73. Merkilegt, hvað kennarar geta verið vitlausir...

Það þarf ekki meistaragráðu til að kenna í leikskóla eða grunnskóla, og varla í framhaldsskóla heldur.

Námsefnið sem kennt er, og aðferðirnar sem þarf að nota við kennsluna, eru einfaldlega þess eðlis að ekki þarf að liggja 5 ára háskólanám og sérfræðigráða að baki.

Til að kenna í leikskóla ætti ekki að þurfa nema stúdentspróf: vera vel lesandi og skrifandi, og hafa einhverja lágmarkskunnáttu á sögu og samtíð. Það mætti í mesta falli gera kröfu um einhverskonar diplóma-nám fyrir leikskólakennara upp á 30 til 45 einingar, þar sem farið er yfir nýjustu kenningar í kennslu- og uppeldisfræði ungabarna.

-það einfaldlega þarf ekki meistaragráðu í bókmenntum til að kenna stafrófið!

Til að kenna í grunnskóla er mjög ríflegt að vera með bachelorgráðu, en þó varla nauðsynlegt fyrr en í elstu bekkjunum, þegar kennslan fer að verða allsérhæfð í sumum fögum. Aftur gæti verið bónus að vera með stutta diplómagráðu þar sem farið er yfir praktískt atriði um hvernig á að miðla fróðleik til barna og halda aga á skólastarfinu.

Bachelorgráða dugar líka fullvel í flestum framhaldsskólum, svo lengi sem gráðan er á því sérsviði sem viðkomandi er svo látinn kenna. Það er kannski í efri bekkjum betri framhaldsskóla að meistaragráða geti orðið til að bæta námið, en það er samt varla.

Annars er menntastarfið þannig á flestum skólasviðum að kennslubækur og handbækur leiða nemendur og kennara áfram. Það þarf ekki fræðinga, heldur frekar kennslutækna, til að halda góðu kennslustarfi gangandi með slík verkfæri í höndunum.

 

Það er í takt við vitleysuna sem kemur yfirleitt frá Kennarasambandinu, að vilja of-mennta kennara svo keyrir úr öllu hófi. Árangurinn verður lítill sem enginn fyrir skólastarfið, og skilar sér helst í því að kennarar offjárfesta tíma sínum og peningum í menntun  -því greiðslan sem þeir fá fyrir starfið á aldrei eftir að endurspegla meira en þá menntun sem þarf ekki þá menntun sem kennarinn hefur.

Þú borgar ekki bóndanum hærra verð fyrir mjólkina, þó hann framvísi doktorsgráðu í mjólkun.

 

Gráðuvæðing, leyfisbréf, reglugerðir og lög skila engum árangri. Margt gott fólk þekki ég sem varla hefur lokið grunnskólaprófi, en yrði samt afbragðsgóðir kennarar og uppalendur í grunn- og leikskóla, jafnvel líka í framhaldsskóla, og miklu betri en margir sem hafa sankað að sér heilu kofforti af gráðum.

 

Það sem helst myndi skila betri árangri í skólum landsins, og bæta laun kennara um leið, væri markaðsfrelsi á skólasviði: Að ríkið hætti að taka skatta af launum landsmanna til að standa straum af skólakerfinu, og leyfi fólki að ráðstafa sjálft sínum fjármunum í menntun barnsins síns við þá stofnun sem þeim þykir gefa mest fyrir peningana. -Hvort sem það er Hálsakot, Hagaskóli, eða Eton.

Þetta myndi leiða til meiri hagkvæmni í skólastarfinu, og um leið hagkvæmara raunsæis í menntun kennara. Hagkvæmnin myndi skila sér til kennaranna í hærri verðskulduðum launum, og peningarnir myndu leita til þeirra sem standa sig best í starfi, og bjóða bestu skólaþjónustuna.

Best af öllu: börnin myndu fá miklu betri menntun, og öll myndu þau fá menntun ákkúrat við sitt hæfi.


mbl.is Kennarar fagna frumvarpi um kennaramenntun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þú hefur greinilega ekki unnið við NEINA kennslu!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.1.2008 kl. 20:33

2 identicon

Fyrst þegar ég las þetta átti ég í erfiðleikum með að ákveða hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Í lokin sá ég að þessar línur hljóta að vera ætlaðar til að ögra og fá þannig umræðu í gang - sem er gott í sjálfu sér. Stundum þarf maður að kasta fram ítrustu öfgum til að hreyfa við málum og það virðist takast vel hérna. Það myndi allavega enginn heilbrigður maður meina þetta nema að viðkomandi hafi ekkert veruleikaskyn.

Skúli Freyr (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 20:40

3 Smámynd: Promotor Fidei

Ég veit af menntaskólastúdentum sem hafa kennt í grunnskólum í afleysingum og gengið bráðvel.

Minn besti kennari í grunnskóla var réttbúinn með B.Ed. gráðuna og var enginn sérfræðingur á neinu sviði.

Að halda því fram að þurfi mastersgráðu til að kenna leikskólabörnum sem eru ekki einusinni læs og skrifandi, er til marks um einhversskonar sambandsslit við raunveruleikann hjá kennarastétt.

Raunar voru margir mínir bestu kennarar ekki góðir vegna menntunar, heldur höfðu þeir ákveðna samskiptahæfileika sem gerðu þeim kleift að ala upp og fræða nemendur sína. Verstu kennarar mínir voru ekki lélegir vegna þess að þá vantaði meistaragráðu, heldur vegna þess að þeir höfðu einfaldlega ekki hæfileika til starfsins.

Í ríkisapparati leyfisbréfa og gráðuprófa er ekki hægt að meta þessa hæfileika, en í frjálsu markaðskerfi er þessum hæfileikum hampað af neytendum. Í slíku kerfi verða til góðir kennarar, góðir skólar og vel menntaðir krakkaormar. -Slíkt gerist ekki í sósjal-samafyriralla-gráðuveldinu sem Kennarasambandið virðist svo svag fyrir.

Promotor Fidei, 28.1.2008 kl. 20:49

4 identicon

Kæri Promoter Fidei.
Svona bullpistlar eru nú ekki líklegir til að afla málstaðnum fylgi. Endalausar fullyrðingar og besservisseraháttur. Þú veit allt betur en aðrir og það er bara til ein skoðun í þínum heimi.
Þetta er ekki svara vert en mér finnst þú bara svo sorglegur að ég get ekki orða bundist.
Og að geta ekki skrifað undir eigin nafni vegna þess að þú (eða þið) gætuð orðið fyrir gagnrýni. Hvers vegna grundvöllur fyrir skoðanaskipti er það? Enn einn nafnlaus Staksteinapistillinn? Merkilegt hvað þannig pistlar einkenna ykkur svokallaða frelsispostulana!
Bjarki 

Bjarki (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 22:37

5 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Merkilegt hvað hnoðrar geta verið vitlausir....

Guðrún Vala Elísdóttir, 28.1.2008 kl. 23:34

6 Smámynd: Promotor Fidei

Þau hrúgast inn, merkilegu kommentin

Hvergi bólar á málefnalegum rökstuðningi þar sem reynt er að hrekja skoðanir mínar á gildi, eða öllu heldur gildisleysi,  langdreginnar háskólamenntunar fyrir kennara í leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Þess í stað koma ásakanir um skert veruleikaskyn, og "besservisahátt", og reynt að draga úr skoðunum hnoðrabloggsins vegna þess að þær eru ekki skrifaðar undir nafni.

Eru skoðanir rangar eða réttar eftir því hver á þær? Eða getum við kannski rætt um rétt og rangt án þess að þurfa að eigna einhverri persónu hverja hugsun og skoðun?

Þó ég vilji ekki víkja of langt frá efni pistilsins, þá ætti engan að furða að það er í alla staði betra að bera umdeilanlegar skoðanir á borð í nafnleysi í íslenskum netheimum, þar sem svo auðvelt er að drukkna í rætnum persónumeiðingum kjánagerpa sem eru á annarri skoðun.

Ég auglýsi svo eftir mótrökum: Hvað í ósköpunum gerir það svona nauðsynlegt að reglugerðavæða hverja skrúfu í skólakerfinu, og gera þá kröfu að ekki sé hægt að skeina bossa og kenna "Gamla Nóa" í leikskóla án þess að vera með meistaragráðu?

Eða er kannski ekki hægt að finna málefnaleg rök? Snýst þetta, eftir allt saman, ekki um menntun og velferð barnanna heldur um einhverskonar ríkisforsjárhyggju-stéttarfasisma af hálfu kennarabatterísins? Elítan í Kennarasambandin er jú alræmd vinstri-rembings klíka. Eru aðal besservisserarnir kannski ekki Hnoðri, heldur forkólfar KÍ?

Promotor Fidei, 28.1.2008 kl. 23:36

7 identicon

Ég er nú svosem ekki viss um að það þurfi endilega mastersgráðu til að kenna í þessum skólum en það má nú samt ekki gera lítið úr kennarastarfinu og náminu. Það er satt að menntaskólastúdínum uppfullar af áhuga og eldmóð geta gert góða hluti fyrir krakka sem hafa áhuga á og eiga auðvelt eða meðalauðvelt með að læra. Ég held samt að nemendurnir sem eiga erfiðast með nám eða eiga við agavandamál að stríða þurfi á sérfræðingunum að halda.

Ég vildi samt aðallega kommenta á þá skoðun þína að það myndi redda öllu að fólk fengi að borga fyrir þá menntun sem það vill fyrir börnin sín. Jú það myndi verða til þess að þeir sem hafa efni á að senda börnin sín í dýru skólana sem hafa efni á að lokka til sín bestu kennarana fá betri menntun fyrir börnin. En hvað með hina! Þetta er besta leiðin til að ala á stéttarskiptingu. Hálaunafólk hefur efni á að veita krökkunum sínum bestu menntunina meðan fólk sem hefur ekki svo mikið milli handanna fær mun verri menntun fyrir sín börn en nú. Einfaldlega vegna þess að góðu kennararnir sem leynast í öllum skólum nú verða ekki í fátækari skólunum sem fyllast því af útbrunnum áhugalausum kennurum og ómenntuðum. Gott plan ef þú ert hálaunamaður.. Afleitt fyrir alla aðra... Við búum nú einu sinni í samfélagi þar sem allir hafa möguleika á góðri menntun.

Ég vil taka sem dæmi læknadeildina okkar. Nú er búið að afnema klásusinn þar sem samkeppnispróf í desember réðu úrslitum um hverjir gætu haldið áfram námi og hverjir ekki og taka upp í staðinn inntökupróf sem eru haldin á vorin. Ein af ástæðunum fyrir þessari breytingu (hef ég heyrt alla vega) var sú að börn hálaunafólks (t.d lækna) höfðu frekar efni á því að sleppa vinnu yfir sumarið en annað fólk og gátu því byrjað strax að læra og höfðu því meiri möguleika en hinir á því að komast inn! Frekar ömurlegt að hafa minni möguleika á að komast í námið sem þig langar í vegna þess að þú þarft að vinna því foreldrar þínir geta ekki styrkt þig fjárhagslega... 

Kristín (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 00:36

8 identicon

Ja hérna hér...

Maður veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja... á sama tíma og þú reynir að vera málefnaleg/ur þá kallarðu aðra kjána sem hafa ekki sömu skoðanir og þú? Það hefði kannski ekki veitt af kennara til að þú hefðir getað tileinkað þér gagnrýna hugsun og örlítinn vitsmunaþroska sem eitthvað virðist vera af skornum skammti...

Besti kennarinn ekki sérhæfður í neinu en samt að klára B.ed??? Passar ekki!

Mín ráð fyrir framtíð þína er að athuga vindátt áður en þú mígur á móti vindi:) 

Guðrún (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 01:07

9 Smámynd: Promotor Fidei

Ánægjulegt að fá málefnalegar athugasemdir frá Kristínu.  

Langar mig að svara nokkrum atriðum, í hæfilega löngu máli:

  1. Ég vona að skrif mín skiljist ekki sem svo að ég sé að gera lítið úr kennarastarfinu/kennaranáminu, þó ég haldi því fram að það sé út í hött að gera það að skyldu að vera með 5 ára háskólanám á bakinu til að mega kenna á fyrstu skólastigum. Þvert á móti, held ég einmitt að það myndi fara illa með stéttina og starfið, og bitna á börnunum og skólastarfinu, að gera svona fráleitar kröfur um ofmenntun kennara. Börn með námserfiðleika þurfa vitaskuld leiðsögn sérfræðings að einhverju marki, en það þýðir ekki að hver einasti leikskólakennari þurfi að vera með meistaragráðu í barnasálfræði eða kennslufræðum. Kennari er eitt, og sérfræðingur í námsvandamálum er annað. Sérfræðingavæðing og reglugerðamúrar, eins og KÍ er nú að prómótera, er alls engin töfralausn á vandamálum skólakerfisins, heldur þvert á móti tekur völdin enn meira en orðið er úr höndum skjólastjórnenda að byggja upp skólastarf sem hentar aðstæðum á hverjum stað. Geir Ágústsson bloggar um sömu frétt, og lýsir m.a. hvernig hann var langt kominn í verkfræðinámi, og kenndi stærðfræði í hlutastarfi í menntaskóla (og kenndi þar við miklar vinsældir, hef ég fyrir satt). Hlutastarfið var alltaf í hættu því einstaklingur með íslenskumenntun og kennsluréttindi hafði kannski áhuga á djobbinu –þá hefði skólastjórnandanum ekki verið löglega stætt á öðru en að ráða “sérfræðinginn” til að kenna stærðfræðina, og sparka þeim sem bæði hafði kennsluhæfileikana og miklu meiri þekkingu á kennslusviðinu en skorti ríkisstimpilinn.  2. Það er algengt að fólk óttist að stéttaskipting verði í skólakerfinu ef markaðsfrelsi gildir á skólamarkaði. Það er hins vegar alrangt. Í fyrsta lagi þarf að líta á þá staðreynd að í raun eru allir íslendingar hálaunafólk. Venjuleg búðarblók í húsgagnaverslun, ómenntuð sölumanneskja, er með kaup í nágrenni við 300.000 kr –og það eru miklir peningar, sama hvernig á það er litið. Hins vegar er ekki mikið eftir af laununum þegar ríkið er búið að leggja á tekjuskatt, útsvar, og bætir um betur með virðisaukaskatti og tollum. Búðarblókin borgar nefnilega í skatta, gróflega áætlað, 171.000 kr mánaðarlega (tekjuskattur, útsvar, launatengd gjöld atvinnuveitanda, vsk og tollar af keyptri vöru og þjónustu). Skv. fjárlögum 2008 eru útgjöld til menntamálaráðuneytis um 37.750 milljónir, eða um 12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Í frumvarpi til fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2008 er “Menntasvið” borgarinnar að kosta um 14.460 milljónir, eða um 31% af útgjöldum borgarinnar.  Til einföldunar skulum við miða, mjög hóflega, við að um 16% af sköttum okkar fari í menntakerfið. Búðarlokan okkar er þá að borga mánaðarlega röskar 27.000 kr í skólakerfið, um 330.000 kr á ári, eða um 13,2 milljónir á 40 ára starfsævi Ef búðarblókin okkar á barn sem gengur í skóla í 20 ár, getur hún því, ef ríkið lætur hana í friði, haft efni á að borga RÖSKA MILLJÓN í skólagjöld hvert ár. Best er að ég endurtaki þetta, svo innprentist örugglega:ÓMENNTAÐUR STARFSMAÐUR Í ÞJÓNUSTUGREIN HEFÐI EFNI Á AÐ BORGA SKÓLAGJÖLD UPP Á RÖSKA MILLJÓN, EF RÍKI OG SVEITARFÉLÖG LÉTU VERA AÐ REKA SKÓLAKERFIÐ Á KOSTNAÐ SKATTBORGARA Hugsaðu þér, Katrín, hverskonar úrvalsþjónustu búðarlokan okkar myndi, með réttu, gera kröfu um fyrir þennan pening? Í skóla sem rekinn væri með hagkvæmum hætti væri fyrir þessa upphæð hægt að hafa heilt lið sérfræðinga til að laga lesblindu, vinna úr félagslegum vandamálum, nú eða veita gáfuðum börnum tækifæri til að njóta námshæfileika sinna til hins ýtrasta. Hugsaðu þér líka, Katrín, hvað kennarar væru að fá góð laun fyrir að kenna barni búðarlokunnar? Jafnvel þó að hver kennari væri ekki með nema 10 börn í sinni umsjá, gæti hann verið með um eða yfir 800.000 kr á mánuði! Við erum að tala um algjört blómaskeið fyrir alla.  Mundu líka, Katrín, að auðmenn hafa þegar mikið forskot á fátæklingana. Þeir hafa pening aukreitis til að kaupa sérfræðinga, aukakennara og námskeið handa börnunum sínum. Hið opinbera er búið að taka ákvörðun fyrir meðaltekjufólkið hvernig menntun barna þeirra á að vera háttað, og búið að taka af þeim pening fyrir rekstrinum. Fyrir vikið hefur meðaltekjufólkið ekki til ráðstöfunar þann pening sem það hefði annars haft til að borga fyrir þá menntun sem hentar þeirra barni best. Kannski myndu sumir foreldrar frekar halda að það væri betra fyrir barnið þeirra að verja meiri peningum og orku í lesblindumeðferð, en leggja minni pening í heimilisfræði –í frjálsum markaði gætu þeir tekið þessa ákvörðun, en í ríkisreknu skólakerfi hafa þeir ekki svigrúm til að veita barninu sínu þá menntun sem það þarf mest. Auðmennirnir hafa líka möguleika á að senda börnin sín í virta grunn- og framhaldsskóla erlendis. Venjulegt fólk gæti kannski haft efni á þeim valkosti, ef að ríkið væri ekki búið að taka af þeim pening og ráðstafa þeim í íslenska meðaljóns-menntakerfið.  3. Katrín hefur kannski áhyggjur af börnum öryrkja og aumingja í slíku kerfi, en þá ber að hafa í huga að á frjálsum menntamarkaði hefðu skólarnir svo mikið aflögu að þeir myndu líklega leggja metnað sinn í að veita skólastyrki til barna sem minna mega sín. Þeir sem væru ekki algjörir aumingjar, en hefðu samt ekki nóg til að borga menntun undir barnið sitt (sem hvaða ómenntaður verkamaður á þó að geta, hæglega), gætu einnig tekið lán fyrir náminu. Þeir myndu þá þurfa að taka um það ákvörðun hvort að hagkvæmt væri að barnið stundaði nám í dýrum skóla eða ekki. Það er jú staðreynd að sum börn hafa ekki mikið við langa bókmenntun að gera, og er hagkvæmasti kosturinn fyrir þau augljóslega að koma sér upp verklegri þekkingu og vinna fyrir sér í iðnaði eða einfaldri þjónustu.Ef foreldrarnir sæju möguleika á því að það væri fjárhagslega arðbært, myndi auðvitað liggja beinast við að taka lán fyrir skólagjöldunum. En svo er önnur leið fær: ávísanakerfið. Látum foreldra fá ávísun frá ríkinu fyrir menntun barnsins síns, sem þeir geta svo ráðstafað hjá þeim skóla þar sem þeir telja barninu best borgið. Það strax veitir skólunum að stóru leyti það aðhald sem fylgir frjálsum markaði, og þá um leið hvetur til hagkvæmni í rekstri og gæða í þjónustu. 3 1/2. Ég læt svo alveg vera að tala um þá paradís sem myndi ríkja ef hið opinbera hætti alveg að taka af okkur skatta. Búðarlokan sem ég nefnid hér fyrr hefði þá um TVÆR MILLJÓNIR á ári aukalega til ráðstöfunar, miðað við núverandi ástand. Fyrir þann pening gæti vinkona okkar aldeilis gert vel við barnið sitt, keypt allskyns sérþjónustu og dekur. 4. Þú nefnir dæmi um inntökupróf læknadeildar. Mundu að börn ríka fólksins höfðu áður fyrr efni á að vinna ekki með námi, og gátu því kannski varið meiri tíma í lesturinn fyrir miðsvetrarprófin. “Forskot” auðmannanna hefur því ekki aukist neitt með tilkomu inntökuprófa. Inntökuprófin hafa hins vegar örugglega verkað til að gera allan rekstur læknamenntunar hagkvæmari, bæði fyrir nemendur og skóla. Minni peningar fara í að kenna nemendum sem síðan flosna úr námi, og lélegri nemendur sóa ekki tíma sínum í nám sem þeir hafa ekki námshæfileikana til að klára. ...raunar held ég að það hafi hverfandi áhrif í þessu tilviki að þurfa ekki að vinna jafnmikið í sumarfríum. Mestu skiptir frekar að hafa lært vandlega í góðum menntaskóla.   Varðandi það sem Guðrún segir:Ég kalla það ekki ómálefnalegt að kalla fólk “kjána” eða “vitleysinga”. Þeir sem segja eitthvað sem er vit-laust eru jú vit-leysingar.  Að kalla menn “óheilbrigða”, “sorglega” og skerta veruleikaskyni eða vitsmunaþroska, hins vegar, eru mun grófari orð og ómálefnalegri.   B.Ed er grunngráða í háskóla, ekki sérfræðigráða. Umræddur kennari var afbragðsgóður gagnfræðakennari þó hann væri ekki með gráðu í neinu af því námsefni sem farið var yfir, hvað þá með meistaragráðu.   Og ég auglýsi svo eftir fleiri málefnalegum kommentum, og lofa að reyna að forðast langlokur í svörum eins og hér að ofan.

Promotor Fidei, 29.1.2008 kl. 02:47

10 Smámynd: Promotor Fidei

(léleg uppsetning skrifast á að pastað var úr word)

Promotor Fidei, 29.1.2008 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband