jafnt sem nýja testamentinu um að grýta fólk af minnsta tilefni, halda þræla og hvaðeina. Að eltast ekki af sama kappi við þær ritningarklausur eins og þú eltist við klausur um samkynhneigð er trúarleg hræsni af þinni hálfu. Farðu nú og grýttu einhvern svo sál þín verði hólpin. 

+++ 

En þú ferð ekki af stað niður á Lækjartorg með steinasafnið, því það er ekki Biblían sem þú fylgir, þó þú haldir því fram og trúir því líklega sjálfur. Biblíuna notarðu sem leið til að réttlæta eigin tilfinningar og viðhorf. Þú hefur mótað þér sjálfsmynd byggða á ótal fyrirmyndum og áhrifavöldum í lífi þínu. Þessi sjálfsmynd inniheldur líklega standarda eins og að strákar eru sterkir og spila fótbolta, stelpur eru viðkvæmar og leika með dúkkur, svo ég byrji að draga upp einfaldaða mynd. Karlmenn eru Bond, konur eru Barbí, samræmdar andstæður þar sem skiptast á vont og gott, heitt og kalt, sætt og súrt, (eða svo ég noti vísindahugsun tíma Jesú Jósepssonar: vatn og eldur, jörð og loft).  

Inn í þetta blandast svo trúarþykknið, lítið útþynnt í þínu tilviki, og heimurinn hefur skyndilega tilgang og tilgangurinn heim, af því bara. Reglur, boð, bönn, fyrirmæli og verðlaun ef þú hlýðir. Umhverfið allt verður svart og hvítt, reglurnar skýrar og þú sjálfur allra manna réttlátastur, svo fremi sem þú fylgir forskriftinni.  

Allt passar þetta vel saman. Og ef eitthvað er á skjön, þá ertir það þig. Ef stelpan er sterk og strákurinn viðkvæmur er það á skjön við heimsmynd þína og ekkert smávegis vandamál þegar hlutirnir eru ekki lengur svarthvítir. Þú myndir örugglega aldrei klæða dreng í bleikt og stelpu í blátt, þó litir hafi í sjálfu sér enga merkingu nema þá sem við höfum búið til í kollinum á okkur um hlutverk, reglu, verkaskiptingu. 

Því þú ert jú karlmaður með kynhvöt, og skilgreinir sjálfan þig út frá henni. Typpi fer í píku, stelpur eru spennandi. Blár og bleikur eru andstæður. Stefnumót, hjónband, getnaður (og eins gott líka!) börn og einbýlishús. Allt samkvæmt reglum og forskrift. En ef karlmaður er skyndilega með karlmanni er heimurinn kominn á skjön. Ert þú þá kannski í hættu á að verða kvenmaður? Er þá ekki allt farið til andskotans, og öll regla farin af heiminum? Ef síðan fólk fær frið til að finna hamingju, fjölskyldu og viðurkenningu og hegðar sér samt alveg á skjön við það hlutverk sem þú leikur, hvað er þá eftir af þinni tilveru? Hvar ert þú staddur ef samkynhneigð er náttúruleg, góð, falleg og réttlát?  

Nei, þú fordæmir þann sem sker sig úr hópnum. Að hata þann sem gerir rangt hlýtur að fá almættið til að elska þig meira. Að hafa “vonda” að berjast við hlýtur að gera þig “góðan”. Það að lækka aðra hlýtur að hækka þig. Þú kastar steinum, en segist samt fyrirgefa og elska meðbróður þinn. Svo heppilega vill til að þú byggir lífspeki þína á, eða réttlætir hana alltént með trúarriti sem skrifað var af mönnum með samskonar svarthvítt sjónarhorn á heiminn. Þú finnur það sem þú þarft að finna í ritinu til að þurfa ekki að móta þínar eigin skoðanir og takast á við marglitan heim. -Þeir vita best um samfélag 20. aldarinnar sem voru göldróttir hjarðmenn kringum Dauðahafið fyrir þúsundum ára og heyrðu, merkilegt nok, raddir og sáu sýnir í steikjandi hitanum. 

(Þú flettir auðvitað, eins og svo margir skoðanabræður þínir, framhjá þeim klausum í ritinu sem eiga ekki alveg við, svo þú þurfir t.d. ekki að grýta börnin þín. Það eru jú bara klausur sem má túlka, setja í stærra samhengi við kristilegan kærleik og hvaðeina. Það vegur ekki að sjálfsmynd þinni eða hagsmunum þó að börnin þín séu óhlýðin og kallar ekki á skriftaflóð á blogginu) 

Það sem þú gerir í blogginu þínu er ekkert nýtt. Það sama hafa menn gert til að réttlæta það að fara um lönd nauðgandi, rænandi og myrðandi í nafni krossfarar, brenna villutrúarmenn og nornir lifandi og pína og kvelja fólk í þrældóm.

Þú bætir auðvitað um betur og vitnar í rannsóknir sem henta þér, unnar af fólki eins og þér fyrir samtök fólks eins og þín. Segir réttilega að það sé alls ekki eftirsóknarvert eða gott heilsunni að vera samkynhneigður í heimi þar sem fólk eins og þú hefur fengið að ráða hvað er rangt og rétt þar til bara rétt á síðustu áratugum. 

Og þess vegna muntu alltaf hafa rétt fyrir þér, og almættið sjálft alltaf vera sammála þér, og hver veit nema að einhver gefi út bloggið þitt eftir 2000 ár og dreifi því ókeypis í náttskúffurnar á öllum hótelum, því Biblían var jú skrifuð af mönnum sem voru Jón Valur Jensson síns tíma. 

+++ 

p.s. Það væri gaman að sjá Sjálfstæðismenn sparka aðeins í rassinn á þjóðkirkjunni. 

Þú vitnar í lagakafla (þú hefur svo gaman af að vitna í texta og reglur, því það sem er skrifað hlýtur að vera ófrávíkjanlegt og óbreytanlegt) og telur upp ástæður þessa heims og annars um að nú sé voðinn vís, jafnvel hægrimenn farnir að vega að stofnun sem vernduð er bæði  veraldlega og heilaglega. 

En ég fæ ekki betur séð af því sem kemur fram í pistlinum þínum að tillaga sjálfstæðisþingsins hafi aðallega lotið að því að gera trúfélögum kleift að vígja samkynhneigða til hjúskapar í trúarlegri vígslu. Mörg trúfélög, kristin jafnt sem “heiðin” (þú myndir nota orðið “heiðinn”, er það ekki Jón?) vilja gefa saman samkynhneigð pör í trúarathöfn, en mega strangt til tekið ekki gera það. Þær blessanir sem nú eru veittar hafa ekkert lagalegt hjúskapargildi.  

Þú auðvitað sérð þetta útspil sem árás á kristna kirkju, enda kveikir orðið “samkynhneigð” á rauðum viðvörunarbjöllum hjá þér. Og eins og venjulega, þegar vegið er að heimsmynd þinni tínirðu til ritningar, lög og reglur og múrar þig af með þeim, jafnvel þegar engin ógn er til staðar nema sú sem þú ímyndar þér. Ég get ekki séð hvernig vegið er að kristnum söfnuðum þó veitt sé leyfi á alla trúfélagalínuna að vígja samkynhneigða í löglegt hjónaband, ef þeim svo sýnist.  

Hitt er svo spurning hvers vegna er ekki löngu búið að skikka ansans þjóðkirkjuna til að vígja saman samkynhneigð pör, ellegar segja bless við sponslurnar og fríðindin. Ríkið pjattar þessa stofnun samkvæmt lögum og stjórnarskrá, og leyfir kirkjunni að mismuna fólki á grundvelli kynfæra. Það er löngu orðið tímabært að slíta á tengsl ríkis og lúthersk-evangelísku kirkjunnar með öllu. Að þessi úrelta stofnun skuli fá lagalega stöðu til að hafa nokkuð að segja um siðferði landsmanna er tímaskekkja. Leyfum þeim trúfélögum sem það langar að mismuna og hata í nafni kærleikans, en gefum þeim ekki lagalega  og fjárhagslega vernd í lögbókum upplýsts nútímasamfélags. 


2. Möguleg lausn á fíknefnavandanum

Gaman væri að vita hvort þessi hugmynd er original:

Ríkið flytji inn til landsins fíkniefni í hæsta gæðaflokki og dreifi þeim ókeypis til notkunar á þar til gerðum stofum þar sem innbyrða má fíkniefnin undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna.

Á sama stað væri uppi áróður um skaðsemi fíkniefna, og leiðir til að losna undan fíkninni. Einnig væri hægt að fá þar mat og húsaskjól. Þeir sem kærðu sig um gætu hangið þar í lyfjamóki eins lengi og þeir endast.

Samtímis væru hert viðurlög við því að hafa fíkniefni í fórum sínum utan þessara afmörkuðu neyslustaða, og sömuleiðis viðurlög við innflutningi, samfara snörpu löggæsluátaki.

Af þessu hlýst:

a) Þar sem hægt er að nálgast hágæða fíkniefni ókeypis hjá hinu opinbera hríðlækkar markaðsverð á fíkniefnum. Innflytjendur fíkniefna sjá sér ekki lengur fjárhagslegan hag af að storka þeirri refsihættu sem fylgir innflutningi fíkniefnanna og sölu. Fíkniefnasalar hætta að "markaðssetja" vöru sína, og þar af leiðandi dregur allverulega úr nýliðun fíkniefnaneytenda. Þetta leiðir á endanum til þess að erfitt verður að nálgast fíkniefni annarsstaðar en hjá fíknefnasjoppum ríkisins.

b) Þeir sem eru háðir fíkniefnum þurfa ekki að stunda glæpi eða vændi til að fjármagna neyslu sína og auka þar af leiðandi ekki á vanda samfélagisns. Ættingjar þeirra og aðstandendur kunna líka að vera rólegri vitandi af fíklunum undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna í öruggu húsaskjóli.

 Að auki:

c) Þessir staðir yrðu hæfilega áberandi til að vera fráhverfandi. Fólk myndi tengja saman fíkniefnaneyslu og auman lífsstíl þeirra sem sækja í fíkniefnin á þessum stofnunum.

d) Um leið og einstaklingur í sukki fær nóg, og vill leita sér hjálpar er hjálpin til staðar í þessum eiturlyfjasjoppum.

e) Hægt væri að fylgjast með heilsu fíklanna, t.d. skima eftir HIV og lifrarbólgu, og veita þeim ráðgjöf.


1. Stranglega bannað að gera dónó

venus-willendorfÞað er full ástæða til að hafa áhyggjur af umræðunni um siðferðismál á Íslandi upp á síðkastið.

Nýjasta dæmið er hrina umfjöllunar um fyrirhugaða ráðstefnu framleiðenda klámmynda hér á landi. Samtök og einstaklingar veittust að ráðstefnunni, sem þó virðist ekki hafa verið ráðstefna þegar allt kom til alls, heldur skemmtiferð, tækifæri fyrir athafnamenn til að sýna sig og sjá aðra og njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Af umfjöllun mátti ráða að hópurinn myndi ekki aðhafast neitt ólöglegt hér á landi, og alls ekki komast upp með möguleg lögbrot.

En orðið "klám" var nóg til að espa upp umræðu þar sem fljótlega var sett samasemmerki á milli klámefnis og misnotkunar á konum og börnum, og ráðstefnan á Hótel Sögu orðin rót alls ills.

Fáir þorðu að taka til máls til varnar skoðana- og athafnafrelsi. 

Enginn talaði um hversu eðlilegt og heilbrigt hlutverk klámefni leikur í einkalífi allra kynferðislega og félagslegra heilbrigðra karlmanna, og margra kvenna. Klám var orðið vont og hættulegt, sama hvað.

Og svo var það bændastéttin á endanum, óvæntasti vörður siðgæðisins, sem tók af skarið og meinaði klámframleiðendunum um gistingu. Þegar síðan var á það bent að hótelið sjálft hefði um áraraðir selt klámefni gegn gjaldi lofuðu bændur strax að hætta að sjónvarpa laufléttu ljósbláu hótelkláminu.

 -eins og hótel eru annars rómaðar öndvegisstofnanir siðgæðisins.

Umræða um siðferðismál á Íslandi er farin að einkennast í auknum mæli af ofstæki, oftúlkunum og jafnvel hræsni. Þessu litla bloggi er ætlað að vera andsvar við þessum röddum, og málsvari frjálslyndis og heilbrigðs umburðarlyndis.

Það virðist þegar sumir háværir hópar taka sig til og fara á nornaveiðar, þori enginn að mæla á móti þeim. Sá sem þetta ritar þorir því varla sjálfur, því það er auðvelt að verða fórnarlamb ofsókna í samfélagi jafnsmáu og Íslandi. Þess vegna er þetta blogg skrifað nafnlaust að svo stöddu.

 Að endingu vísanir í tvær greinar Baggalúts sem varpar með háði sínu skemmtilegu ljósi á hræsni klámumræðunnar miklu: hér og hér


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband