Færsluflokkur: Bloggar
19.1.2008 | 18:54
69. Hækka verð, skekkja markaðinn og jafna ekki baun
Ef hið opinbera vill jafna tækifærin, þá er best að byrja á að lækka skatta.
Með lægri sköttum hefur einstaklingurinn meira afgangs, og getur ráðstafað peningum sínum þangað sem honum þykir hag sínum best borgið. Hér tekur ríkið launin af launafólki, og dreifir síðan til þeirra ávísun fyrir tómstundastarfi barna, því ríkið hefur tekið þá ákvörðun fyrir fólkið að hag barna þeirra sé þannig best borgið.
Ef foreldri heldur að barnið hafi betra af sérkennslu í stærðfræði, meiri meðferð hjá talmeinaþjálfara eða að betra væri að nota peninginn til að fara með barnið á heimilinu í tjaldferðalag um landið, kenna því um lífríki, náttúru og útivist auk þess að styrkja tengslin -þá hefur hann ekki lengur það val, því ríkið er búið að taka af honum peninginn og ákveða hvað á að gera við hann: það á að senda barnið á stofnun.
Krakkinn á að læra að sparka bolta með jafnréttisvottuðum boltasparkfræðingi með gráðu og skyndihjálparskírteini, en ekki að leika sér með pabba eða mömmu úti í garði, að reyna að skora í mark milli tveggja trjáhríslna.
Það sem meira er. Allir þeir sem selja tómstundaþjónustu fyrir börn og unglinga sjá sér leik á borði þegar þjónustan er niðurgreidd af ríkinu (og ekki halda að hún hafi ekki verið niðurgreidd fyrir). Frístundakortið skekkir verðlögmál framboðs og eftirspurnar, og geta seljendur hækkað verðið á þjónustunni sem nemur verði frístundakortsins, -verið með jafnmarga/jafnfáa viðskiptavini og áður en 25.000 kr hærri tekjur á hvern þátttakanda.
Þetta gerist, alveg örugglega en auðvitað ekki í einu vetfangi. Verðin hækka smátt og smátt, með allskyns afsökunum eins og hækkuðum launakostnaði og almennum verðhækkunum í samfélaginu. Forvitnilegt væri að bera saman verð á frístundastarfi barna eftir 2 ár, og fyrir 5 árum. Fyrr en varir verðum við föst í þeirri gildru að geta varla fellt niður afsláttarkortin, því almennt verð á þjónustunni verður orðið svo svimandi hátt.
Skoðum nú foreldra Gunnu sem senda hana bæði í pianótíma og fótboltaskóla. Hvert námskeið kostar 25.000 kr á vetri, samtals 50.000 kr. Aðrir foreldar senda börnin sín bara á eitt námskeið, enda eiga þau ekki undrabarn eins og Gunnu.
Nú sjá tónlistarskólinn og íþróttaskólinn sér leik á borði, og hækka verð á hverju námskeiði upp í 50.000 kr. -en flestir foreldrar halda áfram viðskiptum enda borga þeir beint úr eigin vasa sömu upphæð og þeir réðu við áður þegar virði frístundaávísunarinnar hefur verið dregið frá
Foreldrar Gunnu, hins vegar, borga nú 75.000 kr þegar upp er staðið fyrir námskeið dóttur sinnar. Það lítur því út fyrir að Gunna verði að hætta í öðru hvoru námskeiðinu, og það er alveg útilokað að hún fái að fara í reiðskóla í sumar enda engir peningar fyrir öðru námskeiði upp á 50.000 kr. -sem er leitt, því Gunna hefði orðið afbragðsgóður reiðmaður.
Hið opinbera er búið að taka ákvörðun, beint eða óbeint, um að börn þurfa ekki nema eitt námskeið. Undrabörn verða bara að bíta í það súra epli.
Þá er ónefnt að frístundaávísunin skekkir samkeppnisstöðu þeirra sem eru "partur af prógramminu" gagnvart þeim sem standa utan kerfisins. Ég leyfi mér að halda að frístundaávísunin gildi aðeins hjá þeim sem hafa gengið í gegnum skrifræðisfargan til að vera gjaldgengir í ávísanakerfinu, og að t.d. einstaklingar sem kenna hljóðfæraleik í heimahúsi, eða listaspírur með frumlega hugmynd að námskeiði geti ekki tekið við frístundakortinu. Og jafnvel ef þeir gætu tekið við því þá fylgir örugglega mikil skriffinnska að innleysa ávísunina, og ætla ég ekki einu sinni að reyna að ímynda mér hversu mikil skriffinnska hefur þegar farið í að útbúa og útdeila ávísununum hjá hinu opinbera.
Svo eru 25.000 kr. auðvitað smáaurar þegar skoðaðar eru þær fúlgur sem við borgum í ríkiskassann. Af launum einstaklings sem er með 300.000 kr í laun mánaðarlega eru um 158.000 kr að fara til hins opinbera -í hverjum mánuði, -helmingurinn tekinn úr vasa launþegans og helmingurinn úr vasa vinnuveitandans.
Til gamans má geta þess að hámarksbarnabætur með fyrsta barni hjóna eru 144.000 kr á ári, og hámarksvaxtabætur fyrir einstakling eru 179.000kr á ári. Á hverju ári erum við því að borga ríkinu 12 sinnum sömu upphæð og flestir skattborgarar bíða spenntir eftir að fá endurgreidda einu sinni á ári.
-Má svo auðvitað minna á að vaxtabætur ríkisins leiða í raun bara til hækkunar fasteignaverðs upp að mörkum framboðs og eftirspurnar, rétt eins og frístundakortin. Ávinningurinn er enginn fyrir hinn almenna borgara, en mestur fyrir seljendur.
En nú kynnu lesendur hnoðrabloggsins að spyrja: koma frístundakortin sér ekki best fyrir börn þeirra lægst launuðustu? Ekki hafa öryrkjar og búðarlokur í kjörbúð efni á að senda börnin sín í fimleika. Snýst þetta ekki um að hjálpa aumingjunum í stað þess að leyfa þeim að hjálpa sér sjálfir?
-Nei, ávísanirnar verða aðeins til þess að hækka verðið á þjónustunni, og fljótlega borga neytendur sömu upphæð úr eigin vasa fyrir námskeiðin. Frístundir barna verða þá eftir sem áður jafndýrar fyrir láglaunaforeldra.
Það veitir heldur ekki af að minna á að þeir lægst launuðustu borga minna hlutfall launa sinna í skatta, vegna frítekjumarksins. Hins vegar heldur frítekjumarkið, og há skattprósenta þeim lægst launuðustu í fátæktargildru.
Gefum okkur að búðablók sé með VR lágmarkslaunin 124.000 kr á mánuði (frá og með 1. jan 2007). Það gerir 775 kr á klukkustund. Hann borgar 13.000 kr í skatta (vinnuveitandinn borgar um 24.000 í skatta með starfsmanninum), og fær 110.617 útborgað.
Ef búðarlokan okkar á krakkaorm, og langar að kaupa handa barninu nýja skó, eru henni allar bjargir bannaðar, því fyrir hverja viðbótarklukkustund sem hún reynir að vinna tekur ríkið hartnær 40% til sín (og tekur raunar 54% til sín, ef hlutur vinnuveitandans er tekinn með). Hann þrælar sér þegar út á kassanum 160 klst í viku, og það hreinlega tekur því ekki fyrir langþreytta hræðuna að vinna fleiri klukkustundir en fá aðeins 490kr í vasann fyrir hverja stund.
Sama gildir um öryrkja og aðra foreldra á bótum -það borgar sig ekki fyrir þá að vinna, því ávinningurinn af hverri vinnustund er étinn til hálfs af ríkinu, og stundum gott betur því bætur fara að skerðast þegar vissum launum er náð.
Þetta fólk er fast í fátæktargildru, og getur ekki með nokkru móti unnið sig upp úr vandræðum sínum eða lifað sómasamlega. Þetta fólk er háð ölmusu ríkisins, og þarf að bíða í röð, með vottorð og kvittanir, og biðja starfsmenn hins opinbera vinsamlegast um peninga sem ekki duga fyrir nauðþurftum.
Ef skattar væru engir, hefði þetta fólk loksins ástæðu til og ávinning af að vinna, og vinna meira. Þau myndu ekki þurfa að reiða sig á ölmusu ríkisins, heldur gætu leitað aðstoðar vina og ættingja. Vinirnir og ættingjarnir sem væru svo heppnir að vera heilsuhraustir og vera með meðallaun á vinnumarkaði, væru nefnilega skyndilega orðnir aflögufærir um milljónir til að hjálpa sínum nánustu, eða gefa til góðgerðarsamtaka sem hjálpa ókunnugum nauðstöddum úti í bæ.
Til að hjálpa börnum láglaunaforeldra, jafna tækifæri þeirra eins og pólítíkusarnir segja, er því best að lækka skatta, frekar en að prenta út frístundakort.
Frístundakortin jafna tækifærin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2008 | 23:24
68. Hið opinbera rýrir lífsgæði okkar um 50-70%
Hnoðri dundaði sér í dag við að reikna hvað skattheimta hins opinbera er að kosta hinn venjulega launamann.
Þetta er það sem gerist þegar maður sofnar út frá Milton Friedman myndböndum á Youtube.
Hér að neðan er einfölduð samantekt, og eru viðkvæmir varaðir við enda lesningin svakaleg en engu að síður dagsönn.
Skattar á einstaklinga og fyrirtæki
Jón vinnur 160 klst í mánuði og er með 300.000 kr í laun fyrir skatt.
Ríkið tekur, þegar upp er staðið, 25% af laununum hans, og nokkur prósent fara í lífeyrissjóðina og orlof, svo hann fær um 212.000 kr útborgað, sem vill svo heppilega til að er ákkúrat sú upphæð sem hann þarf til að lifa af mánuðinn.
Ef ríkið tæki ekki af laununum hans, gæti hann unnið uþb 47 færri vinnustundir í mánuði. Það má hvort heldur sem er líta svo á að hann gæti tekið sér frí sex virka daga í mánuði, eða að hann sé að vinna fyrir ríkið rösklega eina viku hvers mánaðar.
Vinnuveitandinn borgar til ríkisins ýmis launatengd gjöld, sem nema að jafnaði um 20% ofan á launin. Vinnuveitandinn þarf einnig að borga tekjuskatt af hagnaði fyrirtækisins, miðum vði 18%, sem er tekjuskattur hlutafélaga (en ekki 26% semer tekjuskattur sameignarfélaga).
Gerum ráð fyrir að launatengd gjöld séu 60% af veltu, og hagnaður 10% af veltu. Ef ríkið tæki ekki þessi gjöld af atvinnuveitandanum gæti hann borgað starfsmanninum amk 360.000 kr í mánaðarlaun, og líklega farið upp í 370.000 kr en átt samt jafn mikinn hagnað eftir fyrir sjálfan sig af rekstrinum í lok mánaðarins.
Í því tilviki, til að fá 212.000 kr útborgaðar, til að lifa út mánuðinn, myndi launþeginn Jón ekki þurfa að vinna nema rétt rúmlega 91 klst á mánuði. Hann gæti því, ef ríkið léti reksturinn allan í friði, tekið sér frí næstum 9 vinnudaga í mánuði, eða næstum því tvær vinnuvikur, en haldið sömu lífsgæðum.
Það má líka líta svo á að ef ríkið léti alveg vera að skattleggja fyrirtækið og starfsmanninn, væri launþeginn að fá 370.000 útborgað í stað 212.000 kr. Það er raunlaunahækkun upp á 74,5%, sem getur ekki talist amalegt.
Skattar og gjöld á vörur
En gefum okkur að landsmenn hafi ekki gæfu til að kjósa yfir sig ráðamenn sem lækka skatta á launum og fyrirtækjum. Þá er kannski einhver von á að vöruskattar verði lækkaðir
Jón er eftir sem áður með 212.000 kr útborgað fyrir 160 klst vinnu, eða hérumbil 1.325 kr fyrir hverja klukkustund.
Nú ætlar Jón að kaupa sér erlendan ost, 500gr, sem kostar frá framleiðanda í Bandaríkjunum 200kr. Út úr búð þarf Jón að borga fyrir ostinn 567kr. Þar af eru 314kr að fara til ríkisins.
Jón þarf því að vinna fyrir ostinum 26 mínútur, en ekki 9 mínútur. 14 mínútur af þeim tíma sem Jón þarf að púla fyrir ostinum fara til ríkisins.
Jóni svíður undan hvað hann er skattpíndur, og ákveður að drekkja sorgum sínum. Hann kaupir sér vodkaflösku sem frá framleiðanda kostar 300kr, en kostar hjá ÁTVR 4.185 kr. Þar af fara 3875 kr beint til hins opinbera.
Jón er um 3:10 klst að vinna fyrir flöskunni, en ef ríkið léti vera að leggja álögur og skatta á sopann tæki það Jón ekki nema 13 mínútur að vinna fyrir sömu flösku.
Jón kaupir sér ágætan bíl, með 2,5 lítra vél. Frá framleiðanda í Bandaríkjunum kostar bíllinn 1.500.000 kr, en hjá bílaumboðinu í Reykjavík þarf Jón að borga 3.120.000 kr fyrir bílinn. -Ríkið fær þar af 1.140.000 kr. Jón þar að vinna sem svarar 15 mánuðum til að eiga fyrir bílnum. Ef ríkið léti hann í friði tæki það ekki nema 9 mánuði að vinna fyrir bílnum. Hann gæti því haldið sömu lífsgæðum, en tekið sér 6 mánaða frí til að aka um holt og hæðir á nýja kagganum, ef ríkið léti hann í friði.
Svo þarf Jón að kaupa bensín á bílinn. Þannig vill til að heimsmarkaðsverð á olíu er 50kr lítrinn, en á bensínstöðinni þarf Jón að borga 116 kr. Þar af fara 64 kr til ríkisins. Í stað þess að vera 20 mínútur að borga fyrir 10 bensínlítra, þarf Jón að strita í vinnunni í um 50 mínútur fyrir bensíninu.
Samanlögð áhrif skatta og gjalda á laun og vörur
Svo gerist það einn daginn, fyrir kraftaverk, að landsmenn fá nóg og átta sig á að þeir geta ráðstafað peningum sínum mun betur en hið opinbera. Alvöru frelsisflokkur kemst til valda og fellir niður skatta og gjöld.
Þá tekur Jón aldeilis gleði sína, því hann getur tekið sér tæplega 6 mánaða frí á hverju ári, og haldið sömu lífsgæðum.
Hann getur einnig litið svo á að hann er nú:
Tæpar 6 mínútur að vinna fyrir uppáhalds ostinum sínum, en ekki 26 mínútur eins og áður
Um 13 mínutur að vinna fyrir 10 lítrum af bensíni, en ekki 50 mínútur eins og áður
Tæpar 9 mínútur að vinna fyrir vodkapelanum, en ekki, 3:10 klst eins og áður.
Rétt rúmlega 5 mánuði að vinna fyrir draumabílnum, en ekki 15 mánuði eins og áður.
Í hnotskurn: álögur hins opinbera skerða lífsgæði okkar um í kringum 50-70%.
P.S:
Til að gera þessa hryllingssögu enn skelfilegri má ég til með að taka fram að ég tek ekki með í reikninginn erfðafjárskatt, skemmtanaskatt, skipulagsgjald, stimpilgjald, fasteignaskatt, gatnagerðargjöld, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, fjármagnstekjuskatt og ýmsar aðrar álögur.
Ég læt líka vera að reikna út barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta-kerfið. Bótakerfið er flókið og óaðgengilegt, enda tengt eignum, tekjum, fjölskyldugerð og fjölda barna, heill frumskógur. Gaman er þó að geta þess að hann Jón hérna að ofan, borgar af launum sínum á einum mánuði (beint, og líka óbeint gegnum vinnuveitanda) upphæð sem samsvarar uþb hámarksupphæð vaxtabóta fyrir einstakling á ári.
Svo læt ég líka vera að taka saman allar þær vinnu- og frístundir sem fara í að henda reiður á skattareglunum. Skatta- og bótakerfið er svo margflókið, að það tók mig drjúgan part úr degi að setja saman þetta litla skjal.
P.P.S.
Þetta eru allt alvöru tölur, og peningarnir sem ríkið tekur af okkur eru alvöru peningar, jafnvel þó þeir birtist okkur dagsdaglega bara sem tölur á kvittun eða launaseðli.
Í guðs bænum kjósið þetta af ykkur í næstu kosningum. Þvílík endemis skerðing á lífsgæðum sem þetta er.
P.P.P.S
Hvað er ríkið svo að láta okkur fá í staðinn fyrir það sem við borgum?
Ef við hefðum 75% meira útborgað í lok mánaðarins, hefðum við þá ekki efni á að borga fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu, laus við biðlista? (Eða er betra að þurfa að bíða mánuði og ár eftir aðgerð og sjúkrarúmi?)
Hefðum við ekki efni á að senda börnin í vandaða skóla þar sem þau fengu metnaðarfulla menntun? (Eða er betra að senda börnin í ríkis-skóla þar sem lægsti samnefnari er upphafinn, úrvalsbörn eru útundan og börn með vandamál vanrækt?)
Hefðum við ekki efni á að spara og fjárfesta eftir eigin höfði, til að eiga eitthvað til mögru daganna? (Eða er betra að láta peningana fara í band-bruðlandi lífeyrrissjóði sem við fáum ekki einusinni að velja sjálf?)
Hefðum við ekki svo mikið á milli handanna að við gætum rétt þeim ættingjum okkar og vinum hjálparhönd sem ekki geta séð um sig sjálfir? (Eða er þessu fólki betur borgið flækt í fátæktar- og niðurlægingargildru gallaðs bótakerfis?)
Kæri lesandi. Þínu fé er best borgið hjá þér sjálfum. Þú veist miklu betur en Ingibjörg, Geir, Steingrímur og Guðni hvað er þér fyrir bestu.
(Því miður get ég ekki hengt við skjöl og töflur yfir útreikningana, þar sem þau geta verið persónurekjanleg á þann sem samdi. Höfundi hnoðrabloggs þykir gott að vera nafnlaus. Útreikningarnir eiga samt allir að stemma, meira eða minna.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2008 | 19:13
67. Drepin til gamans
Hnoðri er dýravinur.
1. Gott skot í höfuðið getur drepið dýr hratt og nánast sársaukalaust. Páll Reynisson skýtur dýrin í lungun, svo þau drukkna í eigin blóði, drepast hægt og kveljast. Þetta gerir hann svo að hann geti látið stoppa upp hausinn á dýrinu og notað sem stofustáss. Á myndum má sjá Pál brosandi og stoltan yfir felldum dýrum, og vellur blóðið út um munn og nef.
2. Morgunblaðið, og nú 24 stundir, flytur trekk í trekk fréttir af dýrapyntingum þessa manns og hans líka. Mér þykir alltaf jafnundarlegt að virðulegur fréttamiðill skuli upphefja svona hegðun með gagnrýnislausri frétt þar sem dýrakvalaferðin er sett í búning ævintýralegrar ferðasögu.
3. Það boðar ekki gott ef menn eru skertir þeim hæfileika að hafa samúð með dýri, og fara ekki aðeins létt með að skjóta þau fimm skotum í kviðin þangað til þau drukkna í eigin blóði, heldur monta sig af því í blöðunum. Dýr á ekki að drepa nema rík nauðsyn sé til: að dýrið sé veikt, valdi hættu, eða þurfi að nýta það til matar. -Og þá á að drepa dýrið hratt og sársaukalaust. Allt annað er, ósköp einfaldlega, villimennska á mjög lágu plani.
4. Skora ég á dýravini að fordæma hetju-umfjöllun fjölmiðla um veiðiferðir Páls og hans líka. Bið ég lesendur hnoðrabloggsins að láta það alveg vera að heimsækja veiðisafn Páls, ef þeir eiga leið um Stokkseyri. Er hægt að gera margt betra við þúsundkallin en að styðja þennan mann fjárhagslega.
Veiddu tvo risavísunda í Minnesota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.12.2007 | 19:58
66. Aumingjakvóti kvenna
Að Glitnismenn skuli láta hafa það eftir sér að það sé "sjálfsagt mál að fylgja þessu".
Ekki myndi ég vilja vera kona í stjórn norsks fyrirtækis eftir áramót. -Norskar konur í stjórnum munu hér eftir alltaf vera með það merki á sér að hafa ekki fengið starfið í krafti eigin verðleika, heldur vegna einhverskonar "aumingjakvóta".
Greindar og hæfileikaríkar konur, þessi 6% sem áttu sæti í stjórnum norskra fyrirtækja áður en löggjafinn fór að skipta sér af, þurfa nú að sætta sig við að störf þeirra eru metin fyrst út frá kyni -síðan út frá hæfni.
Hversu mörg fyrirtæki ætli fari þá leið að bæta sætum í fullskipaða stjórn, og pota þar konum upp á punt til þess eins að uppfylla skilyrði lagana? Hversu margar fimm-manna stjórnir eru nú orðnar níu-manna, þar sem fjórar konur úr kompaníinu fá stjórnarsetutitillinn bara til skrauts, og fá ekki að hafa neitt að segja um rekstur fyrirtækisins. -Mikill sigur fyrir konur það.
Þegar norsk kona sækist eftir starfi á alþjóðlegum markaði eftirleiðis, verður það algjörlega marklaust fyrir hana að flagga því að hafa átt sæti í stjórn fyrirtækis.
Ekki myndi ég heldur vilja eiga norskt fyrirtæki í dag -þar sem löggjafinn meinar mér að ráða því sjálfur hvaða starfsmenn mér þykja hæfastir í hverja stöðu. Nú þyrfti ég að meina hæfari mönnum um stjórnarsetu, vegna þess að þeir eru ekki með réttu kynfærin. -Aldeilis jafnréttið.
Það sem blessaðir Norðmennirnir er að gera, jafn vel meinandi og þeir eru, er ekkert annað en að rústa faglegu orðspori hæfra kvenna, eyðileggja norska vinnumarkaðinn fyrir konum, og setja norsk fyrirtæki í spennitreyju.
Menn sem eru á móti mismunun, og hlynntir viðskiptafrelsi, geta ekki annað en kennt í brjósti um Norðmenn.
Kynjakvóti tekur gildi í Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2007 | 17:53
65. Og þetta lið er með kjarnorkuvopn
Það fyllir mann ekki beinlínis trausti, að fylgjast með fréttaskeytunum frá Pakistan þessa dagana.
-Fyrst á Bhutto að hafa verið skotin eða fengið í sig sprengjubrot, en svo kemur í ljós að hún rak höfuðið í bílþak og virðist sísvona hafa lognast út af. (je ræt!)
-Fréttirnar af höfuðhögginu koma eftir að fréttir berast af því að búið er að flytja Bhutto til heimabæjar síns, og meira að segja búið að koma henni ofan í jörðina og moka yfir.
-Fréttirnar berast löngu eftir að myndir og fréttir bárust af því að búið var að koma Bhutto fyrir í kistu og negla fyrir.
-Á fréttamyndunum sést hysterískur skarinn vælandi og kistan flýtur ofan á kraðakinu. Svo koma myndir af æstum lýð brjótandi, bramlandi og brennandi.
-Það er ekkert skipulag á málunum, hin "ægilega" herstjórn sem á að vera að kúga allt þarna virðist ekki hafa herafla á staðnum til að koma skikk og orden á hlutina.
Óregla, upplausn, öngþveiti.
Og þetta lið á kjarnorkuvopn -jedúddamía.
Lést af völdum höfuðhöggs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2007 | 16:54
64. Gleðilega Satúrnalíu
Hnoðri hefur gaman af jólunum enda ekkert nema hið besta mál að taka sér frí, háma í sig góðan mat og fá hellings glás af gjöfum. En þar sem Hnoðri er antíþeisti getur hann ekki með góðri samvisku sagt "Gleðileg jól" um þetta leyti árs enda um kristna kveðju að ræða -jafnvel þó að orðið jól sé upprunalega komið úr heiðnum sið og notað yfir miðsvetrarblót.
Blessunarlega eru þó jólin á íslandi ekki kennd við fæðingu Jesú Jósepssonar, eins og Christmas hjá enskumælandi og Navidad hjá spænskumælandi.
Nýlega fékk Hnoðralingurinn þá ágætu hugmynd að óska frekar gleðilegrar Satúrnalíu: Io Saturnalia!
Satúrnalía var miðsvetrarhátið rómversku goðatrúarinnar, og eins og nafnið gefur til kynna tileinkuð Satúrnusi. Hátíðin sjálf fór upphaflega fram 17 desember, en teygði úr sér og spannaði loks heila viku, allt til 23. desember, og var einhver vinsælasta hátíð rómverja.
Þarf varla að taka fram að kristna kirkjan hagræddi fæðingardegi "frelsarans" (eins og svo mörgu öðru) þannig að hann skyldi haldinn hátíðlegur um svipað leyti og Satúrnalía -þannig átti heiðingjalýðurinn, sæll og líbó, auðveldara með að tileinka sér kristna siði með sínum syndum og tabúum.
Í tilefni Satúrnaílu voru frí í skólum, fólk skiptist á gjöfum. Á Satúrnalíu var drukkið, étið og gleðin var við völd. Þrælar og frjálsir menn voru jafnokar á meðan á hátíðinni stóð.
Og eins og Wikipedia segir:
"It was also an opportunity for men to be completely free with their fellowmen, sometimes evolving into homosexual and sometimes also pedophilic relations."
Það verður ekki annað sagt en að Rómverjarnir hafi kunnað þetta!
Io Saturnalia!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2007 | 23:35
63. Af hverju fólk vill ekki leyfa unglingum að vera kynverur
Setti ég eftirfarandi kommennt inn á ágætt blogg Laizzes-Faire, og gott að halda því hér til haga:
Það er efni í langa útskýringu og flókna, af hverju sum samfélög hafa lagt við því bann, eða takmarkað verulega möguleika einstaklingar undir 18 ára aldri til að stunda kynlíf.
Má meðal annars leita í smiðju Freuds, sem benti á að samfélagið gerir vissar athafnir að tabúi sem allir vilja þó stunda (oft án þess jafnvel að gera sér grein fyrir að þeir vilja það). Þeir ganga yfirleitt harðast fram í að refsa og fordæma, sem mest vilja fremja verknaðinn sjálfir.
Nefna má nokkra fleiri faktora til skýringar: Foreldrum þykir ónotalegt að vita til þess að börnin þeirra séu ekki saklaus og óvitar um raunveruleika tilverunnar. Ónotatilfinningin er svipuð og vitundin um að foreldrar okkar eru kynverur. Við gerum okkur vissa mynd af vissu fólki, og iðulega er þessi mynd kynlaus og erfitt fyrir sálartetrið þegar þessi ímynd fær ekki staðist.
Lauslætisdrósin Jamie Spears er á aldur við fyrstabekking í menntaskóla og verður ekki 18 ára fyrr en í apríl á þarnæsta ári. Nú er hún orðin ólétt, og þá er vissara að horfa ekki lengur á þættina hennar, druslan á henni. Enginn heilvita karlmaður myndi vilja sænga hjá henni, með þennan spengilega kropp og seiðandi bros. Oijbara.
Við dýrkum æskuna og óttumst ellina. Í slíku umhverfi er von að þeir sem eru aldraðir og hrörnaðir reyni að hefta samkeppni um kynlíf, með því að fordæma kynlífsþátttöku þeirra ungu og blómlegu.
Við viljum öll kynlíf, en finnst við ekki fá nógu mikið af því. Til að bæta okkur upp tjónið leitumst við við að fordæma og niðurlægja þá sem fá kynlífið. Verandi þær smásálir sem við erum leitum við leiða til að klekkja á þeim sem hafa aðgang að meira kynlífi. Unglingar, í krafti æsku sinnar og blóma, eiga auðveldara með að laða að sér kynlífsfélaga, og liggur því við að refsa þeim eða rekkjunautum þeirra, kalla kynlíf þeirra ljótt og ósiðlegt.
Öll viljum við eiga kynlíf með ungum, hraustum og frjósömum einstaklingum. Þegar eldri einstaklingur, einn af okkur, er svo heppinn að laða til sín ungling sem rekkjunaut, þá fordæmum við hann til að reyna að friðþægja eigin vanmáttarkennd og öfund. Það helst einnig í hendur að um leið og æskan frjósöm heillar okkur og ellin hrum hræðir okkur, þá veldur það skekkju í sýn okkar á tilveruna þegar tveir einstaklingar láta ekki aldurinn flækjast fyrir sér. Þegar okkur þykir aðrir leika eftir öðrum leikreglum en við höfum samið okkur sjálf í kollinum, þá fyllumst við öfund og biturð, og fáum útrás með því að fordæma sambandið.
Halle Berry er útjöskuð, enda varð hún 41 árs í ágúst. Vei þeim pilti sem Halle myndi ná, í krafit þeirrar slægðar sem aldurinn hefur veitt henni, að ginna til sín til kynferðisathafna. Það væri aldeilis afbrigðilegt og ókristilegt, og hlýtur raunar flestum unglingspiltum að verða flökurt við tilhugsunina að sænga hjá svona gamalli kerlingu. Raunar ættu feður að hafa gætur á sonum sínum í kringum þetta flagð, því Halle er mikill "vögguræningi", og fær um þessar mundir kynferðislega útrás á kanadíska módelinu Gabriel Aubry sem er rétt nýorðinn 31 árs. Halle hefur því verið að klára menntaskóla um það leyti sem litla barnið Gabriel var að fara með foreldrum sínum á Neverending Story. Haldiði það sé?!
Trúarlegi vinkillin er svo kafli út af fyrir sig. Í gegnum söguna hafa undarlegustu kenningar og predikanir verið ofaná innan kristinna söfnuða, sem spanna allt frá því að fordæma samkynhneigð, smokkanotkun og kynlíf fyrir hjónaband, yfir í að gera getnaðinn sjálfan að synd. Bábiljur, innrætt og uppsöfnuð skömmusta ýmiskonar, öfund, löngun og ímyndun hafa tvinnast saman í sálartetrum ótal predikara í gegnum sögu hins vestræna heims, til að búa til stórundarlegar siðareglur úr öllu samhengi við náttúrulegt og heilbrigt eðli mannsins.
Í Bandaríkjunum hafa því miður margar þessara siðareglna ratað í lög, og gera þeir þarna vestra sér ekki grein fyrir að með því að dæma 17 ára stráka í 10 ára fangelsi fyrir að sænga hjá viljugri stelpu á sama reiki, þá eru þeir ekki nema einni skör frá Sádi-Aröbunum sem vilja hýða og fangelsa nauðgunarfórnarlambið, eða grýta til bana konuna sem verður ólétt utan hjónabands.
Sádi Arabarnir hafa það þó sér til afsökunar að vera upp til hópa óupplýstir, fátækir og bókstafstrúaðir. Kaninn á sér enga málsbót.
Bloggar | Breytt 23.12.2007 kl. 03:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 18:59
62. Helstu ástæður fyrir því að það er ömurlegt að búa á Íslandi
Í tilefni þess að dýrast er að búa á Íslandi:
1. Á Íslandi eru veður vitlaus, rok, kuldi, myrkur, og vosbúð mestallt árið. Þökk sé hnattrænni hlýnun má eiga von á stuttbuxnaveðri svona 2-3 daga á sumri, og lenda þeir alveg örugglega á virkum degi.
-Í öðrum löndum eru veður mild og blíð, sól og birta, og rétt yfir bláveturinn að væsi um rétt nóg til að ná í trefilinn úr skápnum
2. Á Íslandi eru skattar, tollar og gjöld svimandi há. Ríkið leggur 100% ofan á bíla, bensín, og flest það sem telst til lífsins lystisemda.
-Í öðrum löndum eru skattar lægri. Meðaltekjumaður getur hæglega keypt sér nýjan kagga og notið lífsins lystisemda dagsdaglega.
3. Þrátt fyrir svimandi háa skatta og opinber gjöld eru biðlistar í heilbrigðiskerfinu, fátækt í félagslega kerfinu, öryrkjar og aldraðir lifa upp til hópa eins og aumingjar.
-Í öðrum löndum er skattpeningunum þó varið í að byggja upp skilvirka heilbrigðisþjónustu og boðlega aðstoð við aldraða og öryrkja. Frakkland, Kanada, Danmörk, Noregur, Svíþjóð -virðast öll gera þetta mikið betur en við.
4. Skólabörnin læra minna en nokkru sinni í skólunum, og væntanlega leitun að grunnskólum í hinum siðaða heimi þar sem fólk fær minna fyrir peninginn.
-Í öðrum löndum er agi í skólum, og börnin læra. Og það kostar ekki formúgu.
5. Matur, vín og veitingastaðir eru svo dýr, að það er ekki nema á tyllidögum að maður bregður sér út að borða. Það þykir flottræfilsháttur á Íslandi að drekka kók í gleri. Þökk sé innflutningshömlum eru osta- og sælkerabúðir með álíka gott úrval og léleg sjoppa í úthverfi Mílanó.
-Í öðrum löndum fer venjulegt fjölskyldufólk út að borða oft í mánuði. Börnin læra matarmenningu og borðsiði. Hráskinkur, úrvalsostar, eðalvín og hnossgæti eru partur af daglegu mataræði.
6. Fasteignaverðið er orðið slíkt á höfuðborgarsvæðinu að venjulegt fólk hefur ekki efni á öðru en að kaupa sína fyrstu íbúð á Stokkseyri. Leigumarkaðurinn keppir við verðlagið í miðbæ New York og Lundúna.
-Í öðrum löndum er fasteignaverð jarðbundið, og leigumarkaðurinn aðgengilegur og normalt verðlagður.
7. Allar byggðir á Íslandi eru ljótar og niðurdrepandi, og því ljótari sem meira hefur verið byggt. Ljótast er auðvitað höfuðborgarsvæðið, það sem telja mætti virkilega fagurfræðilega gleðjandi byggingar og götumyndir á fingrum annarrar handar.
-Í öðrum borgum eru falleg hús, heillandi götumyndir og nærandi manngert umhverfi.
8. Á Íslandi býr lítið fólk, hentikristnir móralistar, feminískar undirlægjur, hagkaupsbæklinga úthverfapakk, sem hlustar á Zúúber, flykkist í hjörðum í verslunarmiðstöðvarnar í alveg hreint hamslausu og stefnulausu eyðslufylleríi. Þegar klámframleiðendur vilja halda smá viðskiptafund verður allt vitlaust og mannréttindi brotin á saklausu fólki, en þegar harðsvíraðir vopnaframleiðendur þinga hérna heyrist ekki píp.
Þetta lið vinnur 55 klukkustundir á viku og um helgar fer blessað fólkið svo niður í bæ, dópar sig upp og tuskast, ælir og mígur, og hefur svona álíka mikla sivilisasjón á næturlífs- og vínmenningunni og forhertustu togarasjómenn í Múrmannsk.
-Í öðrum löndum hefur fólk réttar áherslur í lífinu, og kann að lifa því.
9. Og öllum virðist vera sama. Því Ísland á að vera svo frábært og yndislegt. Húrra fyrir ári kartöflunnar og Reykjavik Energy Invest!
Dýrast að búa á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2007 | 17:55
61. Þröngsýnt lítið fólk
Mikið ósköp er þetta lítið fólk, sem getur ekki afborið að vera með bílnúmer sem raðast á þennan eða hinn veginn.
Þetta vitnar um þrögnsýni og smáborgarahátt, að geta ómögulega unað við að númeraplatan raðist GAY eða HIV eða HYR. Er þetta lið með svo lágt sjálfsmat, að það getur ekki hrist af sér skotin frá hinum smásálunum?
Er þetta fólk ekki búið að taka út félagslegan þroska eftir að grunnskóla sleppti?
Og mikið ósköp skína fordómarnir í gegn. Þetta er þá liðið sem á tyllidögum "hefur ekkert á móti hommum" eða "hefur fullan skilning á aðstöðu HIV-sjúkra", en getur engan veginn afborið að handahófsröðuð númeraplata sé á bílnum, -þvi hún gefur svo mikið í skyn.
Hvað svo? Hvaða karlpungur fer síðan í kleinu yfir að fá bílnúmerið KVK, DIS, EVA, UNA, ROS? -fólk gæti haldið að hann vær keddling! Hver fer svo að kveinka sér yfir STD (fólk heldur að ég sé með kynsjúkdóm!), KKK (fólk heldur að ég sé í klaninu!), XXX (fólk heldur áð ég sé klámhundur!), KUK (fólk heldur að ég sé að kúkur!), PIS (hann Mulli á dekkjaverkstæðinu kallaði mig pissúdúkku!), RUM (fók heldur að ég sé alki!), POT (fólk heldur að ég reyki hass!) ... osfrv.
Smásálir. Pakk.
-En svei mér, ef ég hef ekki fengið hugljómun. Ef fólk kann ekki nógu vel við HIV eða GAY, þá er sjálfsagt að skipta út plötunni fyrir eitthvað meira viðeigandi, og byrja á stafaröðinni FOL.
Blátt bann við dónalegum bílnúmerum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.12.2007 | 17:33
60. Góð við dýrin
Á ágætu bloggi sínu fjallar hinn áhugaverði kapítalisti Laissez-Faire um skynjun dýra og réttmæti pyntinga á þeim.
Setti ég þessa athugasemd við færslu hans:
Að því ég best fæ skilið lukkaðist vísindamönnunum að fjarlæga lyktarskyn músarinnar, eða alltént gera hana ónæma fyrir ákveðinni tegund lyktar, svo lyktin af rándýri vakti ekki hjá henni óttaviðbrögð.
Mér þykir full-langsótt að draga af þessu þá ályktun að dýr séu ekki meðvitaðar verur.
LF nefnir fjögur skilyrði fyrir því að lífvera teljist meðvituð: i) gera sér grein fyrir að hún er á lífi ii) gera sér grein fyrir að hún hafi verið á lífi iii) óttast dauðann iv) gera sér grein fyrir endanleika dauðans.
Það held ég að mörg okkar dagsdaglega skiljum ekki til fullnustu "tilveru tilveru okkar", og endanleika dauðans (Annars myndum við ekki horfa á "Tekinn" og spila Bubbles á leikjanet.is). Börn, á fyrstu þroskaskeiðum, gera sér litla grein fyrir eigin tilveru og dauðleika. Sumt fólk, sökum vanlíðunar eða andlegrar uppljómunar af einhverjum toga óttast ekki dauðann.
-Með röksemdafærslu LF mætti því leiða af þessu að pyntingar væru leyfilegar á sumu fólki, allt frá ungabörnum til strangtrúaðra sem halda að þeirra bíði framhaldslíf.
Hvort það var Smith, sem fjallaði um illa meðferð á dýrum. Hann benti á [að umræðu um meðvitund slepptri], að mörg dýr sýna mannlega eiginleika: væntumþykju, ótta, tryggð, vináttu, samúð, ást og hatur. Í útliti sýna þau einnig mannlega þætti, og hafa t.d. fræðimenn bent á að hrifning okkar af hvolpum, og kettlingum, og öllu sem er búttað og með stór augu skýrist m.a. af því að slík dýr deila útlitseinkennum og hlutföllum með ungabörnum -sem heilbrigðu fólki á víst að vera líffræðilega innrætt að vernda og hrífast af.
Alltént, vildi Smith meina að ill meðferð við dýr, sem sýnir þessi mannlegu einkenni, sé undanfari illrar meðferðar við mannfólk. Sá sem keyrir múlasnann sinn áfram með priki, er aðeins einu skrefi frá að berja börnin sín með sama prikinu.
Og flestu andlega heilbrigðu fólki þykir væntanlega rangt að sýna öðrum manneskjum illa meðferð.
Ég er hins vegar ekki á þeirri skoðun að banna eigi prófanir á dýrum, en slíkar prófanir verða að vera háðar mjög ströngum skilyrðum um framkvæmd og þörf. Dýr á ekki að þurfa að þjást nema mjög mikilvægir hagsmunir séu í húfi, og ekki séu aðrar leiðir færar. Á þá að gæta þess mjög vandlega að dýrið þjáist sem minnst og styst.
Mikið er um óþarfar prófanir á dýrum, og oft eru framleiðendur lyfja og snyrtivara að spara sér tíma og pening með einföldum og ódýrum dýratilraunum, þegar hægt væri að rannsaka öryggi vöru með öðrum hætti en kostnaðarsamari.
Fyrir mitt leyti þætti mér gott að öll vara sem ég kaupi sé vottuð um hvort, og þá með hvaða hætti dýr voru notuð við prófun vörunnar. Þannig gæti ég tekið upplýsta ákvörðun um t.d. hvaða lyf og snyrtivörur ég kaupi. og þannig beint fjármunum mínum frekar til þeirra sem stunda mannúðlega framleiðslu og rannsóknir.
Varðandi handtökur og dóma fyrir illa meðferð á dýrum: ég held að þar væri við hæfi að leggja meiri áherslu á geðræna meðferð. Það hafa rannsóknir sýnt að ill meðferð við dýr er oftar en ekki merki um andlega örðugleika. Frægt er að margir, ef ekki allir, trylltustu raðmorðingjar sögunnar voru duglegir að pinta og drepa dýr í barnæsku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)