82. Fleiri fulltrúar sendir í "rannsóknarferðir" til Mið-Evrópu

Er minnið að bregðast mér, eða er ekki frekar stutt síðan heilu hjarðirnar af borgarfulltrúum fóru í bráðnauðsynlega rannsóknarferð í boði skattgreiðenda, um hásumar, að heimsækja ýmsar borgir Evrópu til að "kynna sér lestarsamgöngur"?

Hvernig var það? Komu engar niðurstöður úr þeim "rannsóknum", eða var of mikið slæpst á kaffihúsunum í blíðunni í Mið-Evrópu, eða of mikið verslað í ódýru búðunum sem við Íslendingar fáum bara að kynnast á ferðalögum?

Eða er þetta bara leikur, að varpa fram hugmyndum um "léttlestir" og Keflavíkurlínu, svona svo borgarfulltrúarnir fái sumarfrí í boði borgarbúa?

 

Jafnhuggulegt og það væri annars að hafa Reykjavík eins og Vínarborg, og samgöngur frá Reykjavík út í Keflavík jafngóðar og samgöngur frá Lundúnum til Heathrow -þá eru slíkar hugmyndir einfaldlega langt frá því að geta verið hagkvæmar.

Fyrir það fyrsta eru "léttlestar" ekki liprasti samgöngumátinn. Þú getur ekki breytt leiðakerfinu eftir að búið er að leggja teinana, og það fer mikið fyrir lestunum á götunum. Maður getur séð fyrir sér að ef að bílslys eða hálka gerir part úr brautarkerfinu ónothæfan, þá festist allt kerfið, því ekki geta "léttlestarnar" ekið í kringum fyrirstöðuna.

Ef einn vagninn bilar, þá stöðvar hann allt kerfið, og getur þar að auki valdið miklum tappa fyrir alla bílaumferð.

Þá myndi væntanlega þurfa alveg sérstakar lausnir (og þær ekki ódýrar) til að láta lestarnar fúnkera í íslensku veðurfari, svo að snjór og hliðarvindur geri þær ekki óbrúkanlegar.

 

Lest til Keflavíkur yrði rándýr lausn. Ef biðstöðvarnar í Reykjavík ættu að vera einhversstaðar nær miðbænum en við Rauðavatn myndi væntanlega þurfa að grafa ferlíkið niður í jörðu og leggja í stokkum niður í miðbæ.

Lest, hvort sem hún væri neðanjarðar eða ekki, myndi kosta tugi eða hundruðir milljarða, og leiðakerfið yrði líklega mun, mun gisnara en er nú með rútuferðum, því ekki eru nógu margir farþegar til staðar til að standa undir tíðari lestarferðum.

Keflvíkingar sjálfir myndu ekki nota lestina til að fara í bæinn til vinnu eða náms, enda svarar það ekki ávinningi af ferðalagi með hraðlest, að vera síðan bíllaus í Reykjavík, og háður ónothæfu strætókerfinu eða tveimur jafnfljótum, og það í öllu slabbinu, rokinu og viðbjóðnum.

 

Strætó og rútur eru því miklu mun hagkvæmari og skilvirkari valkostur í almenningssamgöngum innan höfuðborgarinnar og út í keflavik. Að vísu skortir strætó og rútu alla rómantík, en Miðevrópurómantíkin væri of dýru verði keypt, ef leggja ætti tugi og hundruðir milljarða í byggingu lestarkerfis.

Lausnin er að fella niður gjöld og skatta á bílum og bensíni. Þá getur hver sem er haft efni á að reka bíl, meira að segja öryrkjar og atvinnuleysingjar, og fátækir námsmenn. Þannig kemst fólk hraðast og þægilegast milli staða, og mun hagkvæmar.


mbl.is Vilja láta skoða möguleika á lestarsamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Kjartan Yasin

En ef allir bílar væru hráódýrir hvernig ættum við þá að borga fyrir öll vegamannvirkin? Kannski með himinháum vegasköttum? Þú hlýtur nú að samþykkja að með auknum fjölda bíla fylgir aukin umferð?

Ómar Kjartan Yasin, 21.2.2008 kl. 17:13

2 Smámynd: Promotor Fidei

Auknum fjölda bíla fylgir ekki endilega aukin umferð. Ef margir á heimili deila einum bíl er mikið um "skutl", en ef hver og einn á heimilinu hefur sína bifreið eru samgöngur mun skilvirkari.

Gefum okkur Jón og Gunnu sem eiga menntaskólanemann Nonna fyrir son. Gunna er heimavinnandi, og sýslast í ýmsu fyrir heimilið yfir daginn og þarf þess vegna að hafa bílinn til afnota. Í morgunsárið skutlar hún Nonna í skólann, og sækir hann aftur síðdegis. Hún þarf líka að skutla Jóni í vinnuna, og sækja hann aftur. Samtals fer hún fjórar ferðir á dag milli A-B vegna Jóns og fjórar ferðir milli A-C vegna Nonna.

Ef Nonni og Jón hefðu sinn eigin bíl væru farnar tvær ferðir milli AB og tvær milli AC. -Umferð minnkar því um helming, frekar en að aukast. Þá eykst skilvirkni, því Gunna getur notað tíma sinn í annað en að skutlast milli bæjarhluta, og hvorki Jón né Nonni lenda í því að þurfa að bíða eftir bílfarinu

Varðandi kostnaðinn af vegamannvirkjum: fyrir það fyrsta er dagljóst að skattar og gjöld af bílum og bensíni eru ekki að fara í byggingu vegamannvirkja -annars væru allar götur á íslandi lagðar gulli.

Þá væri sjálfsagt að standa straum af vegagerð með vegatollum, en í slíku kerfi er það tryggt að samgöngur eru bestar þar sem mest er þörf fyrir þær.

Í núverandi ofanstýrða samgöngukerfi hafa pólitíkusar hagsmuni af því að byggja óhagkvæma vegi um hvern dal og fjörð þar sem atkvæðavægið er hægstætt, á meðan samgöngubætur á þéttbýlissvæðum sitja á hakanum.

Í vegatollakerfi myndi líka kostnaðurinn af sliti vega leggjast á þá sem valda mesta slitinu, en það er vel þekkt að þungir bílar s.s. vöruflutningabílar gauðslíta malbikinu á meðan almenn umferð hefur varla nokkur áhrif. Í núverandi kerfi er hinn almenni bíleigandi því látinn borga kostnaðinn sem vöruflutningabílinn veldur -sem er bæði ósanngjarnt og óhagkvæmt.

Promotor Fidei, 21.2.2008 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband