Færsluflokkur: Bloggar

30. Ekki örvænta. Hún lækkar alltaf á haustin (með línuriti!)

Það er vel skiljanlegt ef lesendum Mbl.is svelgist á hádegismatnum þegar æsilegar fréttir berast af veikingu krónunnar um 12,6% á einum mánuði.

Nú er Hnoðri bara frístunda-hagfræðingur, en hefur þó fyrir löngu komið auga á þá staðreynd að íslenska krónan tekur breytingum eftir árstíðum, og gengishækkunin kemur og fer rétt eins og farfuglarnir.

Hnoðri ætti auðvitað að halda þessum upplýsingum fyrir sig, til að valda ekki titringi á markaði, en einhversstaðar verður það þó að koma fram að undanfarin 5 ár hefur gengi dollars gagnvart krónu tekið að hækka um júlí-ágúst-september og lækkað að nýju 2-3-4 mánuðum síðar.

Þar sem Hnoðri er ekki enn útlærður í göldrum hagfræðinnar getur hann ekki sagt svo glatt til um hvað veldur þessum skýru árstíðasveiflum, en líklegir sökudólgar eru í huga Hnoðra a) skýrslur Hafró um þetta leyti árs b) hallærisleg fjármálastjórn hins opinbera c) pólitíkusar og bankagaurar eru að koma úr sumarleyfum um þetta leyti árs og leiðist í vinnunni.

Meðfylgjandi er svo lítið graf, yfir þróun dollars gagnvart krónu frá janúar 2002, sem sem sýnir árstíðasveiflurnar á ótrúlega skýran hátt.

Til glöggvunar er sett rauð ör á kúfinn, sem lendir á línu sem dreginn er milli júlí og október ár hvert, og broskarl þegar dollarinn er hvað hagstæðastur gagnvart krónu, iðulega um og eftir apríl hvert ár.

Svo er spurning hvort Hnoðri fær ekki starf hjá einhverri greiningardeildinni fyrir framtakið?

dollarkrona0207


mbl.is Krónan hefur veikst um 12,6% á tæpum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

29. Leitun að ljótari reiðfatnaði

Klæðilegur reiðfatnaðurEr ég einn um það að þykja keppnisbúningur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum alveg hreint afspyrnu ljótur?

Ég er ekki frá því að búningurinn hafi fyrst litið dagsins ljós í byrjun 8. áratugarins, því skelfilega tímabili í tískusögu heimsins. Þeir hafa eflaust þótt æðislega smart í þessum búningum á sínum tíma, með sítt að aftan og axlarpúða.

En í dag minna reiðmenn uppdressaðir í þennan klæðnað meira á Kaptein Ísland (sælla minninga) en tignarlega hestamenn.

 

Það er bara ekki töff að vera í fatnaði í fánalitunum, -sérstaklega þegar um er að ræða íslensku fánalitina. Ég held að enginn geti brugðið sér í þennan búning og kinnroðalaust kallað sig myndarlegan.

 

Hér fylgja með tvö sýnishorn af miklu klæðilegri reiðfatnaði: annars vegar ósköp hefðubndinn reiðfatnaður skv. breskri hefð, og hins vegar póló kempa í fullum skrúða.

 

 

Riðið með reisn


mbl.is Heimsmeistaramót íslenska hestsins sett í hellirigningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

28. Best að fara að kaupa gullplötur

Tilraunir til að koma á peningalausu hagkerfi munu ekki takast svo lengi sem til er fólk eins og Hnoðri, sem vill vernda friðhelgi einkalífsins og efla frelsi á markaði.

 

Alltaf mun vera eftirspurn eftir óformlegum/órekjanlegum greiðslum hjá vissum hlutum hagkerfisins. Og það er gott, því formleg og rekjanleg viðskipti eru einkum til þess ætluð að ríkið skipti sér af því sem því kemur ekki við með skattlagningu, neyslustýringu og tilheyrandi.

Reiðuféð, "svartar greiðslur" og allt það, veita ríkinu aðhald, ef eitthvað er og eru öryggisventill þegar hið opinbera lætur sér detta í hug að skattpína borgarana úr öllu hófi.

Reiðuféð veitir bönkunum líka aðhald. Ef þeir væru ekki í samkeppni við reiðuféð er ekkert sem hindrar bankana í að skrúfa þjónustu og afgreiðslugjöld vegna debetkorta upp fyrir öll velsæmismörk.

 

Og ef ríkið hættir að prenta seðla, þá finnur almenningur bara aðrar leiðir til að versla "undir radar", rétt eins og gerist hjá þjóðum þar sem gjaldmiðillinn hættir að vera áreiðanlegur. Einfaldasta lausnin væri líklega að kaupa erlenda seðla, eins og dollar eða evru, ellegar nota góðmálma á borð við gull eða silfur til að versla. -Gullið er alveg jafnraunhæfur gjaldmiðill nú og fyrir 200 árum.

 

Það má svo fljóta með að Hnoðri reynir að sneiða hjá því að nota kortin sín, og frekar að versla með reiðufé. Það auðveldar stórlega yfirsýn yfir einkaneysluna að sjá seðlana hverfa úr veskinu, og gerir upphæðirnar "áþreifanlegri" að telja peningana og rétta þá búðarkarlinum.

Þetta gerir Hnoðra ósköp hallærislegan í augum margra samborgara sinna. Það þykir lummó á Íslandi að telja peningana sína, en flott að henda kortinu í allar áttir og helst án þess að skoða hvaða upphæð er á kassakvittuninni.

Íslendingar eru raunar fífl þegar kemur að peningum (taki þeir til sín...). Þeir eru eins og sauðir þegar kemur að því að leita að hagstæðum kaupum, þeir skuldsetja sig upp fyrir eyrnasnepla án þess að hafa nokkurn skilning á kjörunum sem fylgja láninu. Og auðvitað er lþað rétt sem bankastjórnarnir segja: að land byggt slíkum peningakjánum er kjörið til að koma á peningalausu hagkerfi.


mbl.is Peningalaust hagkerfi eftir 15 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

27. Frekar póker en spilakassa

Hnoðri kann ósköp illa við hverskonar fjárhættuspil, en vill samt leyfa samborgurum sínum að njóta frelsisins til að vera nógu vitlausir til að sólunda eigin peningum eins og þá lystir

 

Það er verst að það kemur sér ekkert sérstaklega vel fyrir hagkerfið að leyfa fjárhættuspil: það verður ekki til nein framleiðsla eða menning í spilasölunum -heldur eru peningar bara færðir úr einum vasa í annan og fólk sóar tíma sínum í fíkn og framleiðsluleysi. Það væri þá betra fyrir hagkerfið ef peningunum væri frekar sóað í varning á borð við hraðskreiða bíla, góðan mat, dýr vín, ferðalög á framandi slóðir eða hvaðeina annað sem veitir fólki lífsfyllingu og upplifun.

 

En óhætt er að segja að ef menn ætla að veðja á annað borð, þá er stigsmunur á veðmálum í spilakassa og veðmálum í almennilegum spilavítisleik á borð við póker. Spilakassar eru og verða alltaf lágkúra og fíkn, þar sem [iðulega] neðstu og aumustu lög þjóðfélagsins láta glepjast til að sitja í trans, ýta á takka á litríkum skjá og bíða eftir að tilviljun færi þeim smá sigur, með klinkhljóði og melódíu.

Við pókerborðið myndast þó mannlíf! Þar er líka ekki aðeins hægt að stóla á heppnina, heldur þarf að tileinka sér hæfileika og rökhugsun, og þroska einhverjar hliðar sjálfsins. Þar er maður manns gaman.

Pókerleikirnir hafa það einnig fram yfir spilakassanna að vera ekki framan í fólki á öllum strætóstoppistöðvum og í horninu á hverjum bar og sjoppu. Til að spila póker þarf bæði tilefni og félagsskap, og skemmir ekki fyrir að panta sér varning með leiknum eins og eina bjórkrús og snarl úr eldhúsinu.

Best af öllu er þó að við fimm manna pókerborð má ætla að amk einn hreyfi við mótmælum þegar amma gamla öryrki ætlar að spreða öllum lífeyrinum sínum í leikinn. -Það er engin siðferðisfítus til staðar á spilakössunum.

 


mbl.is Segir lögreglu ekki hafa mál í höndunum vegna pókermóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

26. Já, okkur er ekki treystandi

Þau eru ósköp léleg rökin, sem talin eru til í frétt Mbl.is um verðlagið á áfenginu.

Jú, rónarnir munu kannski drekka meira af vodka, en þeir láta þá væntanlega vanilludropana og landann í friði á meðan.

Hvers vegna eigum við hin, sem viljum neyta víns í hófi, með mat og í góðra vina hópi, að gjalda þess að sumir kunna ekki að fara með áfengi? Hvað bönnum við næst, sem er gott, en sumir okkar kunna ekki að neyta í hófi?

Það er gott að neyta víns, raunar ein af lífsins klassískustu nautnum, og skelfing hallærislegt að banna fólki að njóta lífsins vegna þess að sumir kunna sér ekki hóf.

 

Yfirlæknir SÁÁ segir að ef verð myndi lækka myndu alkóhólistar verða veikari. -Bíddu nú við, láta menn með fíkn það stöðva sig að drekka þó verðið sé hátt? Drekkur ekki alkóhólistinn frá sér allt vit hvort eð er? Er þá ekki betra að alkóhólið kosti ekki svo mikið að fylleríið setji ekki fjölskylduna alla á vonarvöl?

Yfirlæknirinn heldur því líka fram að slys og óhöpp muni aukast, og ölvun við akstur og kostnaður við löggæslu og lækningar vera svakalegur. Það held ég sé ekki von á að allt fari á annan endann þó vínverðið verði hér eins og það er á meginlandi Evrópu, þó eflaust megi greina einhverja "aukningu" á hinu og þessu í kjölfarið. Og leyfum þá þeim sem ekki kunna að fara með vínið að lenda í slysunum. Af hverju eigum við hin að gjalda fyrir það að sumir geta ekki sjálfum sér ráðið?

Leyfum fólki að stýra sjálft eigin neyslu. Mælum svo í leiðinni hvort að verður ekki aukning á ánægjuvoginni, þegar almenningur fær að gera vel við sig í víni dagsdaglega.


mbl.is „Aukin neysla og heilsutjón afleiðingar lægra áfengisverðs"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

25. Vissara að hafa lesefni, til að leiðast ekki biðin

Við sama tækifæri og Mbl.is flytur fréttir af "fjölgun ferða í haust" (þeas. að skipt verður yfir á vetrartíðni!), berast fregnir af könnun þar sem í ljós kemur að þeir sem taka strætó eru um helmingi lengur að komast milli staða en þeir sem fara á einkabíl.

Meðalferð á höfuðborgarsvæðinu til vinnu eða skóla er á bilinu 11 til 15 mínútur, en þegar strætó er tekin er meðalferðin orðin 25 mínutur eða þar um bil.

Hnoðri fékk að reyna það á eigin skinni á sínum tíma hvað það er skitið að stóla á almenningssamgöngur þegar búið er í hafnarfirðinum en unnið í Reykjavík. Á virkum degi gat ferðin niður í miðbæ hæglega tekið 45 mínútur, og um helgar hálfa aðra klukkustund (!).

 

Þetta er auðvitað bilun! Og eins og við er að búast eru borgar- og bæjarstjórnir alltaf jafn vitlausar, og halda að fólk fáist til að nota handónýtt kerfi þegar biðstöðvarnar fá nafn. -Það sem vantar er að strætó komi fólki hratt og greitt, og án mikillar biðar milli staða.

 

Það er gaman að reyna að reikna út hvað hægagangurinn í kerfinu kostar, og reyna að hengja verðmiða á óþægindin:

Að aka bíl úr Hafnarfirði niður að Lækjartorgi tekur um 15 mínútur í venjulegri umferð. Að taka strætó sömu leið hæglega 45 mínútur eisn og fyrr var getið. Það fara því lauslega reiknað 60 mínútur til spillis hvern dag hjá Hafnfirðingi, þegar ferðast er með strætó.

Ætli megi ekki verðleggja klukkustundina á 1.000 kr, ef við lítum til meðaltekna í lægri stigum þjóðfélagsins. Margfaldað með 30 dögum mánaðarins eru því óþægindin við það að taka strætó að kosta um 30.000 kr hvern almanaksmánuð.

...svo bætist fargjaldið við.

Svo merkilega vill til að 30.000 kr er afborgunin af 2.200.000 kr bíl, með fjármögnun hjá Glitni til 72 mánaða.

 

Þetta er auðvitað einfaldað dæmi. Að reka bíl kostar skelfing mikið þegar við bætast tryggingar, bensín og viðhald, en það gefur augaleið að fólk með frekar lágar tekjur hefur efni á að borga sig undan þeim hrikalegu óþægindum sem fylgja því að taka strætó -og fólk með íslenskar meðaltekjur hefur nákvæmlega enga ástæðu til að segja skilið við einkabílinn.

Á meðan halda kjörnir fulltrúar í borgar- og bæjarstjórnum að eyða skattpeningunum okkar í úrræði sem aldrei eiga eftir að virka. Ef þeim væri í raun annt um hag borgara, þá myndu bæjar- og borgarstjórnir berjast fyrir því að 40% innflutningstollar og 25% virðisaukaskattur yrði felldur af bílum, og felldir við sama tækifæri bensínskattar og -tollarnir sem valda því að eldsneytið kostar hér á landi þrefalt það sem gerist vestanhafs.

(Þá gætum við hæglega lagt niður strætókerfið, og lækkað útsvarið í samræmi)

Samgönguvandinn á höfuðborgarsvæðinu felst einkum í því skattokri sem er á öllu sem við kemur einkabílnum.


mbl.is Með blaðið og kaffibollann í strætó í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

24. Leiðinlega Ísland

Það er merkilegt hvað þjóðinni hefur tekist að semja leiðinleg lög yfir sjálfa sig.

Þessi sárafáu sumarkvöld sem að hundi er út sigandi má fólk ekki njóta þess að sötra knæpu-bjórinn sinn úti á stétt.

Það veitir ekki af áberandi umræðu um þessi mál, og að við endurskoðum aðeins húsreglurnar sem við höfum sett okkur sjálfum. Vistin er að verða svo drepleiðileg á skerinu að það nær engri átt.

 


mbl.is Bannað að taka drykki með sér út af veitingastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

23. Kunna ekki að skammast sín

Leiðinlegar fréttir berast af vopnasölu Bandaríkjanna til lykilvelda í Mið-Austurlöndum.

Þetta eru samningar upp á margmilljarða bandaríkjadala hver, sem á íslensku myndi útleggjast mörghundruð milljarðar króna.

Og viðskiptavinirnir eru lönd þar sem þorri fólks býr við sára fátækt. Í ofanálag þverbrjóta ríkisstjórnirnar á mannréttindum þegnanna, og beita þá gjarna fyrir sig lögreglu og her, gráum fyrir járnum sem einmitt voru keypt frá Bandaríkjunum.

Þetta er diplómatík sem er ovaxin skilningi venjulegs fólks.


mbl.is Bandaríkin útvega bandamönnum sínum vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22. Takmarkalaus frekja, sem ekki á einsuinni að taka til umfjöllunar

Það þarf alveg einstakan hugsunarhátt til að láta sér yfir höfuð detta í hug að eyða að lágmarki 52 milljörðum til að byggja göng til 4000 sveitalubba úti á eyju.

Og svo kveinka béskotans frekjurnar sér yfir því að ríkið skuli ekki vilja leggja í framkvæmd sem kostar heilar 13 milljónir á hvert mannsbarn í Eyjum -eða um 52 milljónir á fjögurra manna fjölskyldu. (Ódýrara væri að kaupa einkaflugvél á hvert heimili!)

Að þetta lið skuli ekki skammast sín! En nei, það er ekki siður landsbyggðarpólitíkusa að sjá eigin heimabyggðir í réttu ljósi: sem lítil iðnaðarþorp upp á nokkrar hræður. Óskalistinn, sem iðulega er borinn fram með miklu nöldri, kveini og sjálfumgleði, er slíkur að halda mætti að hvert einasta krummaskuð á landinu sé einstök heimsborg, sem þarf sín jarðgöng, sitt íþróttahús og keppnissundlaug.

Að sumar af þessum óskum skuli yfir höfuð teknar til umfjöllunar er alveg hreint forkastanlegt. Að samgönguráðuneytið hafi eytt skattpeningum landsmanna í skýrslu um raunhæfi vestmannaeyjaganga er til háborinnar skammar. Hvaða vitleysu verða sérfræðingar næst fengnir til að meta?

 

Að pólitíkusar í Eyjum skuli hafa verið nógu forhertir til að bera upp jarðgangahugmyndina er til marks um hamslausa frekju og sérhagsmunapot. Að ráðuneyti skuli eyða peningum í skýrslur um málið er til marks um dæmalausa sóun á skattpeningum. Að fjölmiðlar skuli yfir höfuð eyða einum einasta staf í að fjala um þessa vitleysu er með endemum.

-Og hvað gerist svo? Jú, ráðuneytið lofar að fjölga ferðum Herjólfs, byggja nýja höfn, og kaupa nýjan Herjólf. Landsbyggðarfrekjurnar læra það af þessu ævintýri að ef þeir setja fram nógu andskoti forkastanlegar kröfur, þá fá þeir amk eitthvað, og þá líklega meira en þeir sem setja fram yfirvegaðar og raunhæfar óskir.

Ef landsbyggðastjórnmálin á Íslandi væru barnafafmæli, þá væri samgönguráðuneytið mamman sem eltist og veltist við að blíðka frekjuna sem grenjar mest, og aldrei fær nóg. Ef hnoðri fengi að ráða einhverju í afmælinu, þá væri frekjunum hent öfugum út, því frekjur verða hvort sem er aldrei ánægðar með það sem þær fá, og skemma fyrir prúðu börnunum ef eitthvað er.


mbl.is Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

21. En ef við hefðum efni á að leysa vandann sjálf?

Fregnir á Mbl.is af dætrum sem hafa miklar áhyggjur af veikum útigangsmanninum föður þeirra hafa vakið upp gamlar hugrenningar hjá gamla frjálshyggjuskúnkinum Hnoðra.

Íslendingar eru skattpíndir, en sætta sig við píninguna flestir hverjir vegna þess að peningarnir eiga að fara í að veita börnum landsins góða menntun, veita sjúkum bestu mögulega aðhlynningu, og aðstoð þeim sem ekki geta sjálfum sér bjargað.'

Hugmyndin er göfug, en reglulega berast okkur fréttir af því að kerfið hafi brugðist: það vantar sjúkrapláss, sjúklingum er illa sinnt, öryrkjar og fatlaðir lifa við skort, og vandræðabörn falla milli þilja í skólakerfinu.

Þá fór Hnoðri að hugsa með sér, hvort nokkuð væri lengur þörf fyrir þetta skandinavíska sósjalmódel á Íslandi.

-Jú, sjáum til: Ísland er nefnilega svo lítið samfélag, aðeins 300.000 hræður. Öll búum við að frændgarði -neti skyldmenna og vina sem láta sér annt um okkar hag. En því miður geta þessir aðilar sem tengjast okkur félagslega iðulega ekki komið okkur til hjálpar þegar eitthvað fer úrskeiðis, einfaldlega vegna þess að það er ekki nóg eftir af launaseðlinum þegar ríkið hefur tekið sitt.

Það held ég svei mér að við værum aflögufær til að hjálpa þeim sem okkur þykir vænt um, ef hið opinbera tæki ekki til sín 38% af launum, og hvað þá ef ekki væri lagt ofan á vöruverð allt að 24,5% söluskattur, svo ekki sé minnst á innflutningstolla og gjöld sem spanna allt frá að bæta við nokkrum prósentum upp í að margfalda verð vörunnar.

Ef hið opinbera tæki ekki til sín svona stóran skerf, þá myndi venjuleg íslensk meðallaunafjölskylda hæglega hafa til ráðstöfunar 1-2 milljónir króna aukalega hvert ár. Það held ég aldeilis að hægt væri að kaupa mikla þjónustu fyrir þann pening, hvort sem þyrfti að koma pabba gamla róna fyrir á einhverju þjónustuhælinu, borga sálfræðitíma fyrir ofvirka vandræðabarnið eða fá nýjan mjaðmalið án þess að þurfa að bíða heila eilífð eftir plássi.

Svo auðvitað myndi það snarbæta gæði þjónustunnar sem fengist fyrir peninginn, ef hún væri á höndum einkaaðila sem þurfa að lifa í samkeppnisumhverfi.

 

Lítil þjóð þar sem allir eru meira eða minna vel stæðir, þar sem allir tengjast öllum, yrði betur stödd ef fólki yrði leyft að halda launum sínum óskertum, svo landsmenn hefðu efni á að hjálpa sér og sínum sjálfir. Ef eitthvað er, þá eru það frekar risaþjóðir á stærð við bandaríkin, þar sem fólk dreifir sér iðulega vítt og breitt um landið, fjarri vinum og vandamönnum, og auðnum er svo ójafnt skipt, sem þurfa á öflugu ríkisreknu velferðarkerfi að halda.

 

En hvað verður svo um þá sem hafa ekkert félagslegt öryggisnet? Við þurfum ekki að senda þá til Danmerkur (frekar en við viljum). Því í kerfi þar sem fólk er ekki skattpínt, hefur einstaklingurinn meiri tækifæri á að kaupa sér tryggingu sem verndar hann í ellinni, og hinn almenni borgari hefur meira aflögu til góðgerða. Þeir fáu sem ekki ættu neinn til að hjálpa sér, væru gleymdir bæði barnabörnum og stéttarfélögum, gætu fundið hjálp hjá góðgerðarfélögum sem alltaf hafa verið til, og styrkjast að öllu leyti þegar almenningur hefur meira milli handanna.

Enda ólíkt því sem margir sósjalistar vilja halda, verður fólk yfirleitt gjafmildara og meira annt um hag náungans eftir því sem það hefur meira aflögu, -en verður iðulega nískara og sjálfsinnaðra eftir því sem róðurinn fyrir lífsnauðsynjunum herðist (t.d. þegar helmingur launa þeirra er tekinn af þeim af útsendurum ríkisins).


mbl.is Kerfið hefur afskrifað pabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband