87. Einföld leið til að stórauka samkeppni og lækka verð: fellum niður tollskýrslugjald Póstsins

Fáir gera sér grein fyrir, fyrr en á reynir, að greiða þarf Póstinum sérstakt "þjónustugjald" þegar tekið er á móti tollskyldri vöru erlendis frá.

Þetta gjald leggst ofan á póstburðargjöldin, og er auðvitað í engu samræmi við kostnað Póstsins af tollafgreiðslunni.

Samkvæmt heimasíðu Póstsinser þetta þjónustugjald nú 450 kr. fyrir "einfalda skýrslu", en gjaldið getur hæglega farið upp í 2.500 kr, og uppúr. (Gjaldið er hærra hjá hraðpóstþjónustum eins og DHL)

Þetta gjald þýðir í raun að það verður margfalt óhagstæðara að kaupa erlendis frá stakar vörur, og hlutfallslega óhagstæðast fyrir vörur sem kosta 1000 til 3000kr, eða þar um bil.

Þetta gjald sem neytendur borga fyrir þá skelfilegu þjónustu að fá að borga tolla, dregur úr möguleikum okkar á að njóta lágrar álagningar á vöru erlendis.

Verðþrýstingur á Íslenska smásala minnkar sem því nemur, og myndu lögmál hagfræðinnar kenna okkur að vegna þessa þjónustugjalds er öll smávara á Íslandi í raun 450 kr dýrari út úr búð en hún þyrfti að vera. Í tilviki vöru sem kostar á milli 1000-3000 kr út úr búð á Íslandi er þetta að þýða að smásali getur lagt á einhversstaðar á bilinu 200-500% álagningu á innkaupsverð áður en hann þarf að hafa áhyggjur af erlendri verðsamkeppni.

Hér eru nokkur dæmi um hvernig þetta þjónustugjald hefur áhrif á verðlag:

Mynd 1: Samanburður á verði á leiknum Assassins Creed fyrir PS3 ef leikurinn er keyptur á Amazon.com annars vegar og sendur með USPS International Flat Rate Envelope, og hins vegar ef leikurinn er keyptur í BT, m.v. verðlista á heimasíðu þeirra

verdidag

 Eins og sést er verðlagið í BT stjarnfræðilega út úr kú miðað við verðið á Amazon. Útsöluverðið er nærri fjórfalt hærra í B2, og jafnvel þegar búið er að leggja á flutningskostnað, tolla virðisaukaskatt, gjöld og tollafgreiðslugjald, er varan keypt á Amazon næstum 50% ódýrari en ef varan er keypt í BT

Eftir á að hyggja er þetta ekki besta dæmið til að lýsa áhrifum tollþjónustugjaldsins og lýsir frekar gengdarlausri álagningu íslenskra verslana. Ég miða í dæminu hér að ofan við ódýran póstsendingarvalkost, svo pakkinn er um 6-10 daga að berast, en það mætti í raun kaupa rándýra hraðsendingarþjónustu og fá leikinn á 1-2 dögum, en samt spara heilmikið miðað við verðið í BT

Mynd 2: Samanburður á vöru sem myndi kosta 2500 kr út úr búð á Íslandi, og 2500 kr komin í hendurnar á kaupanda á Íslandi, keypt erlendis frá

 verdmedtollafgreidslugjaldiodyrvara

 Hér erum við með ódýrari vöru en í fyrra dæminu, og áhrif tollþjónustugjaldsins og sendingarkostnaðar eru því hlutfallslega hærri. Það sést líka að útsöluverðið á vörunni sem er keypt erlendis þarf þá að vera rétt rúmlega 1/5 af útsöluverði á Íslandi til að smásali á Íslandi þurfi að hafa áhyggjur af því að viðskiptavinir leiti erlendis eftir sömu vöru.

Eins og sést á mynd nr 1, þá fer það hins vegar oft nærri lagi að verðið á Íslandi sé einmitt fjórfalt-fimmfalt hærra en í betri netverslunum vestanhafs.

Smásali getur leyft sér álagningu upp á 200-300% áður en hann þarf að hafa áhyggjur af erlendri samkeppni.

Mynd 3: Samanburður á vöru sem kostar 2.500 kr ef ekkert tollþjónustugjald er lagt á

verdantollafgrgjaldsodyrvara 

Hér sjáum við loks dæmið þegar tollþjónustugjald hefur verið fellt niður. Þá þarf varan erlendis aðeins að kosta um 2/5 af útsöluverði á Íslandi.

Hérna getur íslenski smásalinn aðeins leyft sér rétt rúmlega 100% álagningu á innkaupsverð áður en hann þarf að hafa áhyggjur af erlendri verðsamkeppni.

 

Samantekt:

Tollþjónustugjald póstfyrirtækjanna er út úr kú, og engan veginn hægt að halda því fram að kostnaður póstsins við afgreiðslu á litlum böggli sé 450 kr (það tekur ekki 5 mínútur!) Þá hefði maður ætlað að póstburðargjaldið og tollupphæðin ættu að duga til að standa straum af allri meðhöndlun sendingarinnar.

Þetta gjald dregur stórlega úr verðsamkeppni innlendra smásala við erlenda, sér í lagi þegar um er að ræða ódýra vöru, t.d. á verðbilinu 1000-3000 kr.

Ef þetta tollþjónustugjald yrði afnumið þá yrði miklu meiri verðsamkeppni á íslenskum markaði, og verslunareigendur kæmust ekki upp með jafngengdarlausa álagningu og nú.


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband